spot_img

Baltasar Kormákur um “Ófærð 2”: Vildi segja eitthvað sem skiptir máli

Baltasar Kormákur (Mynd: RÚV).

„Markmiðið var að reyna að gera betur. Mig langaði til að nota tækifærið og fjalla um eitthvað sem skiptir mig máli og nota þrillerinn, án þess að tapa spennu og skemmtanagildi, til þess að fjalla um viðkvæmari mál eins og Ísland og landvernd,” segir Baltasar Kormákur um nýja syrpu þáttaraðarinnar Ófærð sem frumsýnd verður á RÚV annan dag jóla.

Í þessari annarri syrpu eru þættirnir tíu líkt og í þeirri fyrstu. Leikstjórar auk Baltasars eru Ugla Hauksdóttir, Börkur Sigþórsson og Óskar Þór Axelsson. Handrit skrifa Clive Bradley og Sigurjón Kjartansson, en einnig koma Margrét Örnólfsdóttir og Holly Phillips að einum þætti hvor.

Í fyrsta þætti er reynt að ráða iðnaðarráðherra af dögum á Austurvelli. Andra (Ólafur Darri Ólafsson) er falið að stýra rannsókn málsins sem leiðir hann á kunnugar slóðir norður í landi, þar sem Hinrika (Ilmur Kristjánsdóttir) hefur nú tekið við stöðu lögreglustjóra. Þegar verkstjóri í jarðvarmavirkjun í nágrenninu finnst myrtur taka hlutirnir óvænta stefnu.

Af vef RÚV:

Veður setti strik í reikninginn

Síðasta þáttaröð gerðist í myrkri og snjó í þorpi sem var ófært úr. Þessi gerist að hausti og að miklu leyti uppi á hálendinu.

„Það var tekin ákvörðun um að gera þessa seríu í hausti, sem gerði okkur lifið erfitt vegna þess að veturinn varð snjóþungur og miklu meiri snjór en hafði verið veturinn áður,“  segir Bergsteinn Björgúlfsson, sem stýrir tökum ásamt Árna Filippussyni. „Við vorum að berjast við of mikinn vetur í öllum útitökum sem voru flestallar á Stór-Reykjavíkursvæðinu og þurftum þess vegna að fara inn í stúdíó og redda okkur í kringum það en það gekk allt upp á endanum.“

Hlutur kvenna stækkaður

Baltasar segist hafa tekið til sín gagnrýni á fyrri þáttaröðina um að hlutur kvenna mætti vera stærri. „Ég vona að fólk sjái að það eru frábærir kvenperformansar í þessari seríu. Sérstaklega þegar líður á hana, sem ég er rosalega stoltur af.“

Ilmur Kristjánsdóttir bregður sér aftur í hlutverk Hinrikku. „Þegar við hittum hana er hún orðin lögreglustjóri á Siglufirði, tekur á móti Andra sem er fluttur aftur til Reykjavíkur. Ég saknaði þess í síðustu seríu að það var ekki farið meira inn í hennar persónulega líf, af því að maður varð forvitinn um hjónabandið hennar og svona. og það er gert í þessari seríu, þannig við kynnumst henni betur.“

Sjá nánar hér: Vildi segja eitthvað sem skiptir máli

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR