spot_img

Grímur Hákonarson: Það er líf eftir Lilju

Grímur Hákonarson leikstjóri er meðal þeirra sem á undanförnum vikum hafa gagnrýnt störf Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra. Hann leggur útaf stuðningsyfirlýsingu kvikmyndaframleiðenda við ráðherra og hvetur kvikmyndagerðarfólk til að kjósa eftir sannfæringu sinni í komandi kosningum.

Pistill Gríms er svohljóðandi:

Ég hvet kvikmyndagerðarfólk til að kjósa eftir eigin sannfæringu í kosningunum á laugardaginn og hafa það í huga hvað fráfarandi menningarráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir, hefur staðið fyrir á þessu kjörtímabili. Þrátt fyrir að hún hafi komið ýmsu góðu til leiðar, eins og 35% endurgreiðslu, háskólanámi í kvikmyndagerð, höfundarlaunum ofl, þá ber hún líka ábyrð á einum harðasta niðurskurði í sögu greinarinnar. Hún skar framlög til Kvikmyndasjóðs niður um 49% á árunum 2021-2025 og stefndi á að halda áfram að skera niður til ársins 2027. Það var ekki fyrr en að einstaklingar í bransanum byrjuðu að gagnrýna niðurskurðinn opinberlega og ræða við þingmenn sem að hlutirnir byrjuðu að þokast í rétta átt. Það var fjárlaganefnd Alþingis sem ákvað í sameiningu að stöðva þennan niðurskurð og bæta 300 milljónum í sjóðinn á næsta ári.

Ég bendi fólki á að kynna sér stefnu stjórnmálaflokkanna í þessum málum og taka upplýsta ákvörðun. Hér er hægt að horfa á pallborðsumræður með fulltrúum flokkanna þar sem m.a. er rætt um kvikmyndagerð: (https://klapptre.is/…/flestir-flokkanna-vilja-gera…/)(https://www.mbl.is/…/beint_kosningafundur_um_skapandi…/). Það eru margir góðir kostir í boði en almennt eru það vinstri- og miðjuflokkarnir sem að bera hag greinarinnar fyrir brjósti. Miðflokkurinn, Flokkur Fólksins og Lýðræðisflokkurinn eru ekki með menninguna ofarlega í sinni forgangsröðun eins og kemur vel fram á þessum fundum.

Þær tillögur sem að Lilja kynnti í vikunni lofa vissulega góðu fyrir framtíð íslenskrar kvikmyndagerðar. En það er stutt í kosningar og því verður að taka þeim með ákveðnum fyrirvara. Þessar tillögur/hugmyndir koma allar frá fagfélögum innan greinarinnar og mér hefði fundist skynsamlegra að bíða eftir næsta ráðherra, frekar en að gefa Lilju færi á að nýta sér þær í pólitískum tilgangi, þ.e. til að reyna að halda sér inni á þingi. Það er alls ekki víst að Lilja verði kosin inn á þing miðað við nýjustu kannanir og alls óvíst hvort að Framsóknarflokkurinn verði í næstu ríkisstjórn. Það eru því hverfandi líkur á því að Lilja verði menningarráðherra á næsta kjörtímabili, en hún er búin að gegna því embætti síðan 2017.

Ef ég á að gefa Sambandi íslenskra kvikmyndaframleðenda ráð þá myndi ég spara orkuna fram yfir kosningar og reyna að vinna þessum góðu tillögum brautargengi með nýjum menningarráðherra. Það er líf eftir Lilju.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR