spot_img

Ingvar Þórðarson um “Óþekkta hermanninn”: Liggur við að þú finnir fyrir kúlunum

Rammi úr The Unknown Soldier.

Ingvar Þórðarson er í viðtali við Morgunblaðið um finnsku stórmyndina Óþekkta hermanninn (Tuntematon sotilas), sem hann og Júlíus Kemp eru meðframleiðendur að. Myndin er nú sýnd í Bíó Paradís.

Myndin er byggð er á samefndri metsölubók Väinö Linna frá árinu 1954. Sögusviðið er Finnland í hinu svokallaða Framhaldsstríði sem Finnar háðu við Sovétríkin í seinni heimsstyrjöldinni, á árunum 1941-44 og er sagan sögð frá sjónarhorni fjölda hermanna í tiltekinni herdeild, allt frá herkvaðningu til vopnahlés.

Tvær kvikmyndir hafa áður verið gerðar eftir bókinni sem telst til sígildra verka í finnskri bókmenntasögu og kvikmyndin nýja er sú dýrasta sem gerð hefur verið í Finnlandi. Hún hefur notið feikilega góðrar aðsóknar þar í landi allt frá því hún var frumsýnd í lok október í fyrra, á hundrað ára afmæli finnska lýðveldisins. Hefur nú selst rétt tæp milljón aðgöngumiða sem jafngildir því að næstum fimmti hver Finni hafi séð myndina.

Úr viðtalinu:

Framlag hersins milljóna virði

Þeir Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson, sem reka framleiðslufyrirtækið Kisa, eru meðframleiðendur Óþekkta hermannsins en þeir hafa komið að framleiðslu ellefu finnskra kvikmynda frá árinu 1999, að sögn Ingvars. „Í þessu tilviki erum við beðnir að vera með og komum með evrópskan pening inn í þetta en engan pening frá Íslandi því sjóðurinn var ekki til í þetta,“ segir Ingvar.

Hann segir framleiðslu myndarinnar hafa kostað um sjö milljónir evra. „En í raun og veru kostaði hún mun meira því finnski herinn lánaði okkur herstöðvar og gerði alls konar hluti fyrir okkur.

Þannig að það má eiginlega segja að hún hafi kostað í peningum sjö milljónir evra en finnski herinn lét okkur fá sem samvaraði fimm til sex milljónum,“ útskýrir Ingvar og bætir við að hver finnsk herstöð sé á stærð við höfuðborgarsvæðið og skógi vaxin.

Ingvar segir að um 55.000 manns hafi sóst eftir því að fara með aukahlutverk í myndinni, hlutverk hermanna og 5.000 verið valdir úr þeim hópi. Og þennan her þurfti að fæða og veita húsaskjól, sauma búninga og flytja milli staða.

40 þúsund miðar í forsölu

Ingvar segir ástæðuna fyrir því að bókin var kvikmynduð í þriðja sinn vera 100 ára lýðveldisafmæli Finnlands í fyrra. „Og Finnar eru um 5,5 milljónir og myndin er að skríða í milljón selda miða,“ segir Ingvar. Slík aðsókn sé stórkostleg og ekki síst í ljósi þess hversu mikil afþreying sé í boði nú til dags.

Sem dæmi um þá eftirvæntingu sem ríkti í Finnlandi fyrir myndinni nefnir Ingvar að 40 þúsund miðar hafi verið seldir í forsölu. „Þessi aðsókn í Finnlandi hefur vakið athygli um allan heim,“ segir Ingvar en myndin sló met þar í landi hvað aðsókn varðar að innlendri kvikmynd yfir frumsýningarhelgi.

En hvernig gagnrýni hefur myndin fengið? „Einróma lof,“ svarar Ingvar. „Þú verður ekki svikinn af Óþekkta hermanninum, þetta er mögnuð mynd,“ bætir hann við og að til séu tvær útgáfur af myndinni, sú lengri þrjár klukkustundir og sú alþjóðlega, sem sýnd verður á Íslandi, tvær klukkustundir og korter.

Leikstýrir Sendiherranum

Leikstjóri myndarinnar er Aku Louhimies og mun hann leikstýra annarri kvikmynd sem Ingvar og Júlíus framleiða, kvikmynd eftir skáldsögu Braga Ólafssonar, Sendiherranum, en handrit hennar skrifar Jónas Knútsson. Ingvar segir myndina hafa verið fimm ár í undirbúningi og reiknað með að tökur hefjist næsta vetur. Hann segir ekki búið að velja leikara en að verið sé að vinna í þeim málum. Kvikmyndin verður á ensku, mun bera titilinn The Ambassador og verður tekin upp á Íslandi og í Litháen sem eru sögusvið bókarinnar.

Spurður að því hvenær kvikmyndin verði frumsýnd segir Ingvar að gera megi ráð fyrir því að það verði eftir tvö ár. Og Kisi er með fleira á prjónunum, framleiðir m.a. næstu kvikmynd Baldvins Z, Lof mér að falla, sem verður frumsýnd í september á þessu ári.

Einn þeirra þekktustu

Ingvar er spurður að því hvort Louhimies sé frægur í Finnlandi og svarar hann því til að hann sé einn af þekktustu leikstjórum Finnlands. „Hann gerði til dæmis mjög fræga mynd, Frozen Land, sem var talin ein af bestu myndunum í Evrópu árið 2005 og hann er þekktur að því að gera mjög raunsæjar kvikmyndir. Í Óþekkta hermanninum ertu bara í stríðinu, það liggur við að þú finnir fyrir kúlunum,“ segir Ingvar og bætir við fróðleiksmola: „Það var slegið heimsmet í sprengingum í þessari mynd. Metið átti James Bondmyndin Spectre og þetta er bara í Heimsmetabók Guinness,“ segir hann en 65 kg af sprengiefni voru notuð í tökur á einu atriða kvikmyndarinnar, um tvöfalt meira en notað var í eitt af atriðum Spectre.

Sjá nánar hér: „Ligg­ur við að þú finn­ir fyr­ir kúl­un­um“

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR