Fyrsta íslenska kvikmyndin eftir konu komin fram

Fyrsta íslenska kvikmyndin eftir konu er fundin Hún er frá árinu 1927 og er dansmynd eftir Ruth Hanson, unnin í samstarfi við Loft Guðmundsson. Þetta kemur fram í Menningunni á RÚV þar sem rætt er við Gunnar Tómas Kristófersson doktorsnema í kvikmyndafræði.

Segir á vef RÚV:

Konur voru framan af fámennar í kvikmyndagerð hér á landi. Hingað til hefur myndin Ágirnd eftir Svölu Hannesdóttur og Óskar Gíslason frá 1952 verið álitin fyrsta kvikmyndin sem kona gerði hér á landi. En nú hefur fundist filma með rúmlega þriggja mínútna langri dansmynd sem Ruth Hanson, dans- og íþróttakennari, gerði með aðstoð Lofts Guðmundssonar aldarfjórðungi fyrr.

Gunnar Tómas Kristófersson er doktorsnemi í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands og rannsakar íslenska kvikmyndasögu.

„Partur af doktorsverkefni mínu er að fara í frumheimildir íslenskrar kvikmyndasögu, kvikmyndirnar sjálfar og gramsa í því sem er til hér á Kvikmyndasafninu, finna týndar og gleymdar filmur sem leynast hérna inni á safninu og komast að því hvaðan þær koma og hver tók upp. Og stundum finnur maður gullmola.“

Danskennari sem gustaði af

Í fyrra varð einmitt einn slíkur gullmoli á vegi Gunnars, kvikmynd frá 1927 eftir Ruth Hanson, fyrsta myndin eftir konu á Íslandi.

„Ruth var í raun ekki kvikmyndagerðarmaður eða kvikmyndagerðarkona, hún var dansari og leikfimikennari á Íslandi. Hún var af dönskum ættum, menntaði sig í dansi og leikfimi í Danmörku en kom aftur heim 1926.“

Ruth stóð á tvítugu þegar hún kom aftur til Íslands og lét strax til sín taka.

„Helstu heimildir mínar eru dagblöðin. Fyrir 1926 er ekkert minnst á hana en eftir það er minnst á hana í hverri viku. Hún stofnaði dansskóla þar sem hún kenndi nútímadansa og er frumkvöðull í danssögu Íslands. Hún og systur hennar, Rigmor og Ása, héldu líka danssýningar.“

Ruth var að auki mikill sundgarpur, þreytti Engeyjarsund fyrsta allra kvenna sumarið 1927 og varð Íslandsmeistari í björgunarstakkssundi sama ár.

Réð Loft Guðmundsson í vinnu

Árið 1927 hafði Ruth líka við Loft Guðmundsson, ljósmyndara og kvikmyndagerðarmann, til að að gera stutta kennslumynd um Flat-Charleston dans. Ruth Hanson var þá 21 ár systir hennar og dansfélagi Rigmor,var 14 ára.

„Loftur var stór kvikmyndagerðarmaður á þessum tíma. Hann var nýbúinn að gera Ísland í lifandi myndum og var vel þekktur fyrir það. En hann vantaði pening og fór að selja auglýsingar í sínar myndir. Hann hefur væntanlega verið opinn fyrir því að selja aðgengi að stúdíóinu sínu og sinni kunnáttu. Hann er bara í vinnu hjá Ruth við að gera myndina, sem hún framleiðir. Hún lætur gera myndina, kemur með hugmyndina, útfærsluna. Þetta er bara hennar mynd.“

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR