Ný stikla úr spennumyndinni Eiðurinn í leikstjórn Baltasars Kormáks er komin út. Plakat myndarinnar hefur einnig verið opinberað. Myndin verður frumsýnd á Íslandi 9. september og á kvikmyndahátíðinni í Toronto sömu helgi.
Eiðurinn eftir Baltasar Kormák verður heimsfrumsýnd í "Special Presentations" flokknum á Toronto hátíðinni sem stendur dagana 8.-18. september næstkomandi. Flokkurinn snýst um kvikmyndir sem vekja munu mikla athygli og koma frá leiðandi kvikmyndagerðarmönnum í heiminum. Myndin verður frumsýnd á Íslandi 9. september.
„Ég held að það sé ekkert okkur í hag að þeim gangi illa,“ segir Baltasar Kormákur í samtali við Vísi um ákvörðun bresku þjóðarinnar um að segja sig úr Evrópusambandinu. Breska þjóðin kaus um veru í sambandinu síðastliðinn fimmtudag en þessi ákvörðun gæti haft slæm áhrif á breskan kvikmyndaiðnað sem Íslendingar hafa notið góðs af.
Baltasar Kormákur gæti breytt framtíð kvikmyndaiðnaðarins á Íslandi ef allt gengur eftir. Grafarvogur verður þá kvikmyndastöð Íslands, segir Fréttatíminn í umfjöllun um áætlanir Baltasars um uppbyggingu kvikmyndavers í Gufunesi.
Borgarráð samþykkti samhljóða á fundi sínum í dag kaupsamning við framleiðslufyrirtæki Baltasars Kormáks, RVK Studios, sem kaupir fjórar fasteignir á Gufunesi fyrir rúmar 301 milljón undir kvikmyndaver sem félagið er með á teikniborðinu.
Bandaríski kvikmyndavefurinn Deadline tíndi til á dögunum ýmsar væntanlegar kvikmyndir sem verið er að undirbúa eða filma, jafnframt því sem kynning og sala á þeim fer fram á markaðinum í Cannes. Meðal þessara verkefna er Eiðurinn í leikstjórn Baltasars Kormáks.
Baltasar Kormákur kynnir mynd sína Eiðinn á Cannes hátíðinni, sem nú stendur yfir, fyrir kaupendum og sýnir brot úr myndinni. Bandaríska sölufyrirtækið XYZ Films fer með sölu myndarinnar á heimsvísu.
RVK Studios Baltasars Kormáks hefur ráðið Pétur Sigurðsson til að stýra nýrri deild sem kemur til með að þjónusta erlend sjónvarps-, kvikmyndaverkefni og auglýsingar.
Birgir Olgeirsson skrifar á Vísi ítarlega fréttaskýringu um Ísland sem tökustað erlendra kvikmynda og endurgreiðsluna, sem nú stendur til að hækka í 25%. Rætt er við Einar Hansen Tómasson hjá Film in Iceland og Baltasar Kormák.
Breska sölufyrirtækið West End Films mun sjá um alþjóðlega sölu á kvikmyndinni Mules sem Baltasar Kormákur og Agnes Johansen framleiða fyrir RVK Studios. Börkur Sigþórsson mun leikstýra og áætlað er að tökur hefjist í vor.
Eiðurinn í leikstjórn Baltasars Kormáks og Alma í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur fá styrk frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum. Tökur standa yfir á þeirri fyrrnefndu og eru að hefjast á þeirri síðarnefndu.
Tökur hafa staðið yfir að undanförnu á bíómynd Baltasars Kormáks, Eiðinum. Baltasar fer sjálfur með aðalhlutverkið en Hera Hilmarsdóttir og Gísli Örn Garðarsson eru einnig í stórum hlutverkum.
RÚV frumsýnir þáttaröðina Ófærð þann 27. desember næstkomandi. Í heimildamynd um gerð þáttaraðarinnar er skyggnst á bakvið tjöldin við gerð hennar. Meðal þeirra sem er rætt er við eru Sigurjón Kjartansson, Baldvin Z, Baltasar Kormákur, Ólafur Darri Ólafsson, Ilmur Kristjánsdóttir og fleiri.
Everest Baltasars Kormáks er tilnefnd til Satellite verðlaunanna sem International Press Academy hefur veitt frá 1996. Tilnefningin er í flokki sjónrænna brellna (Visual Efects).
Sérstök spurt og svarað sýning verður haldin á kvikmynd Baltasars Kormáks, Everest, fimmtudaginn 5. nóvember í Sambíóunum í Egilshöll. Sýningin er haldin í samstarfi við 66°Norður, Félag íslenskra fjallalækna (FÍFL), Sambíóin og RVK Studios.
Baltasar Kormákur segir draum sinn að búa til íslenskt fyrirtæki sem geti starfað á alþjóðavettvangi og skilað hagnaði. Þetta kom fram á fundi á Kex hostel á dögunum á vegum Íslensk-ameríska viðskiptaráðsins, þar sem Baltasar ræddi fjármögnun stórra bíómynda, möguleika Íslendinga í alþjóðlegum kvikmyndaheimi og þau miklu áhrif sem aukin tengsl við bandaríska kvikmyndaiðnaðinn geta haft á Íslandi.
American Cinematographer birtir eitt af sínum kunnu viðtölum við tökumenn á vef sínum. Að þessu sinni er rætt við Salvatore Totino tökumann Everest um verkefnið og einnig spjallað við Baltasar Kormák leikstjóra myndarinnar.
Everest Baltasars Kormáks er þriðju helgina í röð á toppnum á íslenska aðsóknarlistanum. Myndin er jafnframt orðin sú tekjuhæsta af myndum Baltasars á heimsvísu.
Allir þátttakendur í pallborðsumræðum sem RIFF hélt í gær undir yfirskriftinni Er íslensk kvikmynd góð fjárfesting? voru sammála um að svo væri ef rétt er að henni staðið. „Ástarævintýrið er hafið,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fundarstjóri og átti við samband kvikmyndagerðarmanna og fjárfesta.
Variety birtir hugleiðingar um mögulegar Óskarstilnefningar og telur Hrúta Gríms Hákonarsonar meðal þeirra mynda sem hvað helst koma til greina sem besta myndin á erlendu tungumáli. Miðillinn telur Everest Baltasars Kormáks einnig eiga möguleika á tilnefningu í ýmsa flokka, þar á meðal bestu mynd og besta leikstjóra.
Klapptré hefur tekið saman lista yfir aðsókn á opnunarhelgar allra kvikmynda Baltasars Kormáks. Everest fær mestu aðsóknina af Hollywoodmyndum leikstjórans en Mýrin hefur enn vinninginn þegar allar myndirnar eru tíndar til.
Everest fær yfir heildina jákvæðar umsagnir vestanhafs og í Bretlandi með 73% heildarskor af 100% á Rotten Tomatoes sem stendur. Alls hafa 148 gagnrýnendur tjáð sig og af þeim eru 108 jákvæðir. Myndin virðist einnig gera sig vel í miðasölunni vestra og spilar yfir væntingum. Alþjóðleg miðasala gengur einnig vel en myndin var frumsýnd í 36 löndum s.l. föstudag. Á Íslandi er talið að þetta verði stærsta opnunarhelgi ársins en það liggur fyrir á morgun.
Baltasar Kormákur er í viðtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur hjá RÚV vegna frumsýningar Everest. Þar ræðir hann um gerð myndarinnar og vinnubrögð sín. Hann segir meðal annars að hann hafi gert miklar kröfur til leikara myndarinnar og ýtt þeim út á ystu brún til að þeir upplifðu erfiðar aðstæður á eigin skinni.
Sýningar hefjast í dag á Everest Baltasars Kormáks víða um heim, þar á meðal á Íslandi. Myndin er einnig frumsýnd í 34 öðrum löndum, þar á meðal Bretlandi, Þýskalandi, Spáni, Mexikó og Argentínu auk Bandaríkjanna þar sem hún opnar í 540 IMAX bíóum en fer svo á þúsundir tjalda viku síðar.
Tveir fyrstu þættirnir af sjónvarpsþáttaröðinni Ófærð munu loka RIFF í ár, en þeir verða sýndir saman í Egilshöll þann 4. október. Þættirnir eru framleiddir af Rvk. Studios og skrifaðir af Sigurjóni Kjartanssyni og Clive Bradley eftir hugmynd Baltasars Kormáks, sem jafnframt leikstýrir öðrum þættinum en Baldvin Z hinum.
Baltasar Kormákur segir að mynd hans Everest hafi fengið góðar viðtökur á frumsýningu á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í kvöld. Henni hafi verið fagnað með lófataki í lokin. Baltasar segir þetta það langstærsta sem hann hafi upplifað. RÚV greinir frá.
Fjölmargir miðlar hafa birt umsagnir um Everest Baltasars Kormáks sem er opnunarmynd Feneyjahátíðarinnar nú í kvöld. Myndin er sem stendur með 75% skor á Rotten Tomatoes, sem þýðir að jákvæðar umsagnir eru í miklum meirihluta.
Todd McCarthy, hinn gamalreyndi gagnrýnandi The Hollywood Reporter, segir margar góðar ástæður til að sjá Everest Baltasars Kormáks. Myndin sé kraftmikil og vel gerð, myndrænar brellur séu afar vel leystar og fái mann til að finnast sem maður sé kominn á fjallið, auk þess sem hinu fjölmenna persónugalleríi séu gerð sannfærandi skil þannig að maður láti sig örlög þeirra varða. Hann telur að Universal geti bætt þessari mynd á lista sinn yfir metsölumyndir, en fyrirtækið hefur átt óvenju gott ár hvað varðar árangur í miðasölunni.
Menntamálaráðherra ætlar að hefja vinnu til að stemma stigu við ójöfnum kynjahlutföllum í kvikmyndagerð strax á þessu ári. Þetta kom fram á umræðufundi sem RIFF hélt í Tjarnarbíói í gær um málefnið.
Útivistarvefurinn Outside birtir ítarlega umfjöllun um undirbúning og gerð Everest. Meðal annars er rætt við Baltasar Kormák, leikarana Jason Clarke, Jake Gyllenhaal og Josh Brolin, Tim Bevan framleiðanda og fjallgöngumennina Guy Cotter og David Breashears sem voru ráðgefandi við gerð myndarinnar.
Ný stikla fyrir Everest Baltasars Kormáks hefur verið gefin út. Myndin verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í byrjun september en almennar sýningar hefjast skömmu síðar.
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra tekur vel í hugmyndir Baltasars Kormáks um að öll aukning á framlögum til kvikmyndasjóðs færi til kvenna.„Það er ljóst að það gengur ekki að helmingur þjóðarinnar, sem eru konur, eigi sér ekki sína rödd í kvikmyndum, öflugasta miðli nútímans. Það er ekkert bara vandamál kvikmyndagerðarmanna, heldur samfélagsins alls,“ segir Illugi Gunnarsson við Fréttablaðið.
Baltasar Kormákur segist í viðtali við Fréttablaðið vilja setja kynjakvóta á úthlutanir úr kvikmyndasjóði og að ríkið taki föstum höndum að auka hlut kvenna í kvikmyndagerð. „Ég er að segja, ókei strákar, förum í þetta mál. Styðjum við þetta. Hættum að berjast á móti. Við erum að stækka pottinn. Það er ekki verið að taka neitt frá neinum. Þetta er öllum til góða.”
The Guardian birtir hugleiðingar um þær kvikmyndir sem þykja líklegar til að taka þátt í komandi Óskarsverðlaunum. Alls eru um 40 myndir nefndar til sögu og er farið yfir helstu möguleika hverrar myndar, þar á meðal hinnar væntanlegu myndar Baltasars Kormáks.
Helstu erlendu kvikmyndamiðlarnir hafa fjallað um valið á Everest Baltasars sem opnunarmynd Feneyjahátíðarinnar og benda á að þetta þyki mikið hnoss fyrir myndina og auki möguleika hennar við væntanlegar Óskarstilnefningar.
Everest í leikstjórn Baltasars Kormáks verður opnunarmynd Feyneyjahátíðarinnar sem fram fer 2.-12. september næstkomandi. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskur leikstjóri á opnunarmynd einnar virtustu kvikmyndahátíðar heims.
Sjónvarpsþáttaröðin Ófærð fékk 75 milljónir króna frá Creative Europe, kvikmynda- og sjónvarpsáætlun ESB, sem á dögunum úthlutaði alls um 700 milljónum króna. Annað íslenskt verkefni, heimildamyndin Garn í stjórn Unu Lorenzen fékk sjö milljónir króna og því rann alls 12% úthlutunarinnar til íslenskra verkefna. Svo hátt hlutfall hefur aldrei áður farið til neins aðildarlands í einni úthlutun.
Framleiðslufyrirtækið Working Title hefur sent frá sér kynningarstiklu um gerð Everest í leikstjórn Baltasars Kormáks. Rætt er við Baltasar og helstu leikara myndarinnar og sýnt frá tökum.
Stikla Everest í leikstjórn Baltasars Kormáks var opinberuð s.l. föstudag og hefur verið til umfjöllunar víða í alþjóðlegu kvikmyndapressunni. Ljóst er að áhugi á myndinni er mikill, bæði hjá fjölmiðlum en ekki síður hjá væntanlegum áhorfendum sem eru ósparir á komment. Hér eru nokkrar umsagnir.
Playlist bloggið hjá IndieWire fjallar um hina væntanlegu mynd Baltasars, Everest. Dálkahöfundurinn Edward Davis segir ekki ólíklegt að hún eigi eftir að vekja meiri athygli en fyrri Hollywood-myndir þessa hæfileikaríka leikstjóra sem hafi verið hvunndagslegar.
Bandaríska framleiðslufyrirtækið XYZ films í samstarfi við AI Film, hefur keypt alheims dreifingarréttinn á væntanlegri kvikmynd Baltasars Kormáks, Eiðinum. Tökur á myndinni hefjast í haust en myndin byggir á handriti Ólafs Egilssonar og Baltasars.
BBC Four mun sýna þáttaröðina Ófærð(Trapped) en rásin hefur lagt mikla áherslu á erlendar þáttaraðir á undanförnum árum. Norrænar þáttaraðir á borð við Borgen, Forbrydelsen og Broen hafa notið þar mikilla vinsælda.
CinemaCon, árleg ráðstefna Samtaka kvikmyndahúsaeigenda (NATO) í Bandaríkjunum, verðlaunaði í dag Baltasar Kormák sem alþjóðlegan kvikmyndagerðarmann ársins.