„Hrútar“ vinnur aðalverðlaunin í Zurich

Grímur Hákonarson þakkar fyrir sig í Zurich.
Grímur Hákonarson þakkar fyrir sig í Zurich.

Hrútar Gríms Hákonarsonar vann um helgina Gullna augað (The Golden Eye) á Kvikmyndahátíðinni í Zurich í Sviss. Þetta eru aðalverðlaunin í flokki alþjóðlegra kvikmynda í fullri lengd en alls tóku 15 myndir þátt í keppninni.

Grímur var viðstaddur verðlaunaafhendinguna í Zurich og tileinkaði verðlaunin íslenskri kvikmyndagerð sem er á góðu skriði þessa dagana, en um síðustu helgi vann kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, Þrestir, aðalverðlaunin á San Sebastian.

Hrútar hefur verið ótrúlega sigursæl á kvikmyndahátíðum frá því hún var frumsýnd á Cannes í maí síðastliðnum og vann sín fyrstu verðlaun. Hún hefur keppt til verðlauna á fimm hátíðum, unnið aðalverðlaunin á fjórum þeirra og alls unnið til sex verðlauna. Hún hefur verið sýnd á mun fleiri hátíðum utan keppni.

Grímur Hákonarson var að vonum glaður með útkomuna:

“Ég er hæstánægður með þessi verðlaun og það er gaman hvað íslenskum kvikmyndum gengur vel þessa dagana. Það eru allir að spyrja mig út í þetta, hvað sé eiginlega í gangi í íslenskri kvikmyndagerð. Það er tekið eftir þessu út um allan heim.

Ég vil minna Íslendinga á að myndin er ennþá í bíó. Þetta er mynd sem fólk þarf að sjá á hvíta tjaldinu. Það er ekki á hverjum degi sem íslensk kvikmynd vinnur bæði á Cannes og á góða möguleika á óskarstilnefningu og ég hvet fólk eindregið til að missa ekki af henni.”

Hrútar var tekin úr sýningum á meðan RIFF stóð yfir en er nú komin aftur í sýningar í Bíó Paradís og Háskólabíó.

Sjá má myndband frá verðlaunaafhendingunni hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR