spot_img

1978, íslenskar kvikmyndir, Wim Wenders, Fujica og fyrsta Kvikmyndahátíð Listahátíðar

Í tilefni þess að Bíótekið sýndi í gær heimildamyndina Bónda (1975) eftir Þorstein Jónsson rifjaðist ýmislegt upp fyrir mér.

Ég sá þessa mynd Þorsteins á fyrstu Kvikmyndahátíð Listahátíðar í febrúar 1978. Ég var þrettán ára pjakkur og hafði í mánuðinum á undan filmað mína fyrstu stuttmynd.

Árið 1978, Fujica single 8 og ég

Á þessum tíma voru íslenskar kvikmyndir vægast sagt sjaldséðar. En eitthvað lá í loftinu.

Vegna þess að pabbi, Sverrir Kr. Bjarnason, vann hjá Sjónvarpinu kom ég stundum í heimsókn og kynntist fólki eða sá til þess að störfum. Sjónvarpið var ekki aðeins að gera fréttir og allskonar þætti, heldur einnig leikið efni og heimildamyndir. Þetta var staðurinn. Þarna var stór hópur fólks að búa til kvikmyndir (leikið efni) og þætti. Þetta hafði aðeins staðið í 12 ár og var því enn mikil nýjung. Framboð á þessu efni var mjög af skornum skammti að manni fannst, en upplifunin af Sjónvarpinu var hús sem iðaði af lífi, fjöri og sköpun. Þetta var gríðarlega spennandi svo ekki sé fastar að orði kveðið. Og bíómyndirnar voru að fæðast í íslensku samhengi. Spurningin varðandi svo margt sem tengdist kvikmyndagerð á þessum tíma var mjög áleitin: Hvernig á að gera þetta? Hún átti við um allt; innihald, efnistök, tækni, vinnslu og svo framvegis.

Glíman við þessa spurningu er alltaf heillandi áskorun. Svarið er að sjálfsögðu síbreytilegt. En þarna var þessi spurning ný, fyrir mér.

Á þessum tíma voru ýmsir að störfum (on and off) í Sjónvarpinu við Laugaveg 176 sem áttu eftir að láta til sín taka í bíómyndunum sem komu á næstu árum; Hrafn Gunnlaugsson, Egill Eðvarðsson, Guðný Halldórsdóttir, Baldur Hrafnkell Jónsson, Jóna Finnsdóttir, Andrés Indriðason, Kristín Pálsdóttir, Þorsteinn Jónsson, Jón Hermannsson, Þráinn Bertelsson, Björn G. Björnsson, Gunnar Baldursson, Ragna Fossberg, Sigfús Guðmundsson, Ragnheiður Harvey og ýmsir fleiri. Snorri Þórisson og Jón Þór Hannesson stofnuðu Sagafilm þetta ár eftir að hafa unnið í mörg ár við Sjónvarpið. Sigurður Sverrir Pálsson og Erlendur Sveinsson stofna Lifandi myndir ásamt Þórarni Guðnasyni einnig þetta ár og voru með kvikmyndaþætti í Sjónvarpinu (þar á meðal var kennsla í kvikmyndagerð, geggjað stöff fyrir unglingspilt).

[Myndasýning] Bakvið tjöldin á upphafsárum Sjónvarpsins

Óskar Gíslason, sem gert hafði heimildamyndir og bíómyndir á fimmta og sjötta áratuginum, vann þá sem framköllunarmeistari og ljósmyndari hjá Sjónvarpinu. Rámar í að hafa séð til hans á hvíta sloppnum.

Reynir Oddsson hafði árið áður sýnt fyrstu íslensku bíómyndina, Morðsögu, í tja… allavega fjórtán ár. 79 af stöðinni (gerð af danska leikstjóranum Erik Balling og Nordisk Film en að undirlagi Íslendinga og á íslensku) var sýnd 1962. Sjálfur vissi ég varla af henni þá, hún var frumsýnd löngu áður en ég fæddist. Og ég var of ungur til að sjá Morðsögu við frumsýningu, hún var bönnuð innan 16.

Ég vissi af nokkrum öðrum kvikmyndagerðarmönnum utan Sjónvarpsins. Vilhjálmur Knudsen, Páll Steingrímsson, Ernst Kettler og Gísli Gestsson koma í hugann. Síðar sama ár keypti ég hjá Gísla mína fyrstu kameru, Fujica single 8mm. Frábær græja, gerði nokkrar myndir á hana. Gísli var (er enn?) með Fuji umboðið, Ljósmyndavörur.

Svona leit hún út, Fujica single8mm kameran sem ég keypti hjá Gísla Gestssyni 1978 fyrir fermingarpeningana mína. Single8 systemið frá Fuji var öðruvísi en super8 sem Kodak stóð fyrir og var mun útbreiddara. Munurinn var ekki aðeins í filmunni sem slíkri heldur var single8 eins og kassetta með einfaldri þræðingu meðan super8 hafði mun flóknari þræðingu. Þetta þýddi að hægt var að spóla ótakmarkað til baka á single8 og “superimposa” til dæmis titla og annað yfir áður upptekna mynd, meðan aðeins var hægt að spóla 18, 24 eða 36 ramma til baka á super8.

Einn í viðbót vil ég nefna: Ásgeir Long. Ég gaf út mitt fyrsta kvikmyndablað, Fókus, þetta sama ár. Datt hann í hug þegar ég var að velta því fyrir mér við hvaða kvikmyndagerðarmann ég ætti að tala í fyrsta (og eina) tölublaðinu. Hann varð fyrir valinu vegna þess að ég hafði komist yfir nokkurra síðna bækling sem hét Íslensk kvikmyndasaga. Þar var hans getið. Ég fór til hans í Garðabæinn, hann sagðist vera hættur að gera kvikmyndir. Hér er smá brot úr viðtalinu:

— Hvernig stendur kvikmyndagerð á íslandi? —Hörmulega. — Finnst þér að ríkið ætti að styrkja hana? — Nei, ríkið á ekki að koma nálægt þessu. Þetta er helv… væl í sumum kvikmyndagerðarmönnum, þeir geta alveg eins bjargað sér eins og aðrir menn, því markaðurinn er geysistór. Þetta væl um að ríkið eigi að koma inní það hefur mér aldrei líkað.
Ásgeir Long og ég, 1978.

1978: Árið núll eða reboot?

Fyrsta Kvikmyndahátíð Listahátíðar var um margt merkileg. Hrafn Gunnlaugsson var framkvæmdastjóri Listahátíðar, Davíð Oddsson formaður stjórnar og Friðrik Þór Friðriksson sá um kvikmyndahátíðina. Á dagskrá voru meðal annars mynd Nagisa Oshima Veldi tilfinninganna (1976) sem gerði allt vitlaust, Sweet Movie (1974) eftir Dusan Makavejev (gestur), Strozsek (1977) eftir Werner Herzog, A Woman Under the Influence (1974) eftir John Cassavetes, Giliap (1975) eftir Roy Andersson og Ameríski vinurinn (1977) eftir Wim Wenders sem þá var einn ein helsta stjarna evrópskra kvikmynda. Hann kíkti í heimsókn.

Hátíðarinnar er einnig minnst fyrir það að þar tilkynnti Vilhjálmur Hjálmarsson menntamálaráðherra um stofnun Kvikmyndasjóðs. Fyrsta úthlutun var árið eftir og 1980 komu fyrstu myndirnar, Land og synir, Veiðiferðin og Óðal feðranna.

En hátíðin sýndi einnig íslenskar kvikmyndir. Tíndar voru saman nokkrar heimildamyndir og stuttmyndir sem gerðar höfðu verið á árunum á undan og sýndar saman í stóra sal Háskólabíós. Dagskráin var svona:

  • Bóndi (1975) eftir Þorstein Jónsson.
  • 240 fiskar fyrir kú (1972) og Ern eftir aldri (1975) eftir Magnús Jónsson (föður Ara Alexanders).
  • Reykjavík, ung borg á gömlum grunni (1974) eftir Gísla Gestsson.
  • E.E. hjólbarðakerfið (1976) eftir Örn Harðarson.
  • Ballaðan um Ólaf liljurós (1977) eftir Rósku og Manrico Pavolettoni.
  • Gegnum gras, yfir sand (1977) eftir Þorstein Úlfar Björnsson.
  • Lilja (1978) eftir Hrafn Gunnlaugsson.

Einnig var sýnd utan þessarar sýningar lokamynd Ágústs Guðmundssonar frá National Film School, Lifeline to Cathy (1977).

Óneitanlega sérkennilegur samsetningur, svona eins og verið sé að tína til flest það sem til er í húsinu. En einhversstaðar verður að byrja.

Áhugavert að í þessum hópi er að finna marga sem komu að fyrstu bíómyndunum eftir stofnun sjóðsins. Þarna eru Hrafn (Óðalið), Ágúst (Land og synir) og Gísli (framleiðandi og tökumaður Veiðiferðarinnar) sem allir sendu frá sér myndir 1980. Þorsteinn Jónsson kom inn í annarri umferð (Punktur punktur komma strik, 1981) og Róska og maður hennar Manrico frumsýndu bíómyndina Sóley 1982.

Það má því líta á þessa kvikmyndasýningu og árið sem slíkt sem einskonar núllpunkt í sögu íslenskra kvikmynda. Eða kannski reboot, ekki má gleyma því að ýmislegt hafði verið áður gert.

Og hvað man ég frá þessari sýningu? Kannski helst myndir Magnúsar Jónssonar, þær vöktu forvitni mína. Þarna var verið að skoða íslenskt samfélag í esseyjuformi og satírutón. Maður hafði ekki séð svona fyrr. Lilja var skemmtilega spúkí á köflum, en kannski hefði mátt sleppa sögumanni í voice over (minnir að það hafi verið Laxness sjálfur, myndin var byggð á smásögu hans). Man nokkrar lýrískar glefsur úr Gegnum gras, yfir sand eftir Þorstein Úlfar, þetta var skólamynd hans úr London Film School. Man lítið úr Bónda, efnið hefur kannski ekki höfðað mjög til þrettán ára drengs. Þetta sagnaminni, einsetukarlinn sem annaðhvort yfirgefur sveitabæinn eða stendur frammi fyrir því, hefur verið dálítið áberandi í íslenskum kvikmyndum og sjónvarpi gegnum árin. Enn er verið að gera myndir í þessum dúr.

Í dómnefnd þessarar íslensku mini-hátíðar sátu Baldur Hrafnkell Jónsson kvikmyndatökustjóri og síðar framleiðandi, gríski leikstjórinn Pantelis Voulgaris, Thor Vilhjálmsson rithöfundur og fyrrnefndur Wim Wenders. Niðurstaðan varð að veita Bónda Þorsteins verðlaunin.

Í Morgunblaðinu tjáir Wenders sig um sumar þessara mynda og klykkir svo út með eftirfarandi:

“…langar mig mjög til þess að mæla með þvi við dómnefndina, íslenzk yfirvöld, og sérhvern þann sem hefur með málið að gera, eða hefur áhuga á íslenzkri kvikmyndagerð, að íhuga alla möguleika til samvinnu milli sjónvarps, innlendrar kvikmyndagerðar og væntanlegrar aðstoðar ríkisins. Þetta land er of lítið til þess að bera uppi sjónvarp og kvikmyndagerð óháð hvort öðru. Ég veit af eigin raun að jafnvel í landi sem Þýzkalandi, er það hið sameinaða átak, sem hefur gert tilveru og vöxt hinnar nýju þýzku kvikmyndagerðar mögulega.“
Smelltu til að stækka.
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR