Ragnar skrifar á Facebook síðu sína:
Forseti þjóðarinnar heldur ræðu í beinni útsendingu á Bókmenntaverðlaunum. Þar talar forseti um mikilvægi barna og unglingabóka og sérstaklega lesturs barna á skáldskap í rituðu máli – sem við erum öll sammála um – en gerir um leið í orði bæði lítið úr myndmáli og kvikmyndum. (Í ljósi þessa fékk maður vægan kjánahroll þegar hún veitti meistara myndmáls, Rán Flygenring, verðlaun síðar í athöfninni.) Það er ekki stórmannlegt að gera lítið úr einni manneskju til að upphefja aðra, eins að gera lítið úr einni listgrein til að benda á mikilvægi annarrar, þær eru allar jafn mikilvægar. Það eru höfundar á bak við kvikmyndir. Þær geta eins vel kveikt hugmyndir og virkjað ímyndunarafl eins og aðrar listgreinar: bókmenntir, tónlist, myndlist (sem nota bene varð til langt á undan hinu ritaða orði) o.s.frv. Í ræðunni grautar forsetinn saman tveimur ólíkum hlutum: kvikmyndum og skjátíma, kannski af þekkingarleysi en vonandi í fljótfærni. Forseti ætti mögulega að fá fólk til að lesa ræður yfir áður en hún flytur á opinberum vettvangi. Engin bók kæmi t.d út opinberlega án ritstjórnar og yfirlestrar.
Ummæli forseta, sem Ragnar gerir að umtalsefni, eru svohljóðandi:
Ég vil því sérstaklega minnast á mikilvægi góðra barna- og unglingabóka. Það verður ekki ofmetið því þær eru lykillinn að lestraráhuga barna. Án þeirra lýtur lesturinn í lægra haldi og myndmálið tekur yfir. Þó að kvikmyndir byggi oft á bókum er grundvallar munur á því að lesa bók eða horfa á kvikmynd. Bókin gefur ímyndunaraflinu miklu meira svigrúm. Að geta séð textann fyrir sér, geta breytt honum í myndir í huganum, er dásamlegur eiginleiki, sem ég held reyndar að þurfi að þjálfa.
Ræðu forseta Íslands má skoða hér. Ummælin sem Ragnar vísar til hefjast á mínútu 3:14.