Vinna heimildaþáttaröð um mál Sophiu Hansen

Dagskrárgerðarkonurnar Salóme Þorkelsdóttir og Viktoria Hermannsdóttir vinna nú að heimildaþáttaröð um mál Sophiu Hansen fyrir RÚV.

Segir hér um málið: Forræðisdeila hinnar íslensku Sophiu Hansen og hins tyrkneska Halims Al var eitt stærsta fréttamál tíunda áratugarins. Barátta Sophiu Hansen fyrir að endurheimta dætur sínar frá Tyrklandi, eftir að Halim Al hafði numið þær á brott, fór vart fram hjá nokkru mannsbarni á Íslandi á sínum tíma. Málið var í hámæli árum saman og barátta Sophiu löng og ströng, en að lokum fyrir bí. Dætur hennar tvær, Dagbjört og Rúna, fluttu aldrei aftur heim til Íslands og ólust upp hjá föður sínum í Tyrklandi. Á þessu ári eru liðin 34 ár frá því forræðisdeila Sophiu og Halims Al hófst.

Viktoría segir þetta eitt eftirminnilegasta mál allra tíma.

Þessi hugmynd hefur fylgt okkur í nokkur ár en undanfarið höfum við legið yfir heimildum þessu tengdu. Það er mikið magn myndefnis sem er til frá þessu máli enda fylgdu fjölmiðlar málinu vel eftir á sínum tíma og það er ótrúlegt að horfa á þetta mál með augum dagsins í dag. Það er svo margt þarna sem við höldum að þjóðin muni líta öðrum augum í dag en á þeim tíma. Þetta er sorglegt mál en mikilvægt að gera það upp. Þetta er spennandi verkefni og við vonumst til að ná að tala við sem flesta sem tengdust málinu og þekkja til.
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR