Baltasar hyggst gera kvikmynd eftir SNERTINGU Ólafs Jóhanns

Baltasar Kormákur hefur tryggt sér kvikmyndaréttinn að bókinni Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson og hyggst gera mynd eftir henni á næsta ári. Þetta kemur fram á vef RÚV.

Þar segir:

Skáldsagan Snerting eftir Ólaf Jóhann Ólafsson kom út í nóvember. Samkvæmt lista Félags íslenskra bókaútgefenda var hún mest selda bókin hér á landi í fyrra. Og nú hefur Baltasar Kormákur tryggt sér kvikmyndaréttinn að bókinni.

„Ég gat ekki lagt hana frá mér. Ég las hana og var ekki búinn fyrr en sjö um morguninn. Ég var algjörlega heltekinn, mér finnst þetta frábær bók. Hún er ekki bara spennandi heldur nær hún á einhvern lúmskan hátt að halda manni við efnið. Og hún kemur manni á óvart,“ segir Baltasar. „Mig hefur lengi langað til að gera ástarsögu. Og það hefur verið erfitt að finna áhugavert efni sem er alvöru í þeim málum. En þetta náði mér algjörlega og þetta nær að tengja söguna og heiminn í þessari mjög einföldu sögu.“

Ísland, Japan og Lundúnir

Ólafur Jóhann er hæstánægður með að til standi að gera mynd eftir bókinni.

„Það leggst bara mjög vel í mig. Og sérstaklega að það skuli vera þessi leikstjóri sem geri það,“ segir rithöfundurinn. „Það verður gaman að sjá þessa karaktera í höndunum á Baltasar og á tjaldinu, og að sjá hvernig þeir koma út.“

Snerting gerist á Íslandi, í Japan og í Lundúnum, á mismunandi tímaskeiðum, og því ljóst að framleiðslan verður ekki einföld.

„Það eru erlendir leikarar í þessu, japanskir leikarar, breskir leikarar og íslenskir leikarar. Þannig að það verður ekkert einfalt að gera þetta. En ég tel mig vera kominn í þá aðstöðu að ég geti látið af því verða,“ segir Baltasar.

Þannig að þetta verður stór pródúksjón?

„Þetta verður mjög stór pródúksjón.“

Þetta er fyrsta bókin eftir Ólaf Jóhann sem verður að kvikmynd, en hann ætlar sjálfur að skrifa handritið.

„Já Baltasar bað mig að skoða það. Ég var svona hikandi í upphafi. Svo sat þetta í mér og ég byrjaði að máta orð á síðu og ég er eitthvað kominn af stað.“

Þannig að þú ert bara byrjaður að skrifa handrit?

„Já það þýðir ekkert að bíða.“

Ekki nógu gamall

Aðspurður segir Baltasar að hann sé ekki búinn að ákveða hver eigi að leika aðalsöguhetjuna, Kristófer.

„Ég er svona að hugsa, en það er ekkert komið lengra. Enda væri kannski ekki viðeigandi að tilkynna það án þess að tala við viðkomandi.“

Og það verður ekki þú sjálfur?

„Nei. Það kemur ekki til greina. Í fyrsta lagi er ég ekki orðinn nógu gamall og í öðru lagi held ég að aðrir séu betur til þess fallnir.“

Baltasar er á leið til Suður-Afríku til þess að gera kvikmyndina Beast sem skartar Idris Elba í aðalhlutverkinu. Hann stefnir svo á að hefja tökur á Snertingu snemma á næsta ári.

Þannig að þetta gæti orðið jólamyndin 2022?

„Af hverju ekki? Af hverju ekki?“ segir Baltasar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR