Þriðja syrpa ÓFÆRÐAR verður sambland af vestra og Íslendingasögum

Nýjasta syrpa Ófærðar verður sambland af vestra og Íslendingasögum, segir Baltasar Kormákur leikstjóri í spjalli við Fréttastofu RÚV.

Á vef RÚV segir:

Sjónvarpsþættirnir Ófærð hafa notið mikilla vinsælda. Engar leiknar íslenskar þáttaraðir hafa fengið meira áhorf hér á landi. Vinsældir þáttanna hafi einnig náð út fyrir landsteinana. Fyrstu tvær þáttaraðirnar voru meðal annars sýndar á Netflix og Amazon. Tökur á þriðju seríunni hafa staðið yfir að undanförnu, og þeim lauk nú fyrir skömmu.

„Þetta er búið að vera flókið ár,“ segir Baltasar Kormákur, leikstjóri. „En það hefur gengið mjög vel og við höfum komist í gegnum þetta. Og undir það síðasta var auðvitað farið að létta aðeins um COVID. Það voru einhverjar tafir, einhverjir leikarar sem voru settir í sóttkví, sem tafði okkur. En þetta hefur samt verið frábært ár að mörgu leyti fyrir kvikmyndagerð.“

Hvað geturðu sagt um þessa seríu?

„Hún verður spennandi. Mjög spennandi. Og töluvert öðruvísi en fyrri seríurnar. Það er aðeins öðruvísi tónn í henni.“

Hvernig þá?

„Það eru þarna atburðir, kannski eitthvað skáldað, sem við höfum ekki séð áður. Það er þarna trúar-költ sem við búum til á Íslandi. Það er tengt ásatrú. Og mótorhjólagengi, sem eru nú þekkt hérna, sem lendir saman. Og þetta verður svolítið eins og Íslendingasaga eða vestri.“

Ófærð 3 verður sýnd á RÚV síðar á þessu ári. „Þetta verður í haust í sjónvarpinu, og svo fer þetta á Netflix,“ segir Baltasar.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR