Heimildamyndin “Ég vil vera skrítin” frumsýnd 3. september

i want to be weirdHeimildamyndin Ég vil vera skrítin (I Want to be Weird) verður frumsýnd í Bíó Paradís  kl. 20 fimmtudaginn 3. september næstkomandi. Stjórnandi myndarinnar er Brynja Dögg Friðriksdóttir og er þetta hennar fyrsta mynd í fullri lengd.

Ég vil vera skrítin fjallar um bresku listakonuna Kitty Von-Sometime sem hefur verið búsett á Íslandi í tíu ár. Hún er hvað þekktust fyrir The Weird Girls Project, sem er röð verka eða myndbandsþátta þar sem konur eru í forgrunni.

Hver þáttur er einstakur og byggist upp ákveðinni hugmyndafræði. Kitty fær hóp kvenna með sér í hvern þátt en markmið verkanna er meðal annars að styrkja sjálfstraust og líkamsímynd kvenna og hvetja þær til að sleppa fram af sér beislinu.

Heimildamyndin fylgir Kitty eftir í daglegu lífi og við vinnu á verkum sínum. Konurnar eru margar í lífi Kittyar, þær veita henni innblástur og verk hennar efla þær og styrkja á ólíkan máta.

Myndin var sýnd á Skjaldborgarhátíðinni í vor þar sem hún fékk góðar viðtökur. Þá verður hún sýnd á norrænu kvikmyndahátíðinni Nordisk Panorama í september, en myndin er tilnefnd til verðlauna sem besta norræna heimildamyndin.

Hægt er að fræðast um sýningartíma og miðasölu hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR