„Hrútar“ keppa í Un Certain Regard á Cannes

Sigurður Sigurjónsson fer með aðalhlutverkið í Hrútum. Mynd: Sturla Brand Grövlen.
Sigurður Sigurjónsson fer með aðalhlutverkið í Hrútum. Mynd: Sturla Brand Grövlen.

Hrútar eftir Grím Hákonarson hefur verið valin til þátttöku í Un Certain Regard keppni Cannes kvikmyndahátíðarinnar. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í París í dag þar sem kynntar voru þær myndir sem eru hluti af opinberu vali hátíðarinnar í ár.

Hátíðin fer fram dagana 13. – 24. maí. Um er að ræða heimsfrumsýningu myndarinnar. Af um 4 þúsund myndum sem sóttu um komust aðeins 20 að og munu keppa um verðlaunin „Prix Un Certain Regard.“

Örvæntingarfullir bræður grípa til sinna ráða

Hrútar fjallar um tvo sauðfjárbændur á sjötugsaldri, bræðurna Gumma og Kidda, sem búa hlið við hlið í afskekktum dal á Norðurlandi. Fjárstofn þeirra bræðra þykir einn sá besti á landinu og eru þeir margverðlaunaðir fyrir hrútana sína. Þrátt fyrir að deila sama landi og lífsviðurværi þá hafa bræðurnir ekki talast við í fjóra áratugi. Þegar riðuveiki kemur upp í dalnum grípur um sig mikil örvænting á meðal bændanna þar. Yfirvöld ákveða að skera niður allt sauðfé til þess að sporna við útbreiðslu sjúkdómsins. Bræðurnir standa frammi fyrir því að missa það sem er þeim kærast og grípa til sinna ráða.

Tökur fóru fram á bæjunum Mýri og Bólstað, sem staðsettir eru hlið við hlið í Bárðardal á Norðurlandi.

Helstu aðstandendur

Grímur Hákonarson leikstýrir og skrifar handritið að Hrútum. Aðalframleiðandi myndarinnar er Grímar Jónsson fyrir Netop Films og meðframleiðendur eru hin dönsku Ditte Milsted og Jacob Jarek fyrir Profile Pictures. Þá er Þórir Snær Sigurjónsson einn af framleiðendum myndarinnar. Framleiðslustjórn er í höndum Evu Sigurðardóttur.

Með aðalhlutverk fara Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson. Stjórn kvikmyndatöku er í höndum Norðmannsins Sturla Brandth Grøvlen og Kristján Loðmfjörð sér um klippingu myndarinnar. Tónlist myndarinnar er samin af Atla Örvarssyni og hljóðhönnun er í höndum Huldars Freys Arnarssonar.

Grímur hefur starfað við kvikmyndagerð í tæpa tvo áratugi og hefur t.a.m. gert stuttmyndirnar Slavek the Shit og Bræðrabyltu, sem báðar ferðuðust víðsvegar um heiminn á kvikmyndahátíðir og unnu til fjölda verðlauna. Hrútar er önnur kvikmynd hans í fullri lengd en sú fyrsta, Sumarlandið, kom út árið 2010. Þá hefur hann getið sér góðs orðs sem leikstjóri heimildamynda þar sem hann hefur m.a. gert Varði Goes Europe, Hreint hjarta og Hvellur.

Stjórnandi kvikmyndatöku Hrúta, Sturla Brandth Grøvlen, vann Silfurbjörninn fyrir framúrskarandi listrænt framlag á Berlinale hátíðinni, sem lauk 15. febrúar. Verðlaunin hlaut hann fyrir kvikmyndatöku sína í Victoria, kvikmynd sem er 140 mínútur að lengd og er öll tekin upp í einni töku.

Þá hefur Atli Örvarsson tónskáld getið sér góðs orðs í Bandaríkjunum, þar sem hann hefur samið tónlist við fjöldan allan af þekktum kvikmyndum og þáttaröðum til fjölda ára. Þeirra á meðal eru kvikmyndirnar Vantage Point og Hansel & Gretel: Witch Hunters og þáttaraðirnar Law & Order: Criminal Intent, Chicago Fire og Chicago P.D. Þá hefur Atli mikið unnið með tónskáldinu Hans Zimmer, m.a. við The Holiday, The Simpsons Movie og Man of Steel. Hérlendis hefur Atli t.a.m. samið tónlistina fyrir þáttaröðina Hraunið og þá samdi hann einnig tónlistina fyrir Blóðberg, nýja kvikmynd eftir Björn Hlyn Haraldsson.

Íslenskar kvikmyndir á Cannes

Hrútar er fjórða kvikmyndin í fullri lengd eftir íslenskan leikstjóra sem kemst í opinbert val (Official Selection) á Cannes, en árið 1993 var Sódóma Reykjavík eftir Óskar Jónasson valin til þátttöku í Un Certain Regard, árið 2003 var Stormviðri eftir Sólveigu Anspach (gerð í samvinnu við Frakka) valin til þátttöku í Un Certain Regard og árið 2005 var Voksne mennesker eftir Dag Kára (gerð í samvinnu við Dani) sömuleiðis valin til þátttöku í Un Certain Regard.

Þá var Eldfjall eftir Rúnar Rúnarsson sýnd 2011 í Director’s Fortnight flokknum sem telst ekki hluti af opinberu vali hátíðarinnar, en er engu að síður óaðskiljanlegur hluti hátíðarinnar til áratuga (flokkurinn er í umsjá Samtaka franskra kvikmyndaleikstjóra). Atómstöðin eftir Þorstein Jónsson var einnig sýnd í þeim flokki 1984. Ingaló eftir Ásdísi Thoroddsen var svo sýnd á Critic’s Week, öðru hliðarprógrammi hátíðarinnar, 1992.

Un Certain Regard hluti Cannes kvikmyndahátíðarinnar var settur á laggirnar árið 1978 og frá og með árinu 1998 hefur verið keppt um „Prix Un Certain Regard“. Markmiðið með verðlaununum er að gera kvikmyndagerðarmönnum sem hafa gert kvikmynd sem hefur frumleika og hugrekki að leiðarljósi hátt undir höfði, m.a. með styrk til dreifingar á kvikmyndinni í Frakklandi.

Cannes kvikmyndahátíðin er ein allra stærsta og virtasta kvikmyndahátíð heims, svokölluð „A“ hátíð, og því er um gífurlegan heiður að ræða fyrir aðstandendur myndarinnar.

Leikkonan heimsþekkta Isabella Rossellini verður forseti dómnefndar Un Certain Regard keppninnar. Rossellini mun í samvinnu við dómnefnd ákveða sigurvegara keppninnar og veitir svo persónulega aðalverðlaunin á verðlaunakvöldi hátíðarinnar þann 23. maí. Á meðal þekktra leikstjóra sem hafa sýnt myndir sínar í Un Certain Regard eru Gus Van Sant, Sofia Coppola og Steve McQueen.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR