Á vef RÚV segir:
Þetta er tíu þátta gamansería með dramatískum undirtón sem hverfist um líf eldri borgara í íslenskum samtíma.
Þáttaröðin fjallar um fyrrverandi tollvörðinn Felix sem flyst ásamt eiginkonu sinni Klöru í þjónustuíbúð fyrir aldraða í Reykjavík og rankar við sér eftir langa starfsævi í innihaldslausum hversdagsleika. Á sama tíma og Klara er frelsinu fegin leitar Felix tilgangs og lítil atvik verða að stórviðburðum.
Í titilhlutverkunum eru Jón Gnarr og Edda Björgvinsdóttir. Meðal annara leikara eru Hrefna Hallgrímsdóttir, Jakob Van Oosterhout, Jóhann Axel Ingólfsson, Þórhildur Þorleifsdóttir, Halldór Gylfason, Ragnheiður Steindórsdóttir, Arnar Jónsson o.fl.
Handritið skrifa Jón Gnarr og Ragnar Bragason. Samstarf höfundanna hefur verið sérlega farsælt en þeir hafa áður unnið saman að sjónvarpsþáttunum Fóstbræður, Næturvaktin, Dagvaktin og Fangavaktin. Auk þess unnu þeir í samvinnu að kvikmyndinni Bjarnfreðarson.
„Það er komið á annan áratug síðan við Jón fórum að kasta á milli okkar, til skemmtunar og fróðleiks, sögum af foreldrum, ömmum og öfum, frændum og frænkum. Smátt og smátt fæddist sú hugmynd að gera skáldverk,“ segir Ragnar í samtali við Menningarvef RÚV um tilurð þáttanna.
Felix og Klöru lýsir hann sem skálduðum hjónakornum, eins konar miðgildi eldri borgara sem höfundar hafa rekist á í gegnum tíðina. Meðgöngutíminn var í lengri kantinum samkvæmt leikstjóra. „Við vorum báðir mikið uppteknir í öðru en þetta var alltaf að gerjast og hlaðast utan á hugmyndina. Það var svo fyrir rúmum fimm árum sem við settumst niður fyrir alvöru og hófum skrif,“ segir hann.
Í ferlinu var mikið stuðst við spuna og skapandi nálgun. „Edda Björgvinsdóttir kom inn í það ferli með okkur sem var ómetanlegt.“
Lengd meðgöngutímans svokallaða reyndist gæfuspor að tvennu leyti. „Annars vegar varð persónusköpun þroskaðri og handrit dýpra og betra. Og hins vegar færðist Jón nær Felix í aldri með hverju árinu sem leið.“