„Hrútar“ vinnur tvenn verðlaun í Minsk og valin besta myndin í Þessalóniku

Grímur Hákonarson tekur við heiðursverðlaunum á Norrænu kvikmyndahátíðinni í Leeuwarden um helgina.
Grímur Hákonarson tekur við heiðursverðlaunum á Norrænu kvikmyndahátíðinni í Leeuwarden um helgina.

Hrútar Gríms Hákonarsonar heldur áfram að stafla upp verðlaunum og eru þau nú orðin 18 talsins. Um helgina hlaut myndin tvenn verðlaun á Listapad kvikmyndahátíðinni í Minsk í Hvíta Rússlandi; áhorfendaverðlaun og einnig sérstök verðlaun frá borgarstjórninni í Minsk. Myndin var einnig valin besta kvikmyndin á kvikmyndahátíðinni í Þessalóníku í Grikklandi.

Kvikmyndahátíðin í Þessalóníku er elsta og virtasta kvikmyndahátíðin á Balkanskaga og var stofnuð árið 1960. Alls tóku 15 kvikmyndir í fullri lengd þátt í aðalkeppninni.

Leikstjórinn og handritshöfundurinn Grímur Hákonarson gat ekki verið viðstaddur verðlaunaafhendinguna en sendi aðstandendum Þessalóníku hátíðarinnar eftirfarandi þakkarræðu:

„Ég vil byrja á að segja að ég dáist að þessari kvikmyndahátíð og er mjög leiður að geta ekki verið hér í kvöld. Ég vil þakka dómnefndinni og Dimitri Eipides stjórnanda hátíðarinnar. Hann hefur lagt mikið af mörkum til íslenskrar kvikmyndagerðar sem dagskrárstjóri og einn af hornsteinum RIFF til margra ára. Ég vil einnig þakka gríska dreifingaðilanum okkar, AMA Films, og vonast eftir góðum móttökum áhorfenda þegar myndin ratar í grísk kvikmyndahús.

Hrútar er persónuleg kvikmynd. Það tók mig fimm ár að gera hana að veruleika og ég lagði hjarta og sál í þessa mynd. Ég tel að það sé áþreifanlegt þegar horft er á hana. Fjölskyldan mín er úr sveitinni á Suðurlandi og ég gerði Hrúta fyrir forfeður mína og mömmu.

Hrútar fjallar um mikilvægi mannlegra sambanda á erfiðum tímum. Þó aðalpersónurnar séu þrjóskir íslenskir sauðfjárbændur býr myndin yfir alþjóðlegum boðskap sem á sérstaklega vel við þessa dagana.“

Grímur Hákonarson fékk einnig heiðursverðlaun um helgina á Norrænu kvikmyndahátíðinni í Leeuwarden í Hollandi fyrir framlag sitt til norrænnar kvikmyndagerðar. Á hátíðinni voru sýndar þrjár kvikmyndir eftir Grím; Hrútar, Hvellur og Hreint hjarta.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR