Kvikmyndakommúna stofnuð í haustbyrjun

Ungmennahúsið Molinn í Kópavogi mun hýsa kvikmyndakommúnu í vetur.

Til stendur að stofna svokallaða kvikmyndakommúnu í haustbyrjun þar sem upprennandi kvikmyndagerðamenn munu hafa aðsetur í vetur gjaldfrjálst.

Að sögn Birnis Jóns Sigurðssonar forsvarsmanns framtaksins, verður Kvikmyndakommúnan sjálfstæður ókeypis kvikmyndaskóli sem leggur upp með að nemendur kanni rödd sína sem listamenn og byggi hana á sterkum grunni frá faglærðum kennara.

Birnir Jón segir meðal annars:

Markmið kommúnunnar er að efla samvitund og sköpunarkraft með því að steypa saman samfélag metnaðarfullra kvikmyndagerðarmanna. Lára Marteinsdóttir kvikmyndagerðarmaður mun sjá um kennslu sem verður á hverjum föstudegi. Hún er útskrifuð úr California Institute of the Arts og stundar nú doktorsnám við Háskóla Íslands. Að auki mun ég, sem umsjónarmaður Kvikmyndakommúnunnar, í samstarfi við Láru, leitast við að fá gestakennara til að halda fyrirlestra en þeir yrðu undantekning frá venjulegum „skóladegi“.

Aðra hvora viku verða haldnar sýningar á sígildum kvikmyndum, þar sem nemendur læra að afkóða og skilja á djúpstæðari hátt myndmál (semiotics), kvikmyndasögu og ýmsar kvikmyndakenningar og greinar. Hinar vikurnar verða áframhaldandi umræður og kafað ofan í sköpunina í allri sinni dýrð. Kennd verður handritsgerð, gerð “storyboarda” og klippi- og upptökuvinna og munu nemendur vinna bæði sjálfstætt og í samvinnu að einstaklings og/eða hópverkefnum sem kennari setur fyrir. Umsjónarmaður verður til staðar alla þá daga sem kennari er fjarverandi.

Kommúnan byggir á þeirri hugsjón að nemendur leiti að sinni eigin rödd og hvetur þá áfram í að kanna flæðið og verkferlið bakvið skapandi vinnu. Nemendur læra leiðir til að kanna innri mið, vinna með undirvitundina og gera æfingar sem örva sköpunarflæði og tæran spuna, til dæmis verður farið í hugleiðslu og hún innleidd í skóladaginn. Farnar verða ferðir út á land, þar sem núvitund verður styrkt og sköpunarkrafturinn virkjaður.

Kommúnan gerir þær kröfur til meðlima sinna að þeir mæti á hverjum degi og heiðri þannig eigin sköpunarkraft, sem og tíma sinn og annarra, líkt og um mikilvæga vinnu sé að ræða.

Skólagjöld eru engin. Hugsjón Kommúnunnar er að nám eigi ekki að þurfa að kaupa, það eigi að vera frítt en ekki háð fjárhagi einstaklingsins, heldur frekar metnaði hans og hæfileikum.

Aðstandendur hvetja áhugasama metnaðarfulla einstaklinga til þátttöku. Stofnfundur kommúnunnar verður þann 10. september kl. 20 og til stendur að kennsla hefjist daginn eftir. Aðsetur hennar verður í Molanum, ungmennahúsi í Kópavogi, sem staðsett er á móti Salnum og Gerðarsafni við Hábraut 2. Tímar verða alla virka daga frá 10:00 til 14:00.

Áhugasamir geta sent tölvupóst á kvikmyndakommunan@gmail.com.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR