spot_img

Á FERÐ MEÐ MÖMMU tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs fyrir Íslands hönd, Grænland með í fyrsta sinn

Tilnefningar til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs hafa verið kynntar. Á ferð með mömmu eftir Hilmar Oddsson er tilnefnd fyrir hönd Íslands. Verðlaunaafhendingin fer fram í Osló 31. október.

Grænland á nú í fyrsta sinn fulltrúa ásamt hinum Norðurlandaþjóðunum. Hinar tilnefndu myndir verða allar sýndar í Bíó Paradís dagana 25. – 30. október.

Eftirtaldar myndir eru tilnefndar:

DANMÖRK:

Empire (Viften)

Leikstjóri: Frederikke Aspöck
Handritshöfundur: Anna Neye
Framleiðendur: Pernille Munk Skydsgaard, Nina Leidersdorff, Meta Louise Foldager Sørensen

St. Croix, Dönsku Vestur-Indíum, 1848. Anna Heegaard og Petrine eru nánar vinkonur. Báðar eru þær þeldökkar en kringumstæður þeirra eru afar ólíkar – Anna er frjáls og á ambáttina Petrine. Anna býr á sveitasetri sínu ásamt lífsförunauti sínum, danska nýlendustjóranum Peter von Scholten. Þar hefur hún umsjón með heimilinu, auði sínum og Petrine, sinni ástkæru og traustu ráðskonu. Allt virðist leika í lyndi uns orðrómur um uppreisn fer á kreik. Í hvoru liðinu eru þær Anna og Petrine þegar allt kemur til alls og er það sama liðið?

Rökstuðningur dómnefndar:
Það er metnaðarfullt í sjálfu sér að búa til kvikmynd um viðfangsefni sem hefur verið skammarlega lítið rætt í sögu Danmerkur: þrælasölu Dana á vesturindísku eyjunum. Hins vegar þarf verulegan kjark til að gera það á líflegann hátt, þar sem háðsádeila blandast við dramatískan alvöruþunga í lýsingum á vináttu tveggja svartra kvenna sem tilheyra mismunandi stéttum á St. Croix fram að þrælauppreisninni 1848. Þetta er það sem gerir Empire einstaka í danskri kvikmyndasögu og einnig í norrænu samhengi. Anna Neye, sem er handritshöfundur og hugmyndasmiður myndarinnar, dregur í samstarfi við leikstjórann Frederikke Aspöck upp lýsingu á hinum alltumlykjandi rasísku valdaformgerðum dönsku nýlendustjórnarinnar – lýsingu sem er bæði beitt og full af réttlátri reiði. Umgjörðin einkennist af frumlegri fagurfræði með áberandi hljóðheimi og áhrifaríkri leikmyndahönnun, sem undirstrikar fáránleika voðaverkanna. Langflestar sögulegar kvikmyndir halda sig á öruggum og traustum slóðum, en Empire losar sig djarflega undan öllum hefðum formsins. Danska dómnefndin er því á einu máli um að leggja þessa kvikmynd fram til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

FINNLAND:

Bubble (Kupla)

Leikstjóri: Aleksi Salmenperä
Handritshöfundar: Reeta Ruotsalainen, Aleksi Salmenperä
Framleiðandi: Minna Haapkylä

Eveliina er 16 ára frjálsleg unglingsstúlka sem á náinn vinahóp og ástríka foreldra. En veröld hennar hrynur í einni svipan þegar hún kemst að því að móðir hennar heldur við konu. Hún gerir allt sem hún getur til að stöðva ástarsamband þeirra svo að foreldrar hennar nái aftur saman. Þegar hún áttar sig á því að hún sjálf er límið sem heldur foreldrunum saman gerir hún áætlun sem hefur bæði dramatískar og skoplegar afleiðingar.

Rökstuðningur dómnefndar:
Bubble er hugvitssamlega fyndin kvikmynd, gerð af óvenjumiklu öryggi, fjallar um fjölskylduleyndarmál og það að fullorðnast. Áður en yfir lýkur umbreytist drungi vetrarins í hlýju og börn verða kennarar foreldra sinna. Handrit Aleksi Salmenperä, leikstjóra myndarinnar og Reetu Ruotsalainen býður upp á sjónarhorn tveggja ættliða og sýn myndarinnar á finnskan smábæ – og finnskt hversdagslíf í dag. Myndin er fersk, nútímaleg og beitt.

GRÆNLAND:

The Edge of the Shadows (Alanngut Killinganni)

Leikstjóri: Malik Kleist
Handritshöfundur: Malik Kleist
Framleiðandi: Nina Paninnguaq Skydsbjerg

Átta ár eru liðin síðan hið goðsagnakennda Qivittoq réðist á sex ungmenni í kvikmyndinni Qaqqat Alanngui. Tuuma er leiðsögumaður í Nuuk á Grænlandi og fer með ferðamenn í útsýnissiglingar. Á einni slíkri siglingu spyrja ferðamennirnir hvort þau geti farið á staðinn þar sem ráðist var á ungmennin, en Tuuma er tregur til þess. Þegar þau koma á staðinn reynast grunsemdir Tuuma á rökum reistar og tveir ferðamannanna hverfa. Tuuma siglir í snarhasti aftur til Nuuk til að kalla lögregluna til aðstoðar. En er ráðlegt að snúa aftur og leita að ferðamönnunum þegar fjallafólkið, Qivittoq, er á ferli í fjöllunum?

Rökstuðningur dómnefndar:
Á sinn einstaka hátt byggir leikstjóri The Edge of the Shadows á frásögnum og goðafræði inúíta og blandar nútímafrásagnartækni við kímni og hrylling úr munnlegri frásagnarhefð Grænlendinga. Þannig verður helsta sérkenni myndarinnar hvernig grænlenskum frásögnum og goðafræði er fléttað inn í frásögnina á áreynslulausan hátt. Grænlenskt landslag er líka einkennandi fyrir myndina, þar sem áhrifamikið útsýni yfir fjöll og sjó myndar stórkostlega leikmynd fyrir atburðarásina. Fagurt landslagið eflir tilfinninguna fyrir ótta og óróleika en bætir nýrri vídd við spennuþrungna atburðarás myndarinnar. Viðfangsefni myndarinnar tengjast sorg, mannlegu samfélagi og hefðum. Það kristallast í árekstrum á milli menningarheima, þéttbýlis og dreifbýlis annars vegar og þess náttúrulega og hins dulmagnaða hins vegar, en einnig í virðingunni fyrir náttúru og sögu. Það leynast hlutir þarna úti sem við kunnum ekki skil á. Myndin er glæsilegt innlegg í nýlega hefð úr hinu háa norðri sem nefnd hefur verið „arctic chills“.

ÍSLAND:

Á ferð með mömmu

Leikstjóri: Hilmar Oddsson
Handritshöfundur: Hilmar Oddsson
Framleiðandi: Hlín Jóhannesdóttir

Jón er rúmlega fimmtugur, einhleypur og býr með móður sinni á afskekktum og einangruðum bæ í Arnarfirði á Vestfjörðum. Sagan gerist á áttunda áratugnum og mæðginin lifa við sjálfsþurftarbúskap, samband þeirra er fáskiptið og tómlegt en blendingshundurinn Brésnef heldur uppi stemningu á bænum. Þegar móðirin deyr þarf Jón að standa við loforð sem hann gaf henni um hinstu hvílu á æskuslóðum suður með sjó. Hann klæðir hana upp í sitt fínasta púss, farðar hana og varalitar og reyrir í aftursætið á eldgömlu cortinunni, þar sem hún situr í pelsinum sínum með hatt og slör. Brésneff situr við hlið hans og saman fer þríeykið í hinstu för móðurinnar, þangað sem hún hefði viljað lifa lífi sínu. Ferðin byrjar brösulega og vandræðagangurinn fylgir þeim áleiðis þar sem á vegi þeirra verða túristar, lögreglan og farandleikhópur sem skýtur upp kollinum á ólíklegustu stöðum. En ferðin er uppgjörsferð. Móðir Jóns er hvergi nærri horfin í anda og talar við hann hvössum rómi á langri leið sem gengur hægt. Líf þeirra saman og föðurins sem brann inni í fjárhúsum áratugum áður fer að taka á sig mynd í gegnum samtal mæðginanna, ástarsamband Jóns sem aldrei fékk að verða og aðrir draugar fortíðar verða æ fyrirferðarmeiri og Jón áttar sig smám saman á því að tilvist hans veltur á því að taka loksins af skarið og horfast í augu við sjálfan sig, staðreyndir og hvert hann ætlar að stýra sínu lífi héðan af.

Rökstuðningur dómnefndar:
Í kvikmynd sinni, Á ferð með mömmu, nýtir leikstjórinn og handritshöfundurinn Hilmar Oddsson klassískt form vegamyndarinnar á einkar árangursríkan hátt til að lýsa innra ferðalagi aðalpersónunnar, Jóns. Í þeirri ferð neyðist Jón til að horfast í augu bæði við litleysi eigin fortíðar og það líf sem hann fór á mis við. Sú aðferð að hafa myndina í svarthvítu hentar efninu vel og endurspeglar grámann í Jóni sjálfum um leið og hún skapar þá upplifun að hér sé á ferðinni nokkur konar fabúla fremur en fullkomlega raunsæ frásögn. Þessi speglun á innra lífi aðalpersónunnar og hvernig það þróast er svo undirstrikuð og efld með landslaginu sem Jón ekur um á leið sinni. Ferðin hefst í þröngum fjörðum með bröttum hvassleitum fjöllum og illfærum malarvegum, liggur svo um svarta eyðisanda og lífvana hraunbreiður, áður en við tekur gróin víðátta og malbikaðir þjóðvegir. Framvindan í myndlíkingunni lýsir því vel hvernig vitund Jóns víkkar smám saman um leið og hann gerir sér grein fyrir öllu því sem hann hefur misst af í lífinu. Á ferð með mömmu er svört kómedía, súrrealísk á köflum. Þar sem útgangspunktur ytri frásagnarinnar er afar einfaldur og skýr, getur leikstjórinn auðveldlega leyft sér að bregða á leik innan þess ramma, án þess að framvindan missi dampinn og hann nýtir þetta frásagnarlega frelsi sannarlega vel og áreynslulaust. Frásögnin einkennist af léttleika og fjöri, þrátt fyrir hið harmræna innihald um vannýtt líf. Sirkushópurinn sem birtist hér og þar á vandlega völdum stöðum í myndinni er fulltrúi þeirrar gleði og hamingju, sem hvarf úr lífi Jóns fyrir ævalöngu og tónlistin hjálpar til við að koma öllu þessu til skila. Sem margreyndur leikstjóri hefur Hilmar augljóslega alla þætti kvikmyndalistarinnar á valdi sínu og tekst að segja sögu um mannlegan harmleik, með hlýju og húmor, oft án orða þar sem hann nýtir sér myndræna frásögn á einkar fallegan hátt, ásamt sérlega vel útfærðri tónlist.

NOREGUR:

War Sailor (Krigsseileren)

Leikstjóri: Gunnar Vikene
Handritshöfundur: Gunnar Vikene
Framleiðandi: Maria Ekerhovd

Sjómaðurinn Alfred Garnes á eiginkonu að nafni Cecilia og er nýorðinn þriggja barna faðir. Þegar önnur heimsstyrjöld brýst út er hann ásamt Sigbjørn Kvalen, æskuvini sínum sem kallaður er Wally, við störf á kaupskipi úti á miðju Atlantshafi. Þeir eru óbreyttir borgarar og óvopnaðir, en neyðast til að sigla áfram í framvarðarlínu stríðs sem þeir báðu aldrei um að berjast í. Alfred og Sigbjørn berjast fyrir lífi sínu í hringiðu ofbeldis og dauða þar sem þýskir kafbátar geta þegar minnst varir ráðist á skip þeirra, sem hlaðið er farmi sem getur ráðið úrslitum fyrir Bandamenn í stríðinu. Stríðssjóararnir hafa eitt markmið: Að lifa af – til að komast heim. Um leið baslar Cecilia, kona Alfreðs, við það að sjá ein fyrir þremur börnum í hersetnu landi. Breskar sprengjuflugvélar reyna að sprengja upp þýskt kafbátaskýli í Björgvin en hitta þess í stað grunnskóla í Laksevåg og heimili óbreyttra borgara í Nøstet, sem verður til þess að hundruð óbreyttra borgara láta lífið. Alfred og Wally eru í Kanada þegar þessar fregnir berast og þeim skilst að heima bíði þeirra kannski ekkert lengur.

Rökstuðningur dómnefndar:
Með War Sailor hefur leikstjórinn og handritshöfundurinn Gunnar Vikene skapað epíska stórmynd um seinni heimsstyrjöldina sem skilar innilegri og trúverðugri lýsingu á þeim mannlegum fórnum sem fylgja stríðsrekstri. Þær frumlegu listrænu ákvarðanir sem teknar eru við gerð myndarinnar skila sér í margbrotinni frásögn sem teygir sig lengra en gengur og gerist í stríðsmyndum. Verkafólkið fær ekkert að segja um sínar aðstæður og við kynnumst því hvernig áföll tengd stríði verða óbærileg. Þannig á myndin erindi langt umfram hið sögulega samhengi sitt. Í miðpunkti frásagnarinnar eru tveir vinir sem lenda í ómanneskjulegum prófraunum og standa frammi fyrir ómögulegu vali. Þeir eru leiknir af tveimur af fremstu leikurum Norðmanna, Kristoffer Joner og Pål Sverre Hagen, sem sýna afar góða frammistöðu. Nærgöngul myndataka Sturlu Brandth Grøvlen og aðdáunarverð hljóðhönnun skila ógnvænlegri en jafnframt hjartnæmri frásögn þar sem áhorfandinn er hrifinn með út á hið stórkostlega og lífshættulega haf, inn í þröngt vélarrýmið og tilveruna uppi á landi.

SVÍÞJÓÐ:

Opponent (Motståndaren)

Leikstjóri: Milad Alami
Handritshöfundur: Milad Alami
Framleiðandi: Annika Rogell

Þegar tilveru íranska glímumannsins Imans er umturnað flýr hann til Svíþjóðar með fjölskyldu sína. Þrátt fyrir óöryggið í flóttamannabústaðnum tekst foreldrunum að skapa dætrum sínum tryggt umhverfi, en hefur þeim tekist að flýja ógnina sem steðjaði að í heimalandinu? Ógnvekjandi leyndarmál ólgar undir yfirborðinu og hefur möguleika á að sundra fjölskyldunni – og þvinga Iman til að horfast í augu við fortíð sína.

Rökstuðningur dómnefndar:
Sterk, flókin og þétt kvikmynd. Glóir með lágstemmdum bjarma en er jafnframt alelda. Frásögn Milads Alami er marglaga, hægfara og breytir um stefnu á leiðinni – án þess að Alami missi sjónar á takmarki sínu sem leikstjóri. Hann segir frá Svíþjóð, frá hlykkjóttri flóttaleið og forboðnum tilfinningum, án þess að gera viðfangsefnið auðvelt – hvorki sjálfum sér né áhorfendum. Í samstarfi við leikarann Payman Maadi og með næmri myndatöku Sebastians Winterø fangar Alami einnig af nákvæmni skilin á milli hinna líkamlegu átaka glímuíþróttarinnar og þeirra snertinga sem þrungnar eru einhverju allt öðru. Hann fellir okkur kylliflöt.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR