RÚV skorið niður við trog, ráðherrar skammta úr hnefa

RÚV loftmyndÚtvarps­gjald mun lækka úr 17.800 krón­um í 16.400 krón­ur á næsta ári samkvæmt nýjustu fréttum. Þetta þýðir um 400 milljóna króna tekjumissi að sögn RÚV og nemur því heildarhagræðing næsta árs um 500 milljónum. Á móti ákveður ríkisstjórnin að RÚV fái „sérstakt framlag uppá 175 milljónir króna til eflingar inn­lendr­ar dag­skrár­gerðar“ eins og það er orðað. 

Á mbl.is er haft eftir Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra að hann muni á grund­velli þjón­ustu­samn­ings sjá til þess að 175 millj­ón­un­um verði varið til að kaupa efni frá sjálf­stætt starf­andi fram­leiðend­um. Þess ber að geta að síðasti þjónustusamningur við RÚV var gerður 2011 og rennur út um áramót. Því er ekki ljóst hvað felst í þessum orðum ráðherrans enda liggur nýr þjónustusamningur ekki fyrir, né hefur mögulegt inntak hans verið rætt opinberlega.

Þá segist ráðherra vera „ánægður með niðurstöðuna“ í samtali við mbl.is. Þetta hljóta að teljast einkennileg ummæli í ljósi þess að hann tjáði stjórnendum RÚV síðastliðið vor að þeir forsætisráðherra myndu styðja að draga fyrirhugaða lækkun útvarpsgjalds til baka. Menntamálaráðherra lagði frumvarp þar að lútandi fram í ríkisstjórn um síðustu mánaðamót en fékk síðan ekki stuðning við afgreiðslu málsins þegar á reyndi. Sjaldgæft mun vera að svo sé.

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri segir niðurstöðuna mikil vonbrigði í samtali við ruv.is. Hann segir að verið sé að skerða tekjur RÚV að raunvirði umtalsvert meira en sem nemur sérframlaginu. Forgangsraðað hafi verið í þágu innlends efnis og sérframlagið muni vega eitthvað á móti en þrátt fyrir það þurfi nú að skera niður í dagskrá og þjónustu.

Stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa nefnt að hagræða þurfi um 400-500 milljónir, ef lækkun útvarpsgjalds bættist við launahækkanir á næsta ári. Við blasir að slík „hagræðing“ verður fyrst og fremst á kostnað dagskrár – sem um leið þýðir að velta í kvikmynda- og sjónvarpsgeiranum hér á landi dregst saman.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR