Kvikmyndaráð skoðar nýjan kvikmyndasamning og kvikmyndalög

Áslaug Friðriksdóttir formaður Kvikmyndaráðs.
Áslaug Friðriksdóttir formaður Kvikmyndaráðs.

Kvikmyndaráð undir forystu Áslaugar Friðriksdóttur vinnur nú að tillögum um endurnýjun kvikmyndasamnings stjórnvalda og bransans og skoðar einnig gildandi kvikmyndalög frá 2001. Kvikmyndaráði er ætlað veita stjórnvöldum ráðgjöf og gera tillögur um stefnu og markmið á sviði kvikmyndalistar.

Klapptré hafði samband við Áslaugu sem hafði eftirfarandi að segja um málið:

Við vinnum nú að því að skoða framkvæmd og árangur gildandi samkomulags um stefnumörkun og aðgerðir til að efla íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu árin 2012-2015 og meta árangur síðastliðinna ára. Jafnframt var óskað eftir því að kvikmyndaráð leiddi vinnu að nýju samkomulagi kvikmyndagerðarmanna og stjórnvalda um eflingu kvikmyndagerðar. Þá er kvikmyndaráði falið að fara yfir kvikmyndalög nr.137/2001 og gera tillögur um breytingar á lögunum ef þess er talin þörf.

Aðspurð hvort ráðið tæki við tillögum frá almenningi sagði Áslaug svo vera, senda skuli tillögur eða pælingar á hana sem formann en stíla erindið á allt ráðið, „ég mun svo koma þessu áfram,“ sagði hún. Senda má tillögur á þetta netfang.

Kvikmyndasamningurinn, eða „Samkomulag um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu árin 2012– 2015“ rennur út á þessu ári. Í samningnum er kveðið á um þær upphæðir sem renna til sjóðsins á samningstímabilinu sem og helstu verkefni sem fénu skal veitt til.

Kvikmyndalög nr. 137/2001 skilgreina starfsramma Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, Kvikmyndasafns Íslands og Kvikmyndaráðs. Þau má lesa hér.

Reglugerð um Kvikmyndasjóð fjallar um starfstilhögun sjóðsins, hverskonar verkefni skuli styrkt og hvaða skilyrði þarf að uppfylla varðandi umsóknir. Gildandi reglugerð má lesa hér.

Menntamálaráðherra skipar í kvikmyndaráð til þriggja ára í senn, formann og varaformann án tilnefningar, en hina fimm fulltrúana samkvæmt tilnefningum Félags kvikmyndagerðarmanna, Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda-SÍK, Samtaka kvikmyndaleikstjóra, Félags kvikmyndahúsaeigenda og Bandalags íslenskra listamanna. Varamenn eru skipaðir með sama hætti.

Kvikmyndaráð er þannig skipað:

Áslaug Friðriksdóttir, formaður, skipuð án tilnefningar,
Börkur Gunnarsson,  varaformaður, skipaður án tilnefningar,
Hrafnhildur Gunnarsdóttir, tilnefnd af Félagi kvikmyndagerðarmanna,
Anna María Karlsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda – SÍK,
Friðrik Þór Friðriksson, tilnefndur af Samtökum kvikmyndaleikstjóra,
Björn Sigurðsson, tilnefndur af Félagi kvikmyndahúsaeigenda,
Kristín Jóhannesdóttir, tilnefnd af Bandalagi íslenskra listamanna.

Varamenn:

Rúnar Freyr Gíslason, skipaður án tilnefningar,
Dóra Takefusa, skipuð án tilnefningar,
Fahad Falur Jabali, tilnefndur af Félagi kvikmyndagerðarmanna,
Hilmar Sigurðsson, tilnefndur af Sambandi íslenskra kvikmyndaframleiðenda – SÍK,
Silja Hauksdóttir, tilnefnd af Samtökum kvikmyndaleikstjóra,
Þorvaldur Árnason, tilnefndur af Félagi kvikmyndahúsaeigenda,
Bergsteinn Björgúlfsson, tilnefndur af Bandalagi íslenskra listamanna.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR