Friðrik Þór: Má örugglega segja það sem ég vil, annars kem ég bara heim í bútum

Friðrik Þór Friðriksson ræddi við Rás 2 um þá ákvörðun sína að þiggja boð um að vera formaður dómnefndar Kvikmyndahátíðarinnar í Moskvu.

Á vef RÚV segir meðal annars:

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Moskvu verður haldin í 46. sinn í næstu viku. Margt vestrænt kvikmyndagerðarfólk hefur ákveðið að sniðganga keppnina að mestu leyti vegna innrásar Rússlands í Úkraínu. Úkraínsk stjórnvöld hafa hvatt til að sniðgöngu hátíðarinnar eins og annarra rússneskra menningarviðburða.

Kvikmyndahátíðin er því umdeild og það kann að koma sumum spánskt fyrir sjónir að Friðrik Þór Friðriksson stýri þar dómnefnd sem verðlaunar bestu kvikmynd hátíðarinnar. „Ég get alveg skilið þá gagnrýni. En ég held að það að einangra fólk frá menningarlífi sé ekki rétt, sérstaklega ekki fólki sem stendur ekki beint að þessu stríði.“

Viðskiptahöft komu í veg fyrir kvikmyndasýningar

„Þetta byrjaði á því að þeir ætluðu að hafa yfirlitssýningar á myndunum mínum,“ segir Friðrik. „Mér hefur alltaf verið tekið mjög vel þarna í Rússlandi og í Sovét gamla. Síðan kom í ljós að Kvikmyndamiðstöð má ekki senda myndirnar mínar til Rússlands.“

„Viðskiptahöft ná yfir í menningarsamskipti. Þetta bara vissi ég ekki,“ segir Friðrik. „En ég get rætt þetta við Pútín í góðum vodkadrykk og kavíar.“

Rússland þekkt fyrir að vera í fremstu röð kvikmynda

Í ljósi þess að ekki var mögulegt að sýna kvikmyndir Friðriks á hátíðinni var hann beðinn um að sitja í dómnefnd. „Svo var ég allt í einu orðinn forseti dómnefndar sem væri venjulega mikill heiður og er það kannski,“ segir Friðrik. „Rússneskar kvikmyndir hafa alltaf verið í fremstu röð í gegnum tíðina þannig þessi hátíð hefur alltaf verið hátt metin.“

„Fyrst og fremst er ég að fara þangað af forvitni. Mig langar að horfa á rússneskar kvikmyndir,“ segir Friðrik. „Núna fæ ég tækifæri til að sjá hvað þau eru að gera við þessar aðstæður sem eru núna því stríðið hefur varað svo lengi.“

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR