Ragnar Bragason ræðir FELIX OG KLÖRU

Ragnar Bragason ræðir við Helgarútgáfuna á Rás 2 um væntanlega þáttaröð sína, Felix og Klöru, sem skartar þeim Jóni Gnarr og Eddu Björgvinsdóttur í aðalhlutverkum.

Segir á vef RÚV:

Hugmyndin að þáttunum Felix og Klara kviknaði fyrir fimmtán árum síðan en þá Ragnar og Jón Gnarr hefur lengi langað til að fjalla um líf eldri borgara. „Af því að það er dálítið óplægður akur. Sérstaklega var okkur umhugað um hjónabandið,“ segir Ragnar.

Þættirnir fjalla um hjónin Felix og Klöru sem Jón Gnarr og Edda Björgvinsdóttir leika. Þau eru komin á áttræðisaldur og lifa fremur tilbreytingarsnauðu og vanaföstu lífi. Vegna heilsubrests hjá frúnni, og annarra ástæðna, þurfa þau að selja einbýlishúsið sem þau byggðu með eigin höndum og þurfa að flytja í þjónustuíbúð fyrir eldra fólk.

„Það setur bæði líf þeirra og hjónaband dálítið á hliðina. Frúin verður frelsinu fegin, loksins komin með félagsskap en karlinn skilur illa hvað er í gangi og fer að berjast við hinar og þessar vindmyllur,“ lýsir Ragnar.

Handritið skrifuðu Ragnar og Jón saman með reglulegum innkomum frá Eddu. Þeim þótti áhugavert að skoða hvernig hjónaband virkar eftir 50 ára sambúð, hvaða hlutir séu ósagðir og að hvaða samkomulagi fólk kemst með hina ýmsu hluti til að lifa af. „Þetta eru svona vangaveltur um hjónaband og tilveru eldra fólks. Þetta er kómískt er dramatískt í bland.“

Fimm ára ferli í það minnsta

Þeir félagar náðu loks að hefja handritaskrif árið 2018 en á undan hafði Jón Gnarr orðið borgarstjóri og nælt sér í meistaragráðu í sviðslistum og um leið hafi Ragnar verið upptekinn í öðrum verkefnum.

„Fólk kannski áttar sig ekki almennilega á því að svona kvikmyndaverk, hvort sem það er kvikmynd eða leikin sjónvarpsþáttaröð, er alveg fimm ára prósess að minnsta kosti og oft mikið lengur,“ segir Ragnar.

Það sé eitt að ná góðu handriti niður á blað og skapa eitthvað sem er áhugavert, síðan er hitt vandamálið að útvega fjármagn sem viðkomandi hafi minni stjórn á. „En það gekk bara vel í þessu tilviki. Þetta fjármagnaðist og gekk mjög hratt eftir að handritið var orðið tilbúið.“

Erfitt að gera langtímaplön þegar fjárlög sveiflast sífellt til

Alltaf er að koma betur í ljós hve menningarlegt mikilvægi íslenskrar kvikmyndagerðar að mati Ragnars. „Mér finnst vitundin miklu betri en hún var fyrir 10-15 árum. Enda erum við búin að slíta kannski barnsskónum í kvikmyndagerðinni. Kvikmyndagerð er fyrirbæri sem er blanda af list og iðnaði og íslensk kvikmyndagerð er bara komin á þann stað að við erum fyllilega sambærileg við það sem er gert annars staðar.“

Tæknilegur aðbúnaður og þekking sé komin á þann stað að kvikmyndagerð sé orðinn fasti sem Ragnar telur bæði almenning og stjórnvöld farin að átta sig betur á og hve miklu máli hún skipti.

„Hér áður fyrr var þetta náttúrulega meira pínu villt vestur og tilraunamennska. Við erum svo sérkennileg kvikmyndaþjóð að því leyti, ef við hugsum bara um kvikmynd í fullri lengd þá erum við að gera fyrstu myndirnar bara upp úr 1980. Á meðan flest allar þjóðir í heiminum nánast hafa verið að gera kvikmyndir frá því snemma á 20. öldinni.“

Vissulega hafi verið gerðar myndir fyrir níunda áratuginn, en það segir Ragnar að hafi verið gert á hnefanum eða í gegnum Ríkissjónvarpið. „En íslenskt kvikmyndavor er 1978-80.“

Nú sé komið mikið af fagfólki í stéttina og tækninni hafi fleytt áfram. „Þetta er allt komið á mjög góðan stað. En við erum stöðugt að slást um bara fjármagn. Þetta hefur verið svo sveiflukennt,“ segir Ragnar um framlög til Kvikmyndasjóðs, sem er grundvöllur þess að hægt er að búa til kvikmyndaverkefni hérlendis á gæðaskala. „Það hafa verið stöðugar sveiflur síðustu 20 árin, það kemur og fer og er stöðugt verið að berjast fyrir einhverjum eðlilegum framlögum.“

Ragnar segist þó bera von í brjósti um að ný ríkisstjórn muni í það minnsta leggja drög að því að gerður verði langtímasamningur svo stöðugleiki fáist í bransann. „Af því að það tekur kannski fjögur, fimm ár að gera kvikmyndaverkefni, sem segir það að þetta er ekki allt á ársgrundvelli. Þetta er jafnvel á áratugagrundvelli, eitt verkefni. Þannig að allar svona sveiflur eru erfiðar. Það er svo erfitt að gera langtímaplön því þetta er alltaf langtímaverkefni.“

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR