[Kitla] SNERTING kemur í bíó 29. maí

Kitla kvikmyndarinnar Snerting eftir Baltasar Kormák kom út í dag.

Í henni kemur fram að myndin sé væntanleg í kvikmyndahús þann 29. maí næstkomandi.

Snerting gerist á mismunandi tímaskeiðum á Íslandi, Englandi og í Japan. Þegar sígur á seinni hlutann leggur Kristófer upp í ferð án fyrirheits þvert yfir hnöttinn, í leit að svörum við áleitnum spurningum og að ástinni sem rann honum úr greipum en sem hann bar þó alltaf í hjarta sér. Við förum með honum á vit minninganna og til Japans, þar sem svörin er að finna.

Egill Ólafsson fer með aðalhlutverkið. Auk Egils fara Pálmi Kormákur, Sigurður Ingvarsson, María Ellingsen, Theódór Júlíusson, Starkaður Pétursson og Benedikt Erlingsson með hlutverk í myndinni auk japönsku leikaranna Koru, Yoko Narahashi, Masatoshi Nakamura, Meg Kubota og Eiji Mihara.

Baltasar og Agnes Johansen framleiða fyrir RVK Studios í samvinnu við Mike Goodridge hjá Good Chaos í Bretlandi. Baltasar leikstýrir og skrifar handritið með höfundinum Ólafi Jóhanni Ólafssyni en þetta er fyrsta bók hans sem verður að kvikmynd.

Focus Features mun dreifa Snertingu Baltasars Kormáks í Bandaríkjunum. Universal mun dreifa myndinni á heimsvísu. Focus Features er dótturfélag Universal og eitt af kunnari kvikmyndafyrirtækjum vestanhafs. Meðal nýlegra mynda fyrirtækisins eru Tár eftir Todd Field, The Northman eftir Robert Eggers og Belfast eftir Kenneth Branagh.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR