Baltasar um áhrif Brexit á íslenska kvikmyndagerð: „Okkur í hag að það sé mikið að gera í Bretlandi“

Baltasar Kormákur. (Mynd: Lilja Jónsdóttir)
Baltasar Kormákur. (Mynd: Lilja Jónsdóttir)

„Ég held að það sé ekkert okkur í hag að þeim gangi illa,“ segir Baltasar Kormákur í samtali við Vísi um ákvörðun bresku þjóðarinnar um að segja sig úr Evrópusambandinu. Breska þjóðin kaus um veru í sambandinu síðastliðinn fimmtudag en þessi ákvörðun gæti haft slæm áhrif á breskan kvikmyndaiðnað sem Íslendingar hafa notið góðs af.

Úr frétt Vísis:

Kollegarnir miður sín
Umfjöllun fjölmiðla ytra um áhrif útgöngu Breta úr Evrópusambandið á kvikmyndagerð þar í landi er þó flest á þann veg að mikil óvissa sé í raun um það og tekur Baltasar undir það.

„Ég hef heyrt í kollegum mínum úti sem eru alveg miður sín yfir þessu. Það er mikið sjokk fyrir aðila sem eru í „international-bransanum“ sem ég er að vinna með sem eru að framleiða þessar stóru myndir í Bretlandi. Það er okkur í hag að það sé mikið að gera í Bretlandi,“ segir Baltasar.

Aðallega leiðinlegt fyrir ungt fólk
Hann segist ekki vera áhyggjufullur um horfurnar en finnst þetta aðallega leiðinlegt gagnvart ungu fólki því þetta sé mikið afturhvarf til þess ástands sem ríkti í Bretlandi fyrir þrjátíu árum

„Þegar maður þurfti að fá atvinnuleyfi í Bretlandi og þetta var allt lokað og Bretland var bara glatað á þeim tíma. Nú kemur maður til London og þetta er skemmtilegasta borg í heimi því hún er opin og það er mikið af fólki alls staðar frá þarna og þetta er suðupottur menningar,“ segir Baltasar en íbúar London kusu einmitt að vera áfram en ungt og menntað fólk valdi fremur að vera áfram í Evrópusambandinu í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Ég trúi ekki að þeir hafi farið í gegnum þetta og ég trúi að það verði bakkað með þetta. Ég held að öll skynsemi segi fólki að þetta hafi verið mistök. Og mér heyrist á mönnum að þeir séu að átta sig á því að þetta hafi verið mistök,“ segir Baltasar en bætir við að kvikmyndabransinn sé eins og allur annar bransi, sama hver niðurstaðan er aðlagar hann sig að umhverfinu.

Sjá nánar hér: visir.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR