spot_img

Mik­il vel­gengn­i í ís­lenskr­i kvik­mynd­a­gerð

Kvikmyndaframleiðendur segja að tilkoma streymisveita hafi gjörbylt fjármögnunarmöguleikum í kvikmyndaframleiðslu. Á árinu 2020 var mikill hagnaður í íslenskri kvikmyndagerð. Fjallað er um þetta í Fréttablaðinu.

Á vef Fréttablaðsins segir:

Síðasta ár var einstaklega gott fyrir íslenska kvikmyndagerð að sögn framleiðenda og vel hefur gengið að fá fjármögnun bæði innan lands og utan.

Hilmar Stefánsson, framkvæmdastjóri Saga Film, segir að fyrirtækinu hafi gengið virkilega vel að fá erlenda samstarfsaðila með í ýmis verkefni í kvikmyndagerð. „Þegar kemur að efni á borð við þessar stærri og flóknari seríur, eins og Ráðherrann, Stellu Blómkvist eða Systrabönd, þá einfaldlega verðum við að fá erlenda samstarfsaðila með,“ segir Hilmar og bætir við að það sé aðeins ódýrara efnið sem er framleitt með það að markmiði að sýna það eingöngu á Íslandi.

Elli Cassata, framleiðandi hjá Pegasus, segir að fyrirtækið einblíni á framleiðslu fyrir innlenda aðila. „Við erum aðeins í því að framleiða fyrir innlenda aðila og höfum verið að vinna í verkefnum á borð við Leynilögguna og Hamarinn. Leynilöggan seldist vel úti en hún var fyrst og fremst framleidd fyrir íslenskan markað,“ segir Elli og bætir við að vinsældir Leynilöggunnar hafi komið skemmtilega á óvart. „Leynilöggan hefur verið að skila okkur nokkrum tugum milljóna. Þetta var mynd sem var gerð fyrir rétt um 100 milljónir en hefði, ef vel ætti að vera, verið gerð fyrir 300 milljónir en þá hefðum við ekki fengið neinar tekjur fyrir hana. Þannig að við náðum að lágmarka kostnað verulega við gerð myndarinnar.“

Agnes Johansen, framleiðandi hjá RVK Studios, segir að streymisveiturnar hafi breytt fjármögnunarmöguleikum hjá framleiðendum. „Framleiðslan hefur gengið vel og það sem er jákvætt er að með tilkomu streymisveitnanna eru komnir frekari fjármögnunarmöguleikar fyrir okkur og það breytir miklu,“ segir hún og bætir við að streymisveiturnar hafi keypt mikið af efni frá RVK Studios. „Streymisveiturnar hafa verið að kaupa sýningarrétt á efni eins og Ófærð 1 og 2 og nú hefur Netflix keypt sýningarréttinn á Ófærð 3 fyrir flest öll svæði heims nema Þýskaland og Ísland. Fyrr á þessu ári framleiddum við sjónvarpsþættina Kötlu fyrir Netflix og það gekk þannig fyrir sig að Netflix fjármagnaði þættina frá upphafi til enda og við skiluðum þeim tilbúnum. Síðan sá Netflix alfarið um að koma þeim í dreifingu.“

Hilmar segir að þeirra helstu erlendu samstarfsaðilar séu Sky og NBC. „Okkar helstu verkefni hafa verið með Sky og NBC. Þegar við þróum verkefnin þá gerum við það með alþjóðlegu ívafi og með það í huga að reyna að höfða til stærri markaðar heldur en Íslands,“ segir hann og bætir við að vegna ákveðinna ástæðna hafi þeir lítið unnið með Netflix. „Þegar þú vinnur með Netflix þá eignast þeir í rauninni allan réttinn. Það hefur í rauninni ekki hentað okkur. Við höfum meira verið að horfa á, þegar við erum að framleiða, að þá erum við að byggja upp vörumerki. En við erum í góðum samskiptum við Netflix og látum verkefnin sjálf ráða þessu. Þau eru jafn misjöfn og þau eru mörg. Við höfum líka unnið með ViaPlay og þýskum aðilum.“

Elli bætir við að Pegasus hafi selt efni til Netflix. „Kosturinn við að selja til Netflix er hvað það er mikil kynning fyrir fyrirtækið. Við framleiddum tvær seríur fyrir Netflix, Hraunið og Hamarinn, og þá birtist lógóið okkar á þessari stóru streymisveitu sem var mikil kynning fyrir okkur þó svo Netflix borgi ekki mikið fyrir svona seríur.“

Hann segir jafnframt að bíómyndir eigi oft erfitt uppdráttar eins og staðan er í dag. „Það er svo mikið úrval af rosalega góðu efni sem þú getur nálgast í Apple TV heima hjá þér. Það gerir það að verkum að fólk fer sjaldnar í bíó,“ segir Elli og bætir við að Pegasus sé með spennandi verkefni í bígerð.

„Við erum um þessar mundir að vinna að risastóru verkefni. Það er sjónvarpsþáttasería sem er byggð á hinum vinsæla bókaflokki Ísfólkinu. Í tengslum við það verkefni verðum við að sækja okkur fjármagn erlendis því það er einfaldlega af þeirri stærðargráðu.“

Agnes segir að RVK Studios hafi ekki framleitt neitt efni sem var eingöngu ætlað fyrir Ísland. „Í raun og veru er útilokað fyrir okkur að fara í framleiðslu nema annað hvort í samframleiðslu eða með öðrum löndum. Með því getum við sótt fjármagn erlendis og líka með forsölu. Við þurfum nefnilega að tryggja fjármögnun að stærstum hluta áður en við förum af stað.“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR