Tökur hafnar á hrollvekjunni “Mara”

Gunnar Kristinsson leikari og Elvar Gunnarsson leikstjóri hrollvekjunnar Mara. (Mynd: Vísir/Andri Marinó).
Gunnar Kristinsson leikari og Elvar Gunnarsson leikstjóri hrollvekjunnar Mara. (Mynd: Vísir/Andri Marinó).

Þessa dagana fara fram tökur á nýrri íslensk/enskri hryllingsmynd sem ber nafnið Mara. Höfundar myndarinnar eru þeir Elvar Gunnarsson og Ingimar Sveinsson en sá síðarnefndi kom einnig að gerð kvikmyndarinnar Albatross.

Fréttablaðið skýrir frá:

„Við erum að taka upp úti um allt, aðallega í Haukadalnum á Vesturlandi. Við skjótum líka á Vestfjörðum og svo hérna í Reykjavík,“ segir Elvar, sem er jafnframt leikstjóri myndarinnar.

Í gær fóru tökur fram í miðbænum og var búið að breyta Frakkastíg í hálfgerðan hryllingsstíg.

Hún gerist einnig í Bandaríkjunum að hluta og fer tökuliðið til Nashville í september þar sem tökur á myndinni verða kláraðar.

Spurður út í söguþráðinn segir Elvar að myndin muni fá hárin til að rísa. „Hún fjallar um evrópskt par sem býr í Bandaríkjunum og það ákveður svo að flytja til Íslands en annað þeirra er frá Íslandi. Þau koma til Íslands í von um betra líf og kaupa gistiheimili. Það kemur svo í ljós að það er eitthvað undarlegt í gangi þar og það verður hasar í húsinu,“ útskýrir Elvar.

Myndin er önnur myndin sem hann gerir í fullri lengd en hann hefur að mestu komið að leikstjórn tónlistarmyndbanda og auglýsinga.

Aðalhlutverkin leika þau Vivian Didriksen Ólafsdóttir og Gunnar Kristinsson. Framleiðslufyrirtækið 23 Frames framleiðir myndina og er hún fjármögnuð af erlendum sem og innlendum fjárfestum. „Þessi mynd er ekki gerð með íslenska styrkjakerfinu heldur fjármögnuð af fjárfestum og þetta hefur allt saman gengið mjög vel.“

Sjá nánar hér: visir.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR