Gagnrýni | Hrútar

Hrútar Sigurður Sigurjónsson víttHrútar var á dögunum valin besta myndin í “Un Certain Regard” flokknum á kvikmyndahátíðinni í Cannes og varð þar með fyrsta íslenska myndin í fullri lengd til að vinna verðlaun á þeirri hátíð. Það er því ekki laust að væntingarnar gætu verið svolítið háar fyrir hana fyrst hún hlaut þessi merku verðlaun.

[column col=“1/2″][message_box title=“Hrútar“ color=“gray“] [usr 4] Leikstjóri: Grímur Hákonarson
Handrit: Grímur Hákonarson
AðalhlutverkSigurður Sigurjónsson, Theódór Júlíusson, Charlotte Böving.
Ísland, 2015
[/message_box][/column]Þessi flokkur er tileinkaður djörfum og listrænum myndum og oft lögð áhersla á að gefa minna þekktum og óreyndari leikstjórum tækifæri, en þó Grímur sé kannski ekki svo þekktur utan Íslands er hann vel hokinn af reynslu. Hrútar er önnur mynd hans í fullri lengd en hann á þó að bakki helling af stuttmyndum sem hann hefur gert síðan hann var unglingur (hver man ekki eftir Klósettmenningu?) og ber þar helst að nefna hina frábæru Bræðrabyltu sem sýndi vel að þarna væri á ferðinni leikstjóri gæddur miklum hæfileikum. Auk þess hefur hann gert þó nokkrar heimildamyndir og ber þar líklega helst að nefna myndirnar hans um tónlistarmanninn Varða sem og myndina Hreint Hjarta sem vann áhorfendaverðlaunin á Skjaldborg 2012.

Grímur olli nokkrum vonbrigðum með fyrstu mynd sinni Sumarlandið, sú mynd var byggð á ágætis hugmynd en nýtti hana þó ekki nógu vel og var hálf kjánaleg og full væmin. Maður bjóst við einhverju öðruvísi og beittara frá Grími. Bæði sökum vonbrigðanna sem sú mynd var sem og að hugmyndin bak við Hrúta hljómi ekki sérlega spennandi við fyrstu heyrn þá eru væntingarnar kannski ekki svo háar, þrátt fyrir verðlaunin góðu.

Þetta er nefnilega mynd um tvo gamla bændur, bræður meiraðsegja, sem hafa ekki talast við í 40 ár. En síðan kemur upp riða í fjárstofninum þeirra sem hefur afdrifaríkar afleiðingar á líf þeirra. Í sem einföldustu máli er sagan ekki mikið meiri. Hljómar spennandi? Í raun hljómar þetta frekar leiðinlega, enn ein íslensk mynd sem gerist út í sveit og í þokkabót um tvo gamla kalla sem eru bændur og í veseni með kindurnar sínar. Hver nennir að horfa á það nú til dags?

En einhvern veginn tekst Grími að gera eitthvað magnað úr þessu efni og tekur eitthvað gríðarlega óspennandi og gerir það mjög áhugavert og skemmtilegt.

En einhvern veginn tekst Grími að gera eitthvað magnað úr þessu efni og tekur eitthvað gríðarlega óspennandi og gerir það mjög áhugavert og skemmtilegt. Strax í upphafi myndar er ljóst að Grímur hefur mikið vald á kvikmyndamiðlinum. Hún er gríðarlega vel tekin og klippt, flæðir vel og myndmálið er sterkt. Þetta er mjög sjónræn mynd, notar myndmálið á mjög sterkan hátt til að segja söguna og notar ekki samtöl mikið meira en þörf er á.

Það er í raun ekki auðvelt að lýsa þeim krafti sem Grími tekst að skapa með þessari mynd. Hún byrjar hægt en grípur mann smám saman, byggir hlutina vel upp og skapar einhvern sérstakan heim sem er þó kunnuglegur. Hún heldur manni í einhverri spennu og það er sjaldan ljóst hvað gerist næst, og sagan kemur sífellt á óvart. Hér tekst vel að forðast klisjurnar.

Þetta er engu að síður á sinn hátt klassísk saga um lífsbaráttu landans sem lýsir bæði gömlum tíma sem er að hverfa (tölvur og gemsar sjást ekki í þessari mynd) en er um leið að segja eitthvað um nútímann. Landinn er alltaf í baráttu við lífið, við lifum á hjara veraldar og þurfum bara að díla við það. Það þarf ekki mikið meira en einn veikan sauð til að rústa samfélaginu, en við þraukum áfram.

Stór ástæða þess að myndin virkar svona vel er frammistaða Sigurðar Sigurjónssonar og Theódórs Júlíussonar í aðalhlutverkunum. Þeir tjá persónur sínar með afburðum vel og sýna að þarna fara tveir af bestu leikurunum okkar. Sigurður fær að láta ljós sitt skína aðeins betur þó, en það er einfaldlega því hann er meira í mynd en Theodór. Sigurður hefur löngum verið einn ástælasti gamanleikari þjóðarinnar en þarna sýnir hann enn einu sinni að er engu síðri sem dramaleikari, það er ekki vottur af Dengsa eða Ragnari Reykás í Guðmundi Böðvarssyni bónda.

En Hrútar er samt langt frá því að vera hreint drama og er í raun full af húmor. Grími tekst mjög vel að blanda saman glensi og alvöru og heldur góðum tóni allan tímann. Grínið verður aldrei of kjánalegt og dramað aldrei of þunglamalegt og þessar tvær andstæður harmónísera mjög vel saman. Þetta er tragíkómísk mynd sem tekst oft að vera bæði fyndin og sorgleg í senn. En þetta er líka mynd sem kann að hemja sig, hún teygir ekki lopann og gerir ekki meira en hún þarf. Til dæmis er endirinn alveg hárréttur, margir hefðu eflaust látið myndina halda áfram lengur og leyst alla hnútana en það var engin þörf á því og Grímur hefur vit á því. Hún endar akkúrat á þeim punkti sem hún þarf að enda og allt annað skiptir engu máli.

Hrútar er þó ekki alveg meistaraverk. Þetta er einföld mynd, kannski aðeins of einföld. Hún snertir mann en skilur kannski ekki eins mikið eftir sig og hún gæti gert auk þess sem hún er líka lengi í gang. Síðan má alveg setja spurningarmerki við það að þarna er á ferðinni enn ein karlasagan, konur skipta litlu máli í þessari mynd og í raun aðeins ein kvenpersóna sem gæti talist vera sterk (dýralæknirinn) en hún hefur samt litla dýpt.

Eitt sem er samt að vert að nefna að lokum er að þótt Hrútar sé stórgóð mynd fer kannski að verða komið nóg af gömlum og/eða einmana köllum, sveitabýlum, húsdýrum og alkóhólisma í íslenskum bíómyndum. Núna má fara að koma íslensk mynd um ungar bindindiskonur sem fara út í geim, eða eitthvað álíka!

LEIÐRÉTTING: Í upphaflegum texta var mishermt að Un Certain Regard flokkurinn væri ætlaður ungum og upprennandi leikstjórum. Þetta hefur verið leiðrétt.

Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson
Atli Sigurjónsson er mikill kvikmyndaunnandi og er með meistaragráðu í samanburðarbókmenntum. Hann stefnir á að gerast frægur kvikmyndaleikstjóri einn góðan veðurdag.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR