Jæja Isabella, erum við að tala um verðlaunahrúta?

Verðlaunahrútar?
Verðlaunahrútar?

Veðbankar telja mestar líkur á að The Lobster eftir Grikkjann Yorgos Lanthimos hljóti Gullpálmann segir ScreenDaily, meðan Carol eftir Todd Haynes og ungverska útrýmingarbúðadramað Son of Saul fylgja fast á eftir. En hver tekur Un Certain Regard? Nú veit ég ekkert hvað Isabella Rossellini, formaður dómnefndar Un Certain Regard og hennar fólk er að hugsa. En getur verið að Hrútar Gríms Hákonarsonar hljóti verðlaun í Cannes á morgun laugardag?

Myndin er einna mest áberandi af Un Certain Regard myndunum þegar kemur að fréttum bransamiðlanna af sölu á alþjóðlegum markaði. Án þess að leggja of mikið uppúr því er það þó vissulega vísbending um að dreifingaraðilar víðsvegar um heiminn telji hana eiga erindi á markað listrænna kvikmynda.

Þá er og ljóst að myndin mun þræða fjöldamargar kvikmyndahátíðir heimsins á komandi mánuðum.

Og ef miðað er við umsagnir gagnrýnenda um myndirnar í Un Certain Regard (alls 19 talsins) og hliðarhjali ýmsu sem skanna má í kvikmyndamiðlunum, er Hrútar meðal þeirra mynda sem fær hvað bestar viðtökur. Allir stærstu fagmiðlarnir (Variety, Screen, Cineuropa og The Hollywood Reporter) hafa verið mjög jákvæðir í dómum sínum um myndina og smærri miðlar einnig eftir því sem best verður séð.

Allt þetta fer ekki framhjá aðstandendum myndarinnar í Cannes, hér tjáir framleiðandinn Grímar Jónsson sig um stöðu mála:

Mjúki maðurinn í mér er að yfirbuga töffarann. Geng hálf klökkur um götur Cannes yfir öllum þessum yfirgengilegu móttökum og frábærum dómum sem Hrútar hafa fengið. Orðið á götunni er að Hrútar sé í topp þrjú yfir heitustu myndirnar á hátíðinni!!! Mikið hlakka ég samt til að koma heim og frumsýna myndina þar í næstu viku. Lokahóf og verðlaunaafhending hér á morgun. Býst við engu, líður eins og fullnaðarsigur hafi unnist nú þegar wink emoticon 7, 9, 13. ‪#‎ramsincannes‬

Posted by Grimar Jonsson on 22. maí 2015

Vissulega eru þarna margar myndir sem fá góða dóma. Cemetery of Splendour frá Thailandi eftir fyrrum Gullpálmahafann Apichatpong Weerasethakul fer þar sennilega fremst í flokki og ekki ólíklegt að hún taki aðalverðlaunin.

Aðrar myndir sem hafa verið að fá góð viðbrögð eru S-Kóresku myndirnar Madonna eftir Shin Su-won og The Shameless eftir Oh Seung-uk; hin franska Disorder (Maryland) eftir Alice Winocour; Masaan eftir Neeraj Ghaywan frá Indlandi; Nahid frá Íran eftir Ida Panahandeh; Taklub frá Filippseyjum eftir Brilliante Mendoza og hin rúmenska One Floor Below eftir Radu Muntean.

Tvö helstu verðlaun Un Certain Regard flokksins eru Un Certain Regard verðlaunin (30 þúsund evrur eða tæpar fjórar og hálf milljón króna) og dómnefndarverðlaunin. Önnur verðlaun koma og fara eins og sjá má hér þannig að ekki er vitað hvaða verðlaun verða veitt í ár utan þessara fyrstnefndu.

En þetta kemur semsagt í ljós á morgun…

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR