DV um „Þresti“: Kyrrlátt kvöld við fjörðinn

þrestir-still-báturValur Gunnarsson fjallar um Þresti Rúnars Rúnarssonar í DV, en almennar sýningar á myndinni hefjast í kvöld. Hann gefur myndinni fjórar stjörnur og segir hana skipa sér fremsta í flokk þeirra bíómynda sem fjalla um hrylling íslenskrar æsku í dag.

Valur segir í umsögn sinni

Íslenska kvikmyndahásumarið heldur áfram, nú með nýjustu mynd Rúnars Rúnarssonar. Tveir hlutir virðast Rúnari helst hugleiknir, æskan og ellin. Ellinni voru gerð góð skil með stuttmyndinni Síðasti bærinn og síðan Eldfjalli. Æskan samkvæmt Rúnari birtist fyrst í stuttmyndinni Smáfuglar og hér er komið nokkurs konar systurverk hennar í fullri lengd.

Ungur strákur flytur til föður síns í afskekktan fjörð þegar mamma hans fer til útlanda. Í sjálfu sér er þetta ekkert nýtt, samanburðurinn á milli sveitar og borgar er eitt helsta minni íslenskra kvikmynda og sást síðast í París norðursins, Albatross og Bakk. En galdurinn hér liggur í útfærslunni.

Já, það að segja hæ við gamla æskuvinkonu felur í sér bráðahættu á að vera skallaður af núverandi kærasta. Já, það er ekkert að gera nema hella sig fullan, í landi þar sem alkóhólismi er ekki frumforsenda heldur einkenni. Og allt virðist þetta halda áfram kynslóð fram af kynslóð af því engum dettur neitt betra í hug.

Ingvar E. Sigurðsson er frábær í hlutverki föðurins sem þráir að tengjast syni sínum, en veit ekki hvernig á að bera sig að og kýs bokkuna í staðinn. Atli Óskar Fjalarsson virðist hafa sérhæft sig í að leika umkomulaus íslensk ungmenni og fer það honum nokkuð vel. Allt byggir síðan að hinu skelfilega lokaatriði sem óþægilegt er að horfa á, jafnvel þó að maður hafi séð það áður í Smáfuglum.

Þrestir skipar sér í flokk með helstu bíómyndum sem fjalla um hrylling íslenskrar æsku í dag ásamt Óróa og Webcam, og gott ef hún er ekki þeirra fremst.

Sjá hér: Kyrrlátt kvöld við fjörðinn – DV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR