Út með það nýja, inn með það gamla

Gunnar Tómas Kristófersson doktorsnemi og stundakennari í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands skrifar grein þar sem hann segist vera að missa áhugann á samtímabíói og veltir því fyrir sér afhverju svo sé og hvað sé til ráða. Hann segir leiðina liggja á vit sögunnar þar sem hið „nýja“ sé á margan hátt að finna.

Gunnar segir meðal annars:

Ég elska bíó. Alvöru bíó, með upphrópunarmerkjum, látum og kunnuglegum efnistökum. Þekkt andlit, fagurmótaðir líkamar, grípandi litasamsetning, eldglæringar, sprengingar, hraðar klippingar og hávær tónlist í takt eru aðeins hluti þess flókna samspils mismunandi þátta er mynda agnhald afþreyingarmynda sem ég er löngu búinn að kokgleypa.

En það eru blikur á lofti, bíó eins og ég þekki það er að taka breytingum og ég er að missa áhugann. Framandi tákn eru farin að tala tungumál sem ég hef ekki fullan skilning á. Ég sit í myrkrinu og horfi í gegnum þunnan söguheiminn sem reynir að réttlæta stríð, nekt kvenna, karlmennsku karla og gildi peninga. Gamanið er að hverfa, það sem eitt sinn var grípandi er orðið fráhrindandi og heimskulegt. Ég held í þá hugmynd að ég sé að verða klárari og sé farinn að sjá í gegnum tilbúning kvikmyndanna, en innst inni veit ég að vandamálið er mín megin.

Ég er ekki lengur „inni“ í menningunni.

Ég hristi ekki hausinn vegna þess að bíóið er orðið heimskulegra, ég hristi hausinn af því að ég tilheyri ekki lengur markhópnum. Við tölum ekki lengur sama tungumál, gamli vinurinn er breyttur og við skiljum ekki hvor annan lengur. Minn tilvísanabanki er innistæðulaus gagnvart bíóbákninu og ég stari inn í tómið.

Ég vissi af því að þetta myndi gerast, en vildi bara ekki trúa því. Faðir Hómers Simpson, hann gamli góði Abraham Simpson, varaði við þróuninni fyrir löngu, að einhvern tíma yrði það sem var „það” ekki lengur „það” og að einn daginn væri „það” orðið skrítið og framandi fyrir mér. Nú er sá dagur runninn upp að ég þarf að skipta um gír og leita annað eftir skemmtun. Auðvitað er af nógu að taka og heill kvikmyndaheimur til fyrir útbrunnar poppætur á borð við mig. Ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því að eiga ekki heimili inni í kvikmyndasalnum lengur. Þótt ég skilji ekki textatengsl og sjái í gegnum klisjur stærstu myndanna þá er kvikmyndamenningin svo margbrotin að ég get bara snúið mér annað.

Kvikmyndahátíðir eru haldnar fyrir fólk eins og mig, sérstök kvikmyndahús og sérstakar sýningar í venjulegum bíóhúsum eru sérsniðnar fyrir mig. Nú er bara að hætta að fussa yfir horfinni æsku og einbeita sér frekar að snillingum á borð við Tarkovsky, Ozu og Hitchcock en umfram allt B-liðinu, sögu vondra, ofbeldisfullra og bannaðra mynda sem ýta manni út fyrir alla þægindaramma og leiða mann á áður óþekktar slóðir. Waters, Lewis, Castle, Anger og aðrir B-liðs menn kvikmyndanna eru löngu búnir að segja það sem fáir þora að hafa eftir þeim, jafnvel í dag. Að uppgötva ný mið í gömlum myndum er verkefni sem ég hlakka til að takast á við.

Sjá nánar hér: Út með það nýja, inn með það gamla | Hugrás

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR