Framleiðendur fagna miðastyrkjum en gagnrýna biðina

Mynd: Guðmann Thor Bjargmundsson – Örvarpið.

Kvikmyndaframleiðendur fagna frumvarpi um að veita miðastyrki vegna sýninga íslenskra kvikmynda síðustu ár. Þeir gagnrýna þó hvernig staðið er að úthlutuninni og segja mikinn fjármagnskostnað hafa lagst á framleiðendur vegna þess hversu seint staðið er við samkomulag um styrkina. 

Þetta kemur fram á ruv.is, en þar segir einnig:

Menntamálaráðherra lagði fyrir skemmstu fram frumvarp um að miðastyrkir yrðu greiddir vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hérlendis. Styrkirnir leggjast ofan á hvern seldan miða.

Frumvarpið byggir á samkomulagi stjórnvalda og kvikmyndaframleiðenda frá 2012. Síðan þá hafa verið veittar fjárheimildir á fjárlögum á hverju ári til að greiða styrkina en ekki hefur verið hægt að greiða þá út þar sem löggjöfin hefur ekki verið til staðar.Samkomulagið um miðastyrki var hugsað til að vega upp á móti því að byrjað var að leggja virðisaukaskatt á aðgöngumiða að sýningum á íslenskum kvikmyndum í ársbyrjun 2013.

Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Kvikmyndamiðstöð og Samtök kvikmyndaleikstjóra fagna því að frumvarpið er komið fram. Framleiðendurnir gagnrýna þó að ekki sé gert ráð fyrir fastri upphæð á hvern seldan miða heldur deilist föst upphæð á hverju ári niður á hvern seldan miða. Styrkurinn er því á bilinu 203 til 730 krónur á hvern miða.

Þetta segja kvikmyndaframleiðendur að sé ekki í samræmi við upphaflegan skilning ráðuneytisins og Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda. Þá segjast þeir hafa orðið fyrir miklu tjóni vegna þess hversu mjög hefur dregist að greiða út styrkina. Það hafi leitt til uppsafnaðs fjármagnskostnaðar.

Sjá hér: Fagna miðastyrkjum en gagnrýna aðferðina | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR