spot_img

Ný reglugerð um Kvikmyndasjóð til umsagnar hagsmunaaðila

Drög að nýrri reglugerð um Kvikmyndasjóð hefur verið birt á samráðsgátt stjórnvalda. Hagsmunaaðilar eru hvattir til að kynna sér þau áður en frestur til umsagnar rennur út þann 13. desember næstkomandi.

Hér má lesa tilkynningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem segir:

Mennta- og menningarmálaráðuneyti kynnir til umsagnar nýja reglugerð um Kvikmyndasjóð. Reglugerð um Kvikmyndasjóð hefur verið breytt fjórum sinnum frá setningu hennar árið 2003 og því flókið fyrir haghafa og hagsmunaaðila að fylgja reglugerðarbreytingum eftir. Með tilkomu nýrrar reglugerðar um Kvikmyndasjóð er markmiðið að auka gegnsæi við úrvinnslu umsókna og fleira sem snertir réttindi umsækjanda og skyldur Kvikmyndamiðstöðvar Íslands í því sambandi, ásamt því að uppfæra vegna breyttra aðstæðna í kvikmyndagerð. Á grundvelli ofangreinds er lagt til að reglugerð nr. 229/2003 verði afnumin og þess í stað komi ný reglugerð.

Helstu nýmæli reglugerðarinnar eru:

· Að kveðið skal á um skiptingu fjárveitinga til Kvikmyndasjóðs í stefnumiðaðri áætlun Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, sbr. 31. gr. laga um opinber fjármál nr. 123/2015, að höfðu samráði við kvikmyndaráð.

– Lögð er áhersla á jafnréttismat umsókna og miðstöðinni gert skylt að birta upplýsingar á vef sínum um framkvæmd jafnréttismats.

– Gerður er greinarmunur á styrkjum sem veittir eru til kvikmyndagerðar og styrkja til verkefna sem falla undir kvikmyndamenningu, t.d. til kvikmyndahátíða, þátttöku i vinnustofum o.fl. enda er ekki gerðar sömu kröfur um umsóknargögn, greinargerðir o.þ.h. við veitingu þannig styrkja.

– Samfara öðrum tækniframförum og nýjum miðlum er reglugerðin uppfærð að því markmiði að styrkir til kvikmyndagerðar nái til birtingar kvikmynda á nýjum miðlum og fjölmiðlaveitum.

– Ásamt styrkjum til kvikmyndaframleiðslu til sjálfstæðra framleiðenda er Kvikmyndasjóði einnig heimilt að veita styrki til tilrauna-/sprotaverkefna nýrra framleiðenda og leikstjóra. Er þetta gert með það að markmiði að efla tilrauna-/sprotaverkefni í kvikmyndagerð þeirra sem eru að taka sín fyrstu skref í kvikmyndagerð.

– Skerpt er á skyldu umsækjanda að með umsókn vegna kvikmyndagerðar þurfi ávallt að liggja fyrir skriflegir samningar við handritshöfunda, tónhöfunda, leikstjóra og eftir atvikum aðra höfundaréttarhafa verkefnisins þar sem fram kemur m.a. að viðkomandi rétthafi, sérstaklega höfundur bókmenntaverks, handrits og tónverks, séu upplýstir um styrkveitingar og stöðu hins styrkhæfa verkefnis, sbr. 41. og 42. gr. höfundalaga nr. 73/1972 með síðari breytingum.

– Skerpt er á málsmeðferð umsókna í sjóðinn hvað varðar aðkomu kvikmyndaráðgjafa.

Smelltu hér til að skoða málið nánar/senda inn umsögn.

Niðurstöður samráðsins verða birtar í gáttinni þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem bárust.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR