RIFF kynnir fyrsta skammt af myndum

Ingrid Bergman er viðfangsefni heimildamyndarinar Jäg är Ingrid.
Ingrid Bergman er viðfangsefni heimildamyndarinnar Jäg är Ingrid.

RIFF, Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, verður sett þann 24. september og er dagskrá hátíðarinnar óðum að taka á sig mynd. Í dag tilkynnir hátíðin um 40 myndir sem verða á dagskrá hátíðarinnar í þremur flokkum hátíðarinnar en stefnt er að því að sýna hátt í 100 myndir í fullri lengd á meðan hátíðinni stendur.

Myndirnar sem eru kynntar í dag eru í keppnisflokkunum heimildarmyndir, Open Seas þar sem sýndar eru myndir sem getið hafa sér gott orð á kvikmyndahátíðum og A Different Tomorrow, flokkur mynda sem taldar eru geta bætt heiminn.

Á hátíðinni verða meðal annars frumsýndar heimildarmyndir um tvær af skærustu stjörnum Hollywood frá upphafi.

Í myndinni Jäg är Ingrid er fjallað um ævintýralega sögu Ingrid Bergman, ungrar stúlku frá Svíþjóð sem á skömmum tíma varð skærasta stjarna Hollywood. Birt eru áður óbirt myndbrot, viðtöl og dagbókarbrot Bergman í myndinni sem fékk sérstök dómnefndarverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Cannes í vor. Rætt er við vini og vandamenn Bergman sem margir hverjir eru frægir leikarar, þ.á.m. dóttur hennar Isabellu Rosselini.

Þá verður jafnframt til sýninga myndin Listen to me Marlon. Ef horft er yfir alla þekktustu leikara Hollywood á 20. öld þá er óhætt að fullyrða að fáar stjörnur hafi skinið jafn skært og Marlon Brando. Fáir voru jafn umdeildir en samtímis dáðir eins og maðurinn sem varð yngstur allra til að hljóta Óskarinn sem besti leikari í aðalhlutverki fyrir ‘On the Waterfront(1954) en sniðgekk síðar athöfnina í mótmælaskyni þegar hann átti að taka á móti síðari Óskarsverðlaunum sínum fyrir leik í ‘Guðföðurnum(1972). Þessi nánast sjálfsævisögulega mynd er sett saman úr gríðarlegu safni hljóðupptakna sem Brando tók sjálfur upp og notar þannig hans eigin rödd til að afhjúpa manninn á bak við goðsögnina. Myndin var frumsýnd á Sundance heimildarmyndahátíðinni í ár.

Frekari umfjöllun og stiklur um myndir má finna inn á vef RIFF, riff.is/is/dagskra.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR