spot_img

Vill reisa Hollywood norðursins í Gufunesinu

Baltasar Kormákur gæti breytt framtíð kvikmyndaiðnaðarins á Íslandi ef allt gengur eftir. Grafarvogur verður þá kvikmyndastöð Íslands, segir Fréttatíminn í umfjöllun um áætlanir Baltasars um uppbyggingu kvikmyndavers í Gufunesi.

Rætt er við Baltasar um málið:

Draumurinn er að byggja upp einstaka aðstöðu,“ segir Baltasar Kormákur, en hann ætlar í samstarfi við Reykjavíkurborg að byggja nokkurskonar Hollywood norðursins í Grafarvogi. Hugmyndirnar eru ekki bara stórhuga, heldur er þar að finna skýr teikn um framtíðarsýn í kvikmyndagerð á Íslandi. Gangi sýnin eftir, er óhætt að fullyrða að íslensk kvikmyndagerð verður aldrei söm.

Og þróunin er þegar hafin á svæðinu. Tvö kvikmyndafyrirtæki hafa óskað eftir aðstöðu á Gufunesinu í Grafarvogi nærri gömlu áburðarverksmiðjunni sem fyrirtæki Baltasar Kormáks, RVK studios, keypti í lok maí. Nú er unnið að nýju deiliskipulagi fyrir svæðið og stendur samkeppni yfir því tengd þessa stundina.

Lengi á dagskrá

„Gufunesið er búið að vera í dálítinn tíma á dagskrá,“ segir Hrólfur Jónsson, skrifstofustjóri eignar- og atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg. Hann hefur unnið að því, ásamt starfsmönnum borgarinnar, að skipuleggja svæðið, og fengið til þess fjölmarga aðila til þess að aðstoða við það síðustu tvö árin.

Framleiðslufyrirtæki Baltasars Kormáks, RVK Studios, keypti gömlu áburðarverksmiðjuna í maí fyrir um 300 milljónir og til stendur að breyta húsnæðinu í myndver. Það er gert til þess að þjónusta þau fjölmörgu kvikmyndafyrirtæki sem koma hingað til lands. Iðnaðurinn er þó talsvert fjölbreyttari og að mörgu að hyggja.

„Hugmyndafræðin er að þarna verði stúdíó og stoðfyrirtæki í kring,“ segir Hrólfur en fyrirtækin tvö sem hafa óskað eftir því að fá aðstöðu í gömlu húsunum nærri áburðarverksmiðjunni, eru annarsvegar leikmyndasmiðja og svo tækjaleiga sem býður fyrirtækjum að leigja fjölbreyttan búnað sem til þarf til þess að taka upp kvikmynd og annað efni.

Meiri menning

„Við sjáum fyrir okkur að þarna verði fleiri skapandi greinar,“ segir Hrólfur og bendir á að þegar sé hljóðver á staðnum sem kvikmyndagerðamaðurinn Dagur Kári Pétursson og Orri Dýrason, meðlimur Sigur Rósar, halda úti.

Þetta þýðir að svæðið verður sprúðlandi af menningu. Aðspurður hvort þetta muni hugsanlega verða til þess að sýn margra á Grafarvoginn breytist, enda stefnt að nokkurskonar Hollywood norðursins, svarar Hrólfur: „Þetta gæti umbylt hugmyndum margra um Grafarvoginn.“

Fylgir draumunum

En deiliskipulagið segir aðeins hálfa söguna. Baltasar Kormákur hefur þegar sýnt það og sannað að hann er fremstur í flokki hér á landi þegar kemur að kvikmyndagerð. Hann gæti unnið myrkranna á milli í stórum myndverum úti í Bandaríkjunum við að leikstýra einhverjum af þeim fjölmörgu handritum sem þeim berast í viku hverri. Hann kýs þó að fylgja draumum sínum eftir og byggja upp öflugan kvikmyndaiðnað hér á landi.

„Við ætlum að byrja á stúdíói. En við gerum þetta líklega hægt og rólega. Það er feikilega mikið sem þarf að gera og ekkert sjálfgefið að fólk komi hlaupandi með peningana,“ segir Baltasar varfærinn. Hugmyndir hans snúa að því að búa til kvikmyndaþorp þar sem hægt verður að taka upp stórmyndir í myndverinu. Þá sér hann fyrir sér stoðfyrirtæki í grenndinni sem geta boðið upp á fjölbreytta þjónustu fyrir kvikmyndafyrirtækin.

Svamlandi í sjónum

„Og svo væri gaman að fá þarna Imax-bíó og hótel fyrir kvikmyndagerðarfólkið til þess að gista á,“ segir Baltasar. Hann sér jafnvel fyrir sér að kvikmyndaskólinn gæti verið á svæðinu í framtíðinni, sé áhugi fyrir hendi. Þá sér Baltasar meira að það segja fyrir sér kvikmyndagerðarfólk svamlandi í sjónum á fallegum degi; enda Gufunesið paradís á sólríkum dögum.

Sjálfur hefur Baltasar enn sterkari sýn þegar kemur að myndverinu sem hann segir að verði eitt það stærsta í Evrópu þegar yfir lýkur. Þetta skiptir töluverðu máli því verkefnin verða stærri – og fleiri – ef allt gengur eftir.

Þurfum almennilegt myndver

„Þetta er eins og þeir segja í útlöndum, „content is king“. Ef þú átt „contentið“ þá getur þú gert meira, eins og með víkingamyndina sem ég vil taka á Íslandi,“ segir Baltasar en hann undirbýr nú upptökur á myndinni Vikingr, en sú mynd verður stærri að sniðum en allar myndir sem framleiddar hafa verið hér á landi.

Baltasar segir að eina leiðin til þess að verða raunverulegur leikmaður í kvikmyndaiðnaðinum sé að byggja almennilegt myndver sem geti ekki aðeins þjónustað þau fjölmörgu verkefni sem hingað koma til landsins á hverju ári, heldur einnig framleitt eigin myndir. Hann bendir á að þættirnir Ófærð hafi verið fjármagnaðir meira eða minna með erlendu fjármagni og að sá hluti iðnaðarins sé að breytast; enda iðnaður sem veltir milljörðum ofan á milljarða.

Þegar allir fóru á hausinn

„Það er alveg ofboðslegur vöxtur í kvikmyndaframleiðslu,“ segir Baltasar og rifjar upp þegar íslenskir kvikmyndagerðarmenn fóru nánast alltaf á hausinn við að gera kvikmyndir.

„Nú eru bankarnir meira inni í þessu og fjármögnunin öruggari. Það stuðlar að betri vinnubrögðum og laðar mikið hæfileikafólk að,“ segir Baltasar.

Hann undirstrikar hinsvegar að góðir hlutir gerist hægt og að það þurfi að byggja upp með skynsamlegum hætti. „Við ætlum allavega ekki að gera þetta þannig að stúdíóið haldi sér aðeins uppi með 90% nýtingu,“ segir hann. Því hyggst hann byggja upp á 20 þúsund fermetra svæði hægt og rólega; og ef úr rætist, gætu Íslendingar verið með stöndugri kvikmyndaþjóðum Evrópu. Þar er myndverið lykilatriði, að mati Baltasars.

Endurgreiðslan skiptir sköpum

Hann segir að myndverið megi einnig nota fyrir minni kvikmyndir, þannig sé það alþekkt að slíkum myndverum sé skipt upp í einingar, og það myndi henta íslenskri kvikmyndagerð vel.

Spurður út í stærð myndversins, og hvort það sé hægt að útskýra fyrir lesendum stærð þess, svarar Baltasar að mynd hans, stórmyndin Everest, hafi verið tekin upp í keimlíku myndveri í Bretlandi.

„Í Danmörku eru minni myndver, og því gæti þetta verið sérstaða fyrir okkur, því helstu myndverin eru í Bretlandi þessa dagana,“ segir Baltasar, en hann leggur hinsvegar áherslu á að Alþingi hækkaði endurgreiðslu til kvikmynda hér á landi fyrir skömmu, sem er lykilatriði til þess að svona starfsemi geti þrifist hér á landi.

Margir látið sig dreyma

Spurður hvernig Baltasar sjái fyrir sér þróunina á svæðinu næstu ár, segir hann að nú fyrst verði farið í umfangsmiklar endurbætur á áburðarverksmiðjunni þar sem myndverið mun standa. Þá mun Íslenska gámafélagið flytja af svæðinu á næstu árum og það hreinsað upp.

„Og þá ætti þetta að gerast hratt. Ég sé fyrir mér að það verði komin mynd á svæðið eftir fimm ár,“ segir hann.

Spurður hvort hann sé að draga vagninn þegar kemur að framrás kvikmyndaiðnaðarins á Íslandi, svarar Baltasar; „Ég held að margir hafi látið sig dreyma, en ekki haft kjark eða bolmagn til þess að hrinda hlutunum í framkvæmd. Þannig dæmist þetta dálítið á mig hugsanlega. Svo má auðvitað vera að þetta mistakist allt, en þá verður líka bara að hafa það.“

Sjá nánar hér: Vill reisa Hollywood norðursins í Gufunesinu – Fréttatíminn

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR