Baltasar vill kynjakvóta í kvikmyndasjóði

Baltasar Kormákur.
Baltasar Kormákur.

Baltasar Kormákur segist í viðtali við Fréttablaðið vilja setja kynjakvóta á úthlutanir úr kvikmyndasjóði og  að ríkið taki föstum höndum að auka hlut kvenna í kvikmyndagerð. „Ég er að segja, ókei strákar, förum í þetta mál. Styðjum við þetta. Hættum að berjast á móti. Við erum að stækka pottinn. Það er ekki verið að taka neitt frá neinum. Þetta er öllum til góða.”

Í viðtalinu, sem að öðru leyti fjallar vítt og breitt um feril Baltasars og væntanlega mynd hans Everest, kemur meðal ananrs eftirfarandi fram:

Hann hefur ákveðnar hugmyndir um hvernig það skuli gert á fimm árum. Framlög til kvikmyndasjóðs verði aukin, potturinn stækkaður og allt sem er umfram það sem þegar er fari til kvenna í kvikmyndagerð.

„Ef fyrirtækin vita að það er hægt að sækja í þennan sérstaka kvennasjóð verður farið í það að finna þetta efni eftir konur, þróa það og vinna. Það er ekkert sem segir að konur séu síðri leikstjórar en karlmenn. Það eru engin rök sem halda í því. Það er hins vegar margt í kerfinu sem hefur haldið þeim frá þessum leikstjórastól,“ heldur Balti áfram.

Hann segir kvikmyndabransann áhættusaman í eðli sínu.

„Til þess að búa til bíómynd á Íslandi þarftu eiginlega að vera spilafíkill líka. Þú þarft að leggja allt undir. Karlmenn eru oft hégómagjarnari en konur og eru þess vegna tilbúnir að taka meiri áhættu. Þetta er sama ástæða og fyrir því að menn endast ekki í bransanum, því upp úr fimmtugu minnkar testosterónið í líkamanum og þessi áhættusækni.“

Hann segir grundvallaratriði að ríkið taki frumkvæði, hvetji einkafyrirtækin til þess að framleiða meira efni eftir konur.

„Ég hugsa þetta sem eins konar átak. Ef því er komið á hreint að þarna sé pottur fyrir konur, þá munu menn taka við sér. Sækja í efni eftir konur. Þetta gerist ekki af sjálfu sér – hversu lengi ætlum við að berjast fyrir þessu án þess að taka það föstum tökum? Ég er að segja, ókei strákar, förum í þetta mál. Styðjum við þetta. Hættum að berjast á móti. Við erum að stækka pottinn. Það er ekki verið að taka neitt frá neinum. Þetta er öllum til góða.”

Hann segir að sjálfsögðu ekki hægt að þvinga einkarekin fyrirtæki til nokkurs.

„En ef það er hægt að koma því þannig fyrir að það sé peningur í því að ráða konur, þá trúi ég því að það þurfi enga kvóta þegar þessu átaki er lokið. Þá trúi ég því að konur komi sér alveg jafn vel fyrir í leikstjórastólnum og karlmenn til frambúðar.” Baltasar segir þetta átak forvarnarstarfsemi. „Við erum að afstýra menningarslysi framtíðarinnar, því að eins og staðan er eru heilu kynslóðirnar af kvenfólki ekki að nýta sterkasta frásagnamiðil samtímans, til að segja sínar sögur. Fyrir utan það að þetta er ekki kúl. Ég er stoltur þegar ég segi frá því erlendis að fyrsta konan sem var lýðræðislega kjörin forseti var íslensk, þegar ég tala um réttindi samkynhneigðra hér. Svo kemur spurningin um konur í kvikmyndagerð – úps, við gleymdum því.“

Hræddur og lítill karl

En af hverju núna?

„Ég hef verið í vörn, eins og margir karlmenn. Ég hef verið hræddur, lítill karl,“ segir Baltasar og segir þessi mál hafa verið honum hugleikin undanfarið. Hann hefur upplifað algjöra hugarfarsbreytingu.

„Ég var beðinn að kenna á námskeiði fyrir RIFF, stelpum í kvikmyndagerð. Ég ætla að taka þátt í því. Einhvern veginn er það þannig, og ég veit ekki hvaða tilfinning það er, að maður fer að verja sitt kyn – sem er fáránlegt. Eins og sé verið að taka eitthvað frá manni, eða ég veit ekki hvað. Ég held að þetta bærist í brjósti margra karlmanna, hræðslutilfinning. Þá verður þessi furðulega svokallaða karlremba,“ útskýrir hann.

Berð þú ekki ábyrgð sem eigandi eins stærsta framleiðslufyrirtækis á Íslandi?

„Ég ber þá ábyrgð sem ég ákveð að taka mér. Ég hef ákveðið að taka þá ábyrgð að taka þátt í þessari breytingu sem þarf að verða. RÚV og fleiri batterí bera líka mikla ábyrgð,“ segir hann.

Sjá nánar hér: visir.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR