Íslensku börnin í „Sans Soleil“ eftir Chris Marker

Þetta er hluti af kvikmyndasögunni. Á dögunum póstaði Criterion útgáfan ramma úr hinni goðsagnakenndu kvikmynd Chris Marker, Sans Soleil á Fésbókarsíðu sinni. Myndin sýndi þrjú íslensk börn á förnum vegi og þulartextinn vísaði einnig til barna á Íslandi.

Ég deildi þessu og fjörlegar umræður skópust í kjölfarið. Þar á meðal kom upp spurningin um hvaða íslensku krakkar það væru sem eru svo óaðskiljanlegur hluti af einni merkustu heimildamynd allra tíma.

En fyrst aðeins um myndina og Chris Marker.

Hið takmarkaða hugtak „heimildamynd“ nær reyndar ekki vel utan um þessa mynd, sem tilheyrir þeim merka flokki mynda sem kallaðar eru „essay films“ eða „hugleiðingamyndir“.

Sans Soleil er hugleiðing um tíma og minni eða hvernig manneskjan á bágt með að kalla fram samhengi og blæbrigði minninga og hvernig það hefur síðan áhrif á skynjun okkar á eigin sögu og heimssögunni.

Í könnun breska kvikmyndatímaritsins Sight and Sound árið 2014 völdu yfir 300 gagnrýnendur og kvikmyndagerðarmenn um allan heim myndina þriðju bestu heimildamynd allra tíma. Hér er fyrsta mínúta myndarinnar:

Hvað eru „hugleiðingamyndir“?

Esseyjumyndir voru áberandi í því andrúmslofti tilrauna með miðilinn sem ríkti á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, en þær hafa ávallt verið hluti af heimi kvikmyndanna og enn er verið að gera þær.

Geoff Andrew, fyrrum gagnrýnandi og nú sýningarstjóri hjá BFI, segir hugleiðingamyndir einskonar heimildamyndir. Málið snúist um að sumir kvikmyndagerðarmenn reyni að varpa fram hlutlægum viðhorfum í myndum sínum meðan slíkt sé einfaldlega ekki mögulegt.

„Það er alltaf einhver sem höndlar með myndefnið og höndlar þannig með veruleikann til að koma einhverskonar skilaboðum á framfæri. Á vissan hátt eru því allar heimildamyndir hugleiðingamyndir.“

Ekki kannski mjög nákvæmt enda erfitt að skilgreina hugleiðingamyndir í stuttu máli því þær spanna vítt svið og skarast við önnur form. Kannski felst kjarni slíkra mynda í afstöðunni sem höfundur tekur; þær snúast um tiltekna meiningu sem höfundur reynir ekki að dylja með einhverskonar hlutlægni, en viðfangsefnin geta verið heimspekileg, hápólitísk eða hvað eina annað og stundum margt í senn. Í þessari grein sem er kynning á sérstakri dagskrá hugleiðingamynda sem BFI stóð fyrir í London 2013, varpar Andrew frekara ljósi á málið en greinin hefst einmitt á vangaveltum hans við kvikmyndagerðarmann um náttúru myndar Marker.

Í íslensku samhengi má segja að Magnús Jónsson hafi verið ákveðinn frumkvöðull hér á landi í slíkri nálgun með myndum sínum 240 fiskar fyrir kú (1974) og Ern eftir aldri (1977). Draumalandið, mynd Þorfinns Guðnasonar og Andra Snæs Magnasonar frá 2007, er einnig hægt að flokka sem hugleiðingamynd að vissu leyti.

Chris Marker.
Chris Marker.

Hver var Chris Marker?

Hugleiðingamyndina má rekja allt aftur til D.W Griffith en menn eins og Dziga Vertov hinn rússneski, standa uppúr á þöglumyndatímabilinu í gerð slíkra mynda (hæst ber Maður með myndavél frá 1929, hér má sjá hana alla með tónlist Michael Nyman). Chris Marker er þó um margt stærsta nafnið í þessum geira kvikmyndanna. Hann gerði fjölda kvikmynda í þessum anda og þær kunnustu eru La Jetée frá 1962 (hér er fínt innslag frá Criterion um hana og hér má sjá Terry Gilliam ræða hana en mynd hans Twelve Monkeys var að hluta innblásin af La Jetée) og fyrrnefnd Sans Soleil (1983). Marker var hluti af þeim hóp franskra leikstjóra sem kenndur er við „vinstri bakka kvikmyndina“ (Left Bank Cinema) sem var nokkurskonar hliðarhópur frönsku nýbylgjunnar á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Hann lést 2012, 91 árs að aldri.

Þáttur vísindamannsins Haroun Tazieff

Nú jæja, aftur að spurningunni um íslensku börnin. Í kreditlista myndarinnar má sjá að Haroun nokkrum Tazieff er þakkað fyrir myndefnið frá Íslandi. Sagt er að það sé frá 1970 sem gengur ekki alveg upp þar sem meðal annars birtast myndir frá gosinu í Eyjum 1973. Tazieff þessi er einn kunnasti jarðvísindamaður Frakka og gerði margar heimildamyndir um eldgos víða um heim. Chris Marker var sögumaður í einni þeirra, Le Volcan Interdit frá 1966.

Tazieff þessi kom nokkrum sinnum til Íslands og filmaði bæði Surtseyjargosið og Vestmannaeyjagosið. Íslenskir fjölmiðlar tóku nokkur viðtöl við Tazieff, sjá meðal annars hér og hér, þetta virðist hafa verið nokkuð skrautlegur náungi.

Leitin að börnunum

Ég póstaði myndefninu á nokkrum stöðum á Fésbók þar sem ég spurði hvort einhver kannaðist við börnin. Þessar fyrirspurnir reyndust árangurslausar en þá datt mér í hug að prófa sjónvarpsmiðilinn. Kristján Már Unnarsson fréttamaður á Stöð 2 tók vel í þetta og frétt hans um málið birtist síðastliðið mánudagskvöld þar sem farið var yfir málið.

Og viti menn, í gærkvöldi birti Kristján Már framhaldssfrétt. Börnin voru komin í leitirnar og reyndust vera „dömurnar í Draumbæ“ í Vestmannaeyjum eins og engin annar en Árni Johnsen fyrrum alþingismaður orðaði það svo skemmtilega; þær Kristbjörg Sigríður Kristmundsdóttir fædd 1954, Halldóra Kristmundsdóttir, fædd 1957 og Áshildur Kristmundsdóttir, fædd 1959. Myndirnar munu hafa verið teknar 1965 sem passar við þulartextann í upphafi myndarinnar. Frá Draumbæ sást vel til Surtseyjargossins sem þá var í gangi. Systurnar voru þá 11, 8 og 6 ára gamlar.

Kristján Már náði tali af Kristbjörgu sem þóttist þekkja þær systur þó hún myndi ekki eftir Tazieff eða manni með myndavél, enda margir slíkir á ferli á þessum árum. Hér má sjá Vísisfrétt Kristjáns Más um málalyktirnar og að neðan sjónvarpsfrétt hans.

Hafi allir sem að komu bestu þakkir fyrir.

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR