spot_img

Baltasar fær heiðursviðurkenningu frá forseta Íslands

Útflutningsverðlaun forseta Íslands voru veitt á Bessastöðum í gær, en þar hlaut Baltasar Kormákur heiðursviðurkenningu fyrir eftirtektarverð störf á erlendri grundu.

Vísir segir frá:

Samhliða afhendingu Útflutningsverðlaunanna var Baltasar Kormáki, kvikmyndaframleiðanda, leikstjóra, leikara, með meiru, veitt heiðursviðurkenning fyrir eftirtektarverð störf á erlendri grundu. Meðal fyrri verðlaunahafa eru meðal annars frú Vigdís Finnbogadóttir, Helgi Tómasson listdansstjóri og Björk.

„Baltasar útskrifaðist sem leikari frá Listaháskóla Íslands árið 1990 og hóf þá störf hjá Þjóðleikhúsinu þar sem hann lék í og leikstýrði sýningum næstu árin. Snemma á ferlinum hóf hann að framleiða og leikstýra eigin sjálfstæðum kvikmyndaverkefnum. 101 Reykjavík kom út árið 2000 og var fyrsta verkefnið sem kom honum á kortið erlendis, en kvikmyndin vann til verðlauna á hinum ýmsu kvikmyndahátíðum, auk þess að koma Baltasar á lista Variety yfir topp 10 leikstjóra til að fylgjast með.

Meðal kvikmynda sem hann hefur framleitt eru A Little Trip to Heaven, Mýrin, Brúðguminn, Djúpið og Eiðurinn sem hafa allar fengið mjög góðar viðtökur á Íslandi sem og erlendis. Þá hefur Baltasar leikstýrt og framleitt erlendar kvikmyndir, má þar nefna myndirnar Everest, Contraband og 2 Guns.

Baltasar byrjaði snemma að einbeita sér að framleiðslu, skrifum og leikstjórn kvikmynda. Hann stofnaði fyrirtækið Blueeyes Production árið 1999. Árið 2012 setti hann síðan á laggirnar framleiðslufyrirtækið RVK Studios sem tók yfir kvikmyndaframleiðsluna hjá móðurfélaginu Blueeyes og byrjaði að framleiða sjónvarpsþætti fyrir alþjóðamarkað. Fyrsta þáttaröðin af þremur í Ófærð kom út árið 2016 og fór í sýningu víða um heim. Árið 2020 framleiddi Baltasar þáttaröðina Kötlu í samstarfi við Netflix og frumsýnd var fyrr á þessu ári. Þættirnir voru ofarlega á vinsældalista Netflix og vöktu athygli fyrir áhugaverða sögu, og ekki síst fyrir fallegt landslag Íslands sem fékk að njóta sín.

Baltasar er langt í frá hættur að setja mark sitt á kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerð hér heima og heiman. Síðustu árin hefur hann tekið virkan þátt í uppbyggingu hins íslenska kvikmyndaþorps í Gufunesi í Reykjavík, meðal annars með opnun kvikmyndavers með þremur stúdíó-rýmum.

HEIMILDVísir
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR