„Þrestir“ heimsfrumsýnd á Toronto, „Hrútar“ einnig valin

Rammi úr Þröstum. Mynd: Sophia Olsson.
Rammi úr Þröstum. Mynd: Sophia Olsson.

Þrestir Rúnars Rúnarssonar verður heimsfrumsýnd á Toronto hátíðinni sem fram fer dagana 10.-20. september. Myndin verður í kjölfarið sýnd á San Sebastian hátíðinni á Spáni eins og áður hefur komið fram. Hrútar Gríms Hákonarsonar hefur einnig verið valin á hátíðina en báðar myndirnar verða sýndar í Contemporary World Cinema flokknum.

Áður hefur verið greint frá vali heimildamyndarinnar Sjóndeildarhringur eftir Berg Bernburg og Friðrik Þór Friðriksson sem og sjónvarpsþáttaraðarinnar Ófærð úr smiðju Baltasars Kormáks og Sigurjóns Kjartanssonar.

Mikkel Jersin, einn af framleiðendum myndarinnar, er bjartsýnn á framhaldið:

“Það er þvílíkur heiður og frábær árangur að vera á viku millibili á tveimur af mikilvægustu kvikmyndahátíðum heimsins.”

Hér má lesa frásögn Jersin af tökum myndarinnar á Íslandi síðasta sumar.

Rúnar segist mest hlakka til að frumsýna myndina heima á Íslandi, en hún fer í almennar sýningar á vegum Senu þann 16. október.

“Ég er fyrst og fremst stoltur af samverkafólki mínu sem hefur vaðið eld og brennistein til að gera Þresti mögulega. Kvikmyndaframleiðsla er dýr útgerð og þessar viðurkenningar á okkar störf eiga  eftir að reynast okkur vel í fjármögnun á framtíðar verkefnum.“

Þrestir er ljóðrænt drama sem fjallar um Ara, 16 ára pilt, sem sendur er á æskustöðvarnar vestur á firði til að dvelja hjá föður sínum um tíma. Samband hans við föður sinn er erfitt og margt hefur breyst í plássinu þar sem hann ólst upp. Ari endurnýjar kynnin við Láru, æskuvinkonu sína og þau laðast að hvort öðru.

Rúnar Rúnarsson leikstýrir og skrifar handritið að Þröstum. Mikkel Jersin og Rúnar Rúnarsson eru aðalframleiðendur myndarinnar fyrir Nimbus Film. Framleiðandi er Birgitte Hald og meðframleiðendur eru Lilja Ósk Snorradóttir og Igor Nola. Í aðalhlutverkum eru Atli Óskar Fjalarsson, Ingvar E. Sigurdsson, Rakel Björk Björnsdóttir og Rade Serbedzija. Tónlist myndarinnar er samin af Kjartani Sveinssyni.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR