spot_img

„Eiðurinn“ og „Alma“ fá stuðning frá Norræna sjóðnum

Emmanuelle Riva.
Emmanuelle Riva.

Eiðurinn í leikstjórn Baltasars Kormáks og Alma í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur fá styrk frá Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum. Tökur standa yfir á þeirri fyrrnefndu og eru að hefjast á þeirri síðarnefndu.

Eiðurinn fær 26.5 milljónir króna (1.8 milljón norskar). Myndin er framleidd af Baltasar og Agnesi Johansen fyrir RVK Studios. Baltasar skrifar handrit ásamt Ólafi Egilssyni og fer einnig með aðalhlutverkið. Í öðrum helstu hlutverkum eru Hera Hilmarsdóttir og Gísli Örn Garðarsson.

Myndin fjallar um lækni sem grípur til örþrifaráða þegar dóttir hans hefur samband við kunnan eiturlyfjasala.

Film 4 í Bretlandi og ZDF í Þýskalandi koma að fjármögnun ásamt Kvikmyndamiðstöð Íslands. Kostnaður nemur um 469 milljónum króna. Stefnt er að frumsýningu í haust.

Alma fær rúmar 14.7 milljónir króna (1 milljón norskar). Myndin er framleidd af Guðrúnu Eddu Þórhannesdóttur fyrir Duo Productions. Kristín skrifar handritið sem segir af ungri konu, Ölmu, sem er lokuð inni á réttargeðdeild eftir að hafa játað á sig morð á kærastanum án þess þó að muna eftir þeim atburði. Eftir sjö ár berast þær fréttir að kærastinn sé sprellifandi og á leið til landsins. Hún ákveður að drepa hann þar sem hún er hvort sem er búin að afplána dóm fyrir glæpinn.

Snæfríður Ingvarsdóttir (E. Sigurðssonar) fer með titilhlutverkið en með önnur helstu hlutverk fara Kristbjörg Kjeld, Emmanuelle Riva og Hilmir Snær Guðnason.

Pegasus Pictures meðframleiðir ásamt Arsam Film International í Frakklandi, Little Big Productions í Svíþjóð og Berserk Films í Bretlandi. Bandaríski framleiðandinn Jim Stark kemur einnig við sögu. Sena dreifir á Íslandi en sölufyrirtækið Movieboosters fer með Norðurlandarétt. Áætluð frumsýning erá fyrri hluta árs 2017.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR