Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson, aðalleikarar hinnar margverðlaunuðu kvikmyndar Hrúta, deildu með sér FIPRESCI verðlaunum fyrir besta leik í aðalhlutverki á hinni virtu alþjóðlegu kvikmyndahátíð í Palm Springs í Bandaríkjunum. Hrútar hefur því nýtt ár á sömu nótum og því síðasta, með sigri á virtri kvikmyndahátíð.
Grímur Hákonarson hefur lokið tökum á Litlu Moskvu, nýrri íslenskri heimildamynd um Neskaupstað þar sem sósíalistar fóru með stjórn frá árinu 1946 til ársins 1998.
Grímur Hákonarson hefur verið á ferð og flugi um kvikmyndahátíðir heimsins með mynd sína Hrúta og komið heim með á þriðja tug verðlauna. Myndin er tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna og talin eiga góða möguleika á að hreppa útnefningu til Óskarsverðlauna. Grímur ræddi við Screen International á dögunum um næstu mynd sína, Héraðið.
Hrútar Gríms Hákonarsonar var valin besta kvikmyndin á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Ljubljana í Slóveníu og hlaut einnig Krzysztof Kieslowski verðlaunin fyrir bestu kvikmynd á Kvikmyndahátíðinni í Denver í Bandaríkjunum. Myndin hlaut einnig Silfurfroskinn í aðalkeppni Camerimage hátíðarinnar í Bydgoszcz í Póllandi.
Hrútar Gríms Hákonarsonar heldur áfram að stafla upp verðlaunum og eru þau nú orðin 18 talsins. Um helgina hlaut myndin tvenn verðlaun á Listapad kvikmyndahátíðinni í Minsk í Hvíta Rússlandi; áhorfendaverðlaun og einnig sérstök verðlaun frá borgarstjórninni í Minsk. Myndin var einnig valin besta kvikmyndin á kvikmyndahátíðinni í Þessalóníku í Grikklandi.
Hrútar Gríms Hákonarsonar hlaut fyrir skemmstu verðlaun dómnefndar á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Riga í Lettlandi. Alls hefur því myndin hlotið 13 alþjóðleg verðlaun. Hátíðin fór fram dagana 15.-25. október.
Hrútar Gríms Hákonarsonar hlaut í gærkvöldi aðalverðlaunin á kvikmyndahátíðinni Tofifest í Póllandi. Þetta eru níundu verðlaun myndarinnar á alþjóðlegum vettvangi.
Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Sao Paulo í Brasilíu stendur fyrir stærðarinnar norrænum fókus frá 22. október – 4. nóvember þar sem fjöldi kvikmynda frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi verða sýndar. Íslensku myndirnar eru 13 talsins.
Norrænar dökkmyndir slá í gegn um veröld víða en norænn húmor virðist oft torskilin utan svæðisins. BBC spyr hversvegna og veltir upp ýmsum hliðum málsins. Hrútar Gríms Hákonarsonar kemur við sögu og er sögð standa svolítið sér á parti.
Verðlaun til handa Hrútum Gríms Hákonarsonar halda áfram að streyma inn. Nú hefur myndin hlotið sín áttundu verðlaun og að þessu sinni á austurströnd Bandaríkjanna, nánar tiltekið á Hamptons International Film Festival.
Grímur Hákonarson leikstjóri Hrúta hlaut í gær leikstjórnarverðlaun á kvikmyndahátíðinni í Saint Jean de Luz í Frakklandi. Þetta eru sjöundu verðlaunin sem myndin hlýtur. Verðlaununum deilir hann með franska leikstjóranum Thomas Bidegain (Cowboys).
Hrútar Gríms Hákonarsonar vann um helgina Gullna augað (The Golden Eye) á Kvikmyndahátíðinni í Zurich í Sviss. Þetta eru aðalverðlaunin í flokki alþjóðlegra kvikmynda í fullri lengd en alls tóku 15 myndir þátt í keppninni.
Variety birtir hugleiðingar um mögulegar Óskarstilnefningar og telur Hrúta Gríms Hákonarsonar meðal þeirra mynda sem hvað helst koma til greina sem besta myndin á erlendu tungumáli. Miðillinn telur Everest Baltasars Kormáks einnig eiga möguleika á tilnefningu í ýmsa flokka, þar á meðal bestu mynd og besta leikstjóra.
European Film Academy, EFA, hefur opinberað lista sinn yfir þær kvikmyndir sem koma til greina sem besta mynd ársins á Evrópsku kvikmyndaverðlaununum. Alls eru 52 myndir í pottinum, þar á meðal Fúsi Dags Kára og Hrútar Gríms Hákonarsonar.
Meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar, ÍKSA, völdu kvikmyndina Hrúta sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna á næsta ári. Myndin keppir því fyrir Íslands hönd um Óskarsverðlaunin fyrir bestu kvikmyndina á erlendu tungumáli.
Caspar Llewellyn Smith hjá The Guardian skrifar um Hrúta Gríms Hákonarsonar frá Telluride hátíðinni. Smith gefur henni þrjár stjörnur af fimm, segir hana skemmtilega og minna á Íslendingasögurnar.
Hrútar Gríms Hákonarsonar kemur víða við á kvikmyndahátíðum haustins. Grímur og Grímar Jónsson framleiðandi eru nú komnir til Telluride í Colorado fylki en hin virta hátíð þar á bæ hefst á morgun. Þaðan halda þeir til Toronto og eftir það bíða fjölmargar aðrar hátíðir.
Þrestir Rúnars Rúnarssonar verður heimsfrumsýnd á Toronto hátíðinni sem fram fer dagana 10.-20. september. Myndin verður í kjölfarið sýnd á San Sebastian hátíðinni á Spáni eins og áður hefur komið fram. Hrútar Gríms Hákonarsonar hefur einnig verið valin á hátíðina en báðar myndirnar verða sýndar í Contemporary World Cinema flokknum.
Pólska sölufyrirtækið New Europe Film Sales hefur gengið frá sölu á Hrútum Gríms Hákonarsonar til fjölda A-Evrópulanda í kjölfar Karlovy Vary hátíðarinnar sem er nýlokið.
Hrútar Gríms Hákonarsonar er meðal tíu mynda sem tilnefndar eru til Lux verðlauna Evrópusambandsins en þau hafa verið veitt síðan 2007. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk kvikmynd er tilnefnd til verðlaunanna.
Guðmundur Andri Thorsson skrifar um Hrúta Gríms Hákonarsonar í Fréttablaðið og segir hana stóra sögu um hvernig sambandið við landið og skepnurnar rofnaði með þeim afleiðingum að Íslendingar eru að mörgu leyti enn dálítið ráðvillt þjóð með reikula sjálfsmynd.
Hrútar Gríms Hákonarsonar, Fúsi Dags Kára og stuttmyndin Hjónabandssæla eftir Jörund Ragnarssontaka þátt í alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Karlovy Vary í Tékklandi sem fram fer í 50. skipti dagana 3. til 11. júlí. Hátíðin er ein sú elsta í heiminum og ein fárra svokallaðra „A“ hátíða.
Hrútar Gríms Hákonarsonar vann í gærkvöldi til tvennra verðlauna á Transilvania International Film Festival í Rúmeníu, sérstakra dómnefndarverðlauna og áhorfendaverðlauna.
"Það er í raun ekki auðvelt að lýsa þeim krafti sem Grími tekst að skapa með þessari mynd," segir Atli Sigurjónsson í umsögn sinni um Hrúta. "Hún byrjar hægt en grípur mann smám saman, byggir hlutina vel upp og skapar einhvern sérstakan heim sem er þó kunnuglegur. Hún heldur manni í einhverri spennu og það er sjaldan ljóst hvað gerist næst, og sagan kemur sífellt á óvart."
Kvikmyndavefurinn TwitchFilm hefur birt umsögn um Hrúta, sem gagnrýnandi vefsins, Jason Gorber, sá á Cannes. Gorber er ekkert að skafa utan af því, hann kallar þetta framúrskarandi verk sem sigli kunnátusamlega milli tilfinningalegra hæða og lægða þannig að úr verður listræn en um leið aðgengileg mynd.
Hjördís Stefánsdóttir fjallar um Hrúta í Morgunblaðinu og gefur myndinni fjóra og hálfa stjörnu af fimm. Hún segir Grím Hákonarson vinna markvisst með þemu og stef úr fyrri verkum sínum, en í þeim sé nútímavæðingu og efnishyggju teflt gegn þögguðum kynngikrafti náttúrunnar, hverfandi lifnaðarháttum og fornum menningararfi sem fyrnist hratt.
Valur Gunnarsson fjallar um Hrúta Gríms Hákonarsonar í DV, gefur fimm stjörnur og leggur útaf hinni sögulegu vídd, allt aftur til Lands og sona: "Siggi Sigurjóns er kominn aftur í sveitina, en í stað þess að skjóta hross er hann hér að skjóta kindur með tárin í augunum. Þar var sagt frá bændum sem neyddust til að flykkjast á mölina í kreppunni, en hér segir frá þeim fáu eftirlegukindum sem enn hanga í sveitinni. Í millitíðinni hefur allt breyst, og ekkert."
Hermann Aðalsteinsson ritstjóri héraðsfréttavefsins 641.is skrifar um Hrúta Gríms Hákonarsonar í kjölfar Íslandsfrumsýningar myndarinnar í Laugabíói í Bárðardal. Hann er í stuttu máli hæstánægður.
Kjartan Már Ómarsson skrifar um Hrúta Gríms Hákonarsonar í Fréttablaðið og segir meðal annars táknræna merkingarauka fjár vera allt að því ótölulega sem orsaki að djúpt lag þýðingar verði mögulegt í hvert sinn sem fé komi fyrir í mynd eða tali. Hann gefur myndinni fjórar stjörnur af fimm.
Gengið hefur verið frá sölu á Hrútum Gríms Hákonarsonar til Bandaríkjanna. Það var framleiðslu- og dreifingarfyrirtækiðCohen Media Group sem keypti dreifingarréttinn vestanhafs en gengið var frá samningum í gær.
Hrútar eftir Grím Hákonarson var frumsýnd í gærkvöldi fyrir fullum sal í Háskólabíói. Leikstjórinn og framleiðandinn létu frumsýningargesti jarma áður en myndin hófst.
Hulda G. Geirsdóttir hjá Rás 2 fjallar um Hrúta Gríms Hákonarsonar og segir hana tilfinningaríka sögu sem sögð sé af næmni og einlægni. Hulda gefur henni fjórar og hálfa stjörnu af fimm.
Stundin er með skemmtilegan vinkil á Hrúta Gríms Hákonarsonar og ræðir við leikstjórann um fólkið í Bárðardal sem hjálpaði honum og hans teymi að gera myndina.
Afhending verðlauna fyrir Un Certain Regard flokkinn í Cannes fór fram fyrr í dag. Hér má sjá samkomuna í heild sinni. Isabella Rossellini formaður dómefndar kynnir Hrúta og Grím Hákonarson á mínútu 18:48.
Un Certain Regard verðlaunin til kvikmyndar Gríms Hákonarsonar, Hrútar, eru mikill merkisviðburður. Cannes er drottning kvikmyndahátíða heimsins, hátíð hátíðanna og þetta er í fyrsta sinn sem íslensk bíómynd vinnur þar til verðlauna. Grími Hákonarsyni leikstjóra og handritshöfundi myndarinnar, Grímari Jónssyni framleiðanda og þeirra fólki er hér með óskað hjartanlega til hamingju.
Nú veit ég ekkert hvað Isabella Rossellini, formaður dómnefndar Un Certain Regard og hennar fólk er að hugsa. En getur verið að Hrútar Gríms Hákonarsonar hljóti verðlaun í Cannes á morgun?
Sala á Hrútum Gríms Hákonarsonar gengur vel á markaðinum í Cannes. Sölufyrirtækið New Europe Film Sales hefur nú tilkynnt um sölur á myndinni til níu markaða, sem bætast við fyrri sölur.
Hinn gamareyndi krítíker Todd McCarthy hjá The Hollywood Reporter kallar Hrúta Gríms Hákonarsonar "góðan fánabera fyrir Ísland"; einfalda en vel sagða sögu um erfiðleika í einangraðri sveit.
"Bræður í stríði" er yfirskrift umsagnar Fabien Lemercier hjá Cineuropa um Hrúta Gríms Hákonarsonar sem segir ýmsa nýlundu bera fyrir augu í myndinni. Hann segir jafnframt myndina einfalda, markvissa og fulla af kærleik.
Variety hefur þegar birt umsögn um Hrúta Gríms Hákonarsonar, sem frumsýnd var í dag á Cannes hátíðinni og fer gagnrýnandinn Alissa Simon lofsamlegum orðum um myndina.
Hrútar Gríms Hákonarsonar var heimsfrumsýnd í Palais des Festivals, aðal sýningarvettvangi Cannes hátíðarinnar, fyrr í dag. Grímur sagði Thierry Frémaux stjórnanda hátíðarinnar, sem kynnti mynd og aðstandendur fyrir sýningu, að verkið væri tileinkað íslensku sauðkindinni.
Pólska sölufyrirtækið New Europe Film Sales annast sölu á Hrútum Gríms Hákonarsonar á alþjóðlegum markaði. Sala á myndinni gengur vel á yfirstandandi Cannes hátíð.
Stikla Hrúta Gríms Hákonarsonar hefur verið opinberuð. Myndin verður heimsfrumsýnd á Cannes hátíðinni síðar í mánuðinum en almennar sýningar hefjast hér á landi þann 29. maí.
Pólska sölufyrirtækið New Europe mun annast sölu á Hrútum Gríms Hákonarsonar, sem frumsýnd verður í Cannes í maí. Þegar hefur verið gengið frá sölu á franskan markað og verið er að semja um nokkur önnur lönd.
Hrútar eftir Grím Hákonarson hefur verið valin til þátttöku í Un Certain Regard keppni Cannes kvikmyndahátíðarinnar. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í París í dag þar sem kynntar voru þær myndir sem eru hluti af opinberu vali hátíðarinnar í ár.