Þórir Snær Sigurjónsson framleiðandi nýjustu myndar Alexander Payne með Renate Reinsve í aðalhlutverki

Þórir Snær Sigurjónsson forstjóri Scanbox í Danmörku verður yfirframleiðandi nýjustu kvikmyndar Alexander Payne, Somewhere Out There. Norska leikkonan Renate Reinsve verður í aðalhlutverki. Searchlight dreifir myndinni á heimsvísu, en Scanbox á Norðurlöndum.

Variety skýrir frá.

Reinsve sló í gegn fyrir hlutverk sitt í mynd Joachim Trier, Versta manneskja í heimi (2021) og var meðal annars valin besta leikkonan í Cannes það árið. Hún fer einnig með aðalhlutverk ásamt Stellan Skarsgaard í nýjustu mynd Trier, Sentimental Value, sem nú er í aðalkeppninni í Cannes.

Myndin verður á dönsku, en þetta er í fyrsta sinn sem Payne gerir kvikmynd í Evrópu. Birgitte Skov er framleiðandi fyrir hönd Scanbox, sem er hluti af evrópsku samstæðunni Vuelta Group. Tökur fara fram á næsta ári í Danmörku. Handrit skrifar norski rithöfundurinn og handritshöfundurinn Erlend Loe eftir hugmynd Åke Sandgren.

Searchlight er einn helsti dreifingaraðili listrænni mynda í heiminum. Fyrirtækið dreifði áður tveimur mynda Payne, Sideways og The Descendants. Báðar fengu Óskarsverðlaun fyrir besta handrit byggt á bók.

Þórir Snær segir í viðtali við Variety að aðkoma Searchlight sé einstakt tækifæri fyrir kvikmynd á danskri tungu að finna breiðan áhorfendahóp á heimsvísu.

 

HEIMILDVariety
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR