Guðmundur Andri um „Hrúta“: Íslenski kotbóndinn getur hvorki lifað né drepist

Guðmundur Andri Thorsson.
Guðmundur Andri Thorsson.

Guðmundur Andri Thorsson skrifar um Hrúta Gríms Hákonarsonar í Fréttablaðið og segir hana stóra sögu um hvernig sambandið við landið og skepnurnar rofnaði með þeim afleiðingum að Íslendingar eru að mörgu leyti enn dálítið ráðvillt þjóð með reikula sjálfsmynd.

Guðmundur Andri segir einnig:

En það er sem sé – án þess að ljóstra upp of miklu um inntak þessarar æsispennandi myndar um riðuveikt sauðfé – í óhlýðninni sem bræðurnir ná saman; þegar þeir rísa gegn regluverkinu, sem birtist okkur í mynd danskrar konu. Svo má reyndar bollaleggja fram og aftur um það hversu viturleg sú óhlýðni er – en íslenski kotbóndinn getur samt ekki annað gert en að óhlýðnast. Hann getur hvorki brugðið búi né haldið hokrinu áfram. Hann getur hvorki lifað né drepist. Hann er ofurseldur ytri aðstæðum, hversu trúr hann er og vinnusamur, og hann á ekki annarra kosta völ en að grafa sig í fönn og híma þar og bíða eftir betri tíð.

Í Hrútum er sögð stór saga – kannski stærsta saga Íslendinga á síðustu öld. Og henni er enn ekki lokið, eins og eftirminnilega er undirstrikað í áhrifamikilli lokasenu myndarinnar. Þetta er sagan um það hvernig Íslendingar breyttust úr mestu sveitaþjóð Evrópu í mestu borgarþjóð Evrópu; hvernig sambandið við landið og skepnurnar rofnaði með þeim afleiðingum að Íslendingar eru að mörgu leyti enn dálítið ráðvillt þjóð með reikula sjálfsmynd.

Sjá nánar hér: visir.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR