spot_img

Viðhorf | Kynleg kvikmyndagerð

friðrik-erlingsson--landscape-portrettSíðustu daga hafa nokkrar konur í stétt kvikmyndagerðarmanna látið ýmis orð falla um „karllæga kvikmyndagerð“ útfrá þeirri hugmynd að settur verði tímabundinn kynjakvóti á úthlutun styrkja frá Kvikmyndamiðstöð, í þeim tilgangi að rétta hlut kvenna við úthlutanir handrits- og framleiðslustyrkja.

Flestar þessara kvenna, sem hafa látið í sér heyra, hafa verið ansi óvægnar í garð karlkyns kollega sinna, og hafa talað um ‘typpalykt’ af úthlutunum í gegnum tíðina og að konur séu almennt orðnar þreyttar á að horfa á myndir um ‘karla í krísu’, svo aðeins tvö ósmekkleg og ómálefnaleg dæmi séu nefnd hér.

Það er hreint með ólíkindum hvað konur telja sig hafa opið skotleyfi á karlmenn almennt um þessar mundir og í þessu sérstaka tilfelli, hvað sumar konur í kvikmyndagerð þykjast vera yfir kollega sína hafnar, einfaldlega vegna þess að þær eru af öðru kyni.

Greinar þær, sem birst hafa í fjölmiðlum og á netmiðlum frá konum í stéttinni, eru flestar uppfullar af svívirðingum í garð karla í stéttinni, líkt og karlmenn séu í raun einn hugur og einn líkami; sífellt svívirðandi konur, vaðandi yfir þær, hrifsandi frá þeim tækifærin, sparkandi í þær og ég veit ekki hvað og hvað, einfaldlega vegna þess að þeir geta það – og samkvæmt sumum þessara greina, þá geta karlmenn gert þetta einfaldlega vegna þess að þeir eru með utanáliggjandi kynfæri.

Ég held, í fyllstu einlægni, að jafn hjákátleg og vitfirrt orðræða hafi aldrei fyrr átt sér stað undir nafni pólitísks rétttrúnaðar – því annað hangir ekki á spýtunni en bara það: pólitískur réttrúnaður sem á upp á pallborðið núna og er svona líka feykivinsæll um þessar mundir.

Vilji einhver láta taka sig alvarlega í svona umræðu eru honum/henni sæmast að hafa eitthvað annað til málanna að leggja en að nudda sér utan í pólitískan réttrúnað eða arga á fólk sem er af öðru kyni. Að því sögðu vil ég taka það skýrt fram að ég er ekki að arga í þessum pistli, og alls ekki á konur sérstaklega – en ég tek mér þann rétt að hlæja upphátt að hverjum þeim sem gera sig bera að heimsku – af hvoru kyninu sem þeir tilheyra.

Af niðurlægingu minni sem karlmanns í kvikmyndagerð

Sjálfur hef ég mátt þola þá niðurlægingu, sem karlmaður í kvikmyndagerð, að ráðgjafi af kvenkyni hefur verið settur til að fjalla um mínar umsóknir. Ég átta mig auðvitað á því núna að slíkt er ekki aðeins ólíðandi – það er hrein aðför að mínu sköpunarverki, að ráðgjafi af kvenkyni sé látinn fjalla um mitt verk, því hvernig getur hún/þær nokkurn tímann skilið minn hugmynda- og tilfinningaheim, mína krísu og tilvistarangist sem einstaklings með utanáliggjandi kynfæri?

Enda hefur raunin verið sú að þau verk mín sem hafa í gegnum tíðina lent í höndum kven-ráðgjafa hafa í beinu framhaldi húrrað beinustu leið niður í hið svokallaða ‘development-hell’ (þróunar-helvíti) sem fór á endanum að snúast um það að gera breytingar í þeim tilgangi einum að gera persónulegum (en um leið síbreytilegum) smekk viðkomandi ráðgjafa til hæfis, svo helvítis fjármagnið fengist svo hægt væri nú að framleiða andskotans myndina. – Því á endanum var ég löngu hættur að hafa ánægju eða áhuga á viðkomandi verki, eftir fjögur, fimm, sex endurskrif á handriti, sem aldrei dugðu til að fullnægja kröfum kvenkyns ráðgjafans, persónulegum smekk hennar eða dularfullum hugdettum, sem afar snögglega urðu þungamiðjan í athugasemdunum – en ég hafði aldrei heyrt minnst á áður í hinu langa ferli.

Hvað mig varðar er eitt á hreinu: Verði næsta handritsumsókn mín (ef ég nokkurn tímann finn kjarkinn að nýju) sett í hendur kvenkyns ráðgjafa hjá Kvikmyndamiðstöð mun ég leggja fram stjórnsýslukæru og um leið öskra í blöðin og á netmiðlum og heimta mitt réttlæti sem kynvera með utanáliggjandi kynfæri, sem á það á hættu að sköpunarverk hans verði dregið í svaðið, tætt í sundur og fullkomlega misskilið af ráðgjafa með innvortis kynfæri.

En nóg af gríni í bili.

Aftur að alvöru málsins, sem er hlutverk ráðgjafa Kvikmyndamiðstöðvar.

Hvað er vandamálið?

Stóra vandamálið í kynjahallanum á úthlutun styrkja frá Kvikmyndamiðstöð er ekki hvort umsækjandi er með kynfærin innvortis eða utanáliggjandi. Stóra vandamálið er skorturinn á skýrum og afmörkuðum vinnureglum fyrir ráðgjafa Kvikmyndamiðstöðvar, svo þeir komist ekki lengur upp með að hafa ‘persónulega skoðun’ á umsóknum eða umsækjendum, heldur sé þeim gert að fjalla um þær á faglegan hátt, meta þær samkvæmt faglegri reglu, sem útilokar að persónulegt álit ráðgjafa hafi nokkuð um málið að segja.

Ráðgjöf þeirra er fyrst og fremst ætluð forstöðumanni, og á að vera leiðbeinandi fyrir hann/hana við úthlutun styrkja. Mæli ráðgjafi ekki með úthlutun, þá ber honum að rökstyðja þá niðurstöðu. Handritshöfundar/kvikmyndgerðarmenn geta þó fengið fund með ráðgjafa til þess að ræða verkið og ástæður synjunar. Stundum leiðir það til þess að höfundar ná að skilja hvað það er sem ráðgjafi er ósáttur við, og höfundum hefur stundum tekist að gera bragarbót á hugverki sínu í framhaldinu, sem þá hefur leitt til jákvæðrar umsagnar.

Margir handritshöfundar geyma umsagnir (rökstuðning) ráðgjafa í læstu gullskríni, því svo ótrúlegur samsetningur af þvættingi er ómetanlegt dæmi um fáheyrt hugmyndaflug og í sumum tilfellum hrein list.

Ástæðan er sú að ráðgjafar Kvikmyndamiðstöðvar virðast ekki skilja hlutverk sitt, eða hafa ekki þann ramma sem gerir þeim kleift að skila starfi sínu á faglegan hátt.

Ráðgjafi á ekki að hafa persónulegan skoðun á efni sögunnar. Ráðgjafa kemur efni sögunnar ekki við; það er listræn ákvörðun höfundar, leikstjóra og framleiðanda. Ráðgjafi gæti staðið frammi fyrir umsókn, hvers söguefni er það siðlaustasta og ógeðslegasta sem hann/hún hefur lesið á ævi sinni – en það er ekki efnið sem ráðgjafi á að meta, heldur framsetningin, strúktúrinn, trúverðugleiki persóna, útfrá þeim forsendum sem verkið sjálft leggur upp með. (t.d. verður trúverðugleiki persóna í fantasíu að vera metinn útfrá forsendum verksins, en ekki þeim raunveruleika sem ráðgjafi býr í, eða sem hann/hún telur persónulega vera trúverðugt eður ei.)

Það eina sem ráðgjafi á að meta er hvort framsetning höfunda á efninu sé líkleg til að skila handriti eða kvikmynd sem gengur upp samkvæmt almennum lögmálum frásagnarlistar.

Í 3. grein reglugerðar um Kvikmyndasjóð er sagt að ráðgjafar eigi að leggja ‘listrænt mat’ á umsóknir. Þetta er sami þvættingur sem er ástæða þess að úthlutunarnefndir starfslaunasjóða, velja nokkurn veginn sama fólkið, ár eftir ár, til að njóta starfslauna.

Hvernig er hægt að leggja ‘listrænt mat’ á hugmynd eða uppkast sem er ekki enn orðin að „listaverki“?  Svarið í stuttu máli: Það er ekki hægt.

„Listrænt mat“ er eins konar skálkaskjól fyrir ráðgjafa og meðlimi í úthlutunarnefndum starfslauna, sem þeir geta skotið sér á bakvið til að þurfa ekki að rökstyðja niðurstöðu sína. „Listrænt mat“ er hugtak sem er kjaftæði í eðli sínu – en það er hættulegt kjaftæði, því það gefur fáum aðilum vald til að veita fé til þeirra sem þeim þykir persónulega varið í, en heldur öðrum úti í kuldanum á meðan.

Allir sem vinna við listgreinar vita að list verður ekki til fyrr en verkinu er að fullu lokið – og stundum ekki einu sinni þá. Hin dularfulla ‘listræna’ er heldur ekki höndlanleg að neinu leyti; í besta falli verður hún til í huga áhorfandans (lesandans, njótandans). Störf í hvaða listgrein sem er byggja á lögmálum, reglu og formum sem þurfa að ganga upp; jafnvel tilfinningalausum verkfræðireglum, formfræði, stærðfræði.

‘List’ er það síðasta sem listamaður er að hugsa um þegar hann er að skapa. Svo hvers vegna í fjandanum er talað um að ‘listrænt mat’ einhverra ráðgjafa eiga að stýra fjármagni til listgreina? Það er vegna þess að reglurnar eru samdar af embættismönnum sem vita ekkert um hvað þeir eru að tala. Hið furðulega og fáránlega er, að hafi þessi lög eða reglugerðir verið borin undir starfandi listamenn í þessum greinum, þá virðast þeir hafa samþykkt þetta orðalag: ‘listrænt mat’ án þess að depla auga.

Nýjar vinnureglur fyrir ráðgjafa

Það þarf að semja nýjar og skýrari reglur um starf ráðgjafa hjá Kvikmyndamiðstöð; ramma sem útilokar persónulegt (og/eða ‘listrænt) mat, en styður við að ráðgjafinn nýti faglega þekkingu sína og reynslu til hins ýtrasta til að meta umsóknir.

Hér vil ég leggja til að fyrsta handritsumsókn sé send inn nafnlaus, eða undir dulnefni, líkt og í bókmenntasamkeppnum, svo ráðgjafa sé bjargað undan eigin fordómum gagnvart persónu eða kyni umsækjandans. Þá er það bara verkið sjálft sem ráðgjafi þarf að meta. Þetta gerir auknar kröfur á umsækjanda, sem er bara af hinu góða, að þeir brýni orðalag sitt og leggi sig fram um að gera sögunni greinargóð skil, með þeim hætti að hver sem kemur kaldur að efninu skilji um hvað það snúist og geti áttað sig á hvernig höfundur/höfundar ætli sér að vinna úr því.

Þegar nafnlaust verkefni hefur fengið samþykki kemur fyrst í ljós hver höfundur þess er. Næst skilar hann inn fyrstu drögum að handriti, sem aftur er þá metið útfrá faglegri þekkingu og reynslu ráðgjafa, og á þeim forsendum sem liggja í verkinu sjálfu. Skipti nú ráðgjafi um skoðun, og ákveði að mæla ekki með frekari styrk (t.d. framleiðslustyrk) á því verki sem hann áður mælti með, þá yrði sá sveigjanleiki áfram til staðar, líkt og nú er, að fá annan ráðgjafa til að meta verkið. Það er að vísu tímafrekt og setur bæði höfunda og framleiðendur í mikinn bobba oft á tíðum, en hér þyrfti að gæta þess að verkið sjálft fengi sem faglegasta og réttmætasta meðferð í ferlinu, þ.e. handritið, sem strúktúr og upplegg að kvikmynd, og að ráðgjafi sé ekki að grauta í efni sögunnar sjálfrar, eins og alltof oft hefur verið raunin.

Verð nú unnið hratt og vel að nýjum reglum og ramma á starfi og ábyrgð ráðgjafa Kvikmyndamiðstöðvar er ég sannfærður um að miklar og jákvæðar breytingar muni eiga sér stað í úthlutunum handrits- og framleiðslustyrkja – og að konur þurfi síst að kvíða því að verk þeirra verði síður metin að verðleikum en verk karla.

Því þegar upp er staðið og ljósin kvikna í salnum er áhorfendum ekki efst í huga af hvoru kyni höfundar eða framleiðendur eru, heldur hvort upplifunin hafi verið sönn, hvort sagan hafi snert við þeim, sagt þeim eitthvað nýtt um þá sjálfa eða speglað raunveruleikann með nýjum og óvæntum hætti.

Friðrik Erlingsson
Friðrik Erlingsson
Friðrik Erlingsson er fyrrverandi handritshöfundur.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR