„Everest“ gerir gott mót yfir opnunarhelgina víða um heim

Á leið á toppinn.
Á leið á toppinn.

Everest fær yfir heildina jákvæðar umsagnir vestanhafs og í Bretlandi með 73% heildarskor af 100% á Rotten Tomatoes sem stendur. Alls hafa 148 gagnrýnendur tjáð sig og af þeim eru 108 jákvæðir. Myndin virðist einnig gera sig vel í miðasölunni vestra og spilar yfir væntingum. Alþjóðleg miðasala gengur sömuleiðis vel en myndin var frumsýnd í 36 löndum s.l. föstudag. Á Íslandi er talið að þetta verði stærsta opnunarhelgi ársins en það liggur fyrir á morgun.

Deadline fjallar um gengi mynda helgarinnar vestanhafs nú í morgun. Fram kemur að Everest sé í 5. sæti eftir laugardaginn og hafi þegar tekið inn 7,6 milljónir dollara. Er þá sunnudagskvöldið eftir, en bransamiðlarnir höfðu spáð myndinni allt frá 6-8,7 milljónum dollara í tekjur yfir helgina. Það er því nokkuð ljóst að myndin mun fara vel yfir hæstu spárnar.

Deadline segir einnig að myndin hafi tekið inn 3 milljónir dollara á laugardag sem hafi verið 31% hækkun frá föstudegi og að þetta hafi verið besti september frá upphafi hjá IMAX bíóunum sem hafi tekið inn 6 milljónir dollara á 366 tjöldum (myndin er alls sýnd á 545 tjöldum, restin eru svokölluð PLF-tjöld sem eru einnig risatjöld en ekki IMAX). Þá kemur einnig fram að fólk yfir 35 ára hafi verið 55% áhorfenda og að karlmenn hafi verið 54% áhorfenda.

Þá skýrði Variety frá því í gær að myndin hefði átt mjög góðan upphafssprett á alþjóðlegum vettvangi með 26,5 milljón dollara í tekjur eftir föstudaginn. Myndin var einnig efst á aðsóknarlistum í sex löndum eftir föstudaginn.

Heimildir Klapptrés herma að það stefni í eina stærstu opnun kvikmyndar hér á landi og þá um leið stærstu opnun á Hollywood mynd frá Baltasar.

Á morgun liggja tölur helgarinnar fyrir á Íslandi, vestanhafs og alþjóðlega og verður nánar skýrt frá þeim hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR