Sólveig Anspach kvikmyndaleikstjóri lést í gær, 7. ágúst, 54 ára að aldri. Banamein hennar var krabbamein. Sólveig hafði nýlokið tökum á nýjustu bíómynd sinni, Sundáhrifin (L’effet aquatique), á Íslandi og í Frakklandi þar sem hún bjó lengst af ævinnar.
Sólveig var fædd í Vestmannaeyjum 8. desember 1960, dóttir Högnu Sigurðardóttur arkitekts og Gerhardt Anspach. Eftir dvöl í New York settist fjölskyldan að í París. Sólveig stundaði nám við hinn virta kvikmyndaskóla FEMIS í París og útskrifaðist þaðan 1990.
Fyrstu árin gerði hún heimildamyndir og hélt því áfram alla sína tíð, en 1999 sendi hún frá sér fyrstu bíómynd sína, Haut les Couers! eða Hertu upp hugann! Myndin fjallar um unga konu sem greinist með krabbamein en er jafnframt barnshafandi. Sólveig byggði myndina að nokkru á eigin reynslu, en hún hafði fyrst greinst með meinið á tíunda áratug síðustu aldar.
Myndin var frumsýnd í Director’s Fortnight á Cannes og hlaut einnig tilnefningar til Ceasars, frönsku kvikmyndaverðlaunanna. Með aðalhlutverkið fór Karin Viard sem síðan hefur getið sér gott orð sem ein fremsta leikkona Frakka.Næsta mynd hennar var Stormviðri eða Stormy Weather (2003), sem gerð var í Vestmannaeyjum með Élodie Bouchez, annarri franskri leikkonu sem síðar átti eftir að verða kunn. Þetta var einnig í fyrsta sinn sem Sólveig vann með skáldkonunni Diddu Jónsdóttur, en þær áttu síðar eftir að gera þríleik sem samanstendur af Skrapp út (2006), Queen of Montreuil (2011) og loks Sundáhrifunum sem tekin var upp í sumar.
2013 sendi Sólveig frá sér myndina Lulu femme nue eða Lulu nakin, sem naut mikillar velgengni í heimalandinu og víðar, var meðal annars tilnefnd til Ceasar verðlaunanna og gekk vel í kvikmyndahúsum. Karin Viard fór þar aftur með aðalhlutverkið. Franska dagsblaðið Le Monde minnist Sólveigar á vef sínum og nefnir meðal annars að faðir hennar hafi ráðið henni frá kvikmyndagerð. Sólveig hafi hinsvegar hlustað á ráð móður sinnar sem sagði henni að stúlkur gætu allt en yrðu að vera harðari en piltar.Í viðtali við Le Monde í upphafi árs 2014 var Sólveig spurð hversvegna hún væri svona iðin, en hún gerði alls 14 bíómyndir og heimildamyndir á innan við tveimur áratugum. Sólveig svaraði:
„Hvað drífur mig áfram? Kannski það að ég veit eins og allir aðrir að lífið getur endað skyndilega. Ég hugsa held ég einfaldlega meira um það en aðrir.“