„Hvítur, hvítur dagur“ valin á virtar evrópskar samframleiðslumessur

Hlynur Pálmason leikstjóri ásamt Ingvari E. Sigurðssyni sem fara mun með aðalhlutverkið í Hvítur, hvítur dagur (Mynd: Kim Dahl Hansen).

Hvítur, hvítur dagur, væntanleg bíómynd Hlyns Pálmasonar, var annað tveggja verkefna í vinnslu sem voru valin á tvo mikilvægustu samframleiðslumarkaði Evrópu, Cinemart í Rotterdam og Berlinale Co-production Market í Berlín. Rotterdam hátíðin er nú hafin en Berlinale hefst 15. febrúar. Um er að ræða sérstakt samstarf þessara tveggja hátíða sem kallast Rotterdam-Berlinale Express og var stofnað 2002.

Anton Máni Svansson, framleiðandi verksins fyrir hönd Join Motion Pictures, er nú staddur í Rotterdam:

Mér hefur verið sagt að Cinemart fókusi meira á höfunda á meðan samframleiðslumarkaður Berlinale fókusi meira á framleiðendur. Saman eru þessir markaðir því ansi sterkt teymi og gott er að geta fylgt Cinemart fundunum eftir eingöngu tveimur vikum síðar á Berlinale hátíðinni. Hér erum við að kynna verkefnið fyrir fagfólki úr ýmsum sviðum kvikmyndabransans og að leitast eftir áhugasömum dreifingaraðilum, sjónvarpsstöðvum og okkar þriðja meðframleiðanda, með það fyrir augum að ná að klára fjármögnun á næstu mánuðum. Við erum nú þegar komin í samstarf við Snowglobe í Danmörku.

Hvítur, hvítur dagur segir frá lögreglustjóra lítils sjávarþorps sem hefur verið frá starfi síðan eiginkona hans hvarf fyrir tveimur árum. Hann einbeitir sér að því að byggja hús fyrir dóttur sína og fjölskyldu þar til hann finnur upplýsingar sem fá hann til að gruna mann í þorpinu um að hafa átt í sambandi við konu hans og því mögulega tengjast hvarfi hennar. Grunur hans breytist fljótt í þráhyggju sem leiðir hann til róttækra gjörða sem setja hann og hans nánustu í mikla hættu. Þetta er saga um hefnd, sorg og skilyrðislausa ást.

Stefnt er að tökum í ágúst, en verkefnið hlaut nýlega þróunarstyrk frá Creative Europe sem nam 50 þúsund evrum eða rúmu sex milljónum króna.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR