spot_img

Kraftur í fræðiskrifum um íslenska kvikmyndasögu hjá Kvikmyndasafninu

Kvikmyndasafnið hefur undanfarin misseri staðið fyrir markvissum rannsóknum á íslenskri kvikmyndasögu undir stjórn Gunnars Tómasar Kristóferssonar kvikmyndafræðings. Greinar hans hafa nú verið birtar á vef safnsins og má nálgast hér.

Greinarnar fjalla um frumherja kvikmyndagerðar á borð við Óskar Gíslason og Kjartan Bjarnason auk annarra. Fleiri greinar eru í vinnslu.

Í tilkynningu frá safninu segir:

Um þessar mundir standa yfir rannsóknir á frumherjum íslenskrar kvikmyndagerðar á Kvikmyndasafni Íslands. Kvikmyndagerðarmennirnir Kjartan Ó. Bjarnason, Vigfús Sigurgeirsson og Ósvaldur Knudsen eru í forgrunni þeirra rannsókna. Rannsóknirnar eru viðamiklar þar sem allar kvikmyndir þeirra eru skannaðar inn, efnisgreindar og rannsakaðar. Þá eru öll gögn skoðuð; skjöl, frásagnir og blaðagreinar. Gunnar Tómas Kristófersson, doktorsnemi í kvikmyndafræði, leiðir rannsóknirnar.

Nýjar upplýsingar

Í ár lauk rannsóknum á Kjartani Ó. Bjarnasyni og afrakstur rannsóknanna birtist í tveimur greinum eftir Gunnar Tómas. Sú fyrri birtist í Andvara í vor og bar heitið Myndir fyrir lýðveldið og sú seinni í sumar í Skírni en yfirskrift greinarinnar þar er Meistari rammans: Um kvikmyndagerð Kjartans Ó. Bjarnasonar. Báðar greinarnar varpa áhugaverðu ljósi á íslenska kvikmyndasögu og koma á framfæri nýjum upplýsingum, en Kjartani Ó. Bjarnasyni hefur verið gefinn lítill gaumur fram til þessa. Í greininni í Skírni segir Gunnar frá ferli Kjartans og þeim breytingum sem urðu á íslenskri kvikmyndagerð á þeim árum sem Kjartan fékkst við hana. Í greininni kemur m.a. fram að Kjartan varð fyrsti Íslendingurinn til að gera kvikmyndagerð að aðalstarfi árið 1945. Gunnar rekur þá einnig hvað varð til þess að Kjartan gat einbeitt sér að kvikmyndagerðinni og leggur þar fram kenningu um stofnanavæðingu í íslenskri kvikmyndagerð árið 1935. Þar er átt við að ríkið, stofnanir og félagasamtök og fleiri sáu hag sinn í framleiðslu á kvikmyndum og réðu til sín kvikmyndagerðarmenn í verkefni. Þá segir einnig frá lífi Kjartans í Danmörku og hvernig hann framfleytti sér sem kvikmyndagerðarmaður þar í landi.

Í grein Gunnars í Andvara er kastljósinu beint að Lýðveldishátíðinni 1944. Þjóðhátíðarnefnd réði Kjartan Ó. Bjarnason til að stýra gerð kvikmyndar íslenska ríkisins um Lýðveldishátíðina. Myndin varð fyrsta hljóðmynd Íslands og varð framleiðsla hennar vægast sagt mikið klúður. Óánægja ríkti meðal ljósmyndara að Kjartan fengi verkið þar sem hann var ekki menntaður í ljósmyndun heldur prentari. Þá kom reynsluleysi við framleiðslu hljóðmyndar Þjóðhátíðarnefnd í koll.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR