Baltasar ánægður með viðtökur “Everest” í Feneyjum

Baltasar Kormákur og Lilja Pálmadóttir á rauða dreglinum á Feneyjahátíðinni fyrr í kvöld.
Baltasar Kormákur og Lilja Pálmadóttir á rauða dreglinum á Feneyjahátíðinni fyrr í kvöld.

Baltasar Kormákur segir að mynd hans Everest hafi fengið góðar viðtökur á frumsýningu á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í kvöld. Henni hafi verið fagnað með lófataki í lokin. Baltasar segir þetta það langstærsta sem hann hafi upplifað. RÚV greinir frá.

Í frétt RÚV segir m.a.:

Baltasar Kormákur og eiginkona hans Lilja Pálmadóttir skörtuðu sínu fegursta á rauða dreglinum við upphaf Kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum síðdegis – hún í kjól frá hönnuðinum Alexander McQueen. Fréttastofa náði tali af Baltasar í kvöld – rétt eftir að sýningu á mynd hans, Everest – opnunarmynd hátíðarinnar, lauk. Hann sagði líðanina góða.

„Þetta var mikil hátíð, ítalski forsetinn mættur og allur pakkinn þannig að þetta gat ekki verið mikið hátíðlegra og alveg eins og í bíómyndunum rauða teppið,“ segir Baltasar. Þarna hafi verið þúsundir ljósmyndara og fjöldi fólk. Þá hafi viðtökurnar að sýningu lokinni verið góðar. Gestir hafi risið úr sætum og klappað. „Sem er víst ekki gefið á þessum hátíðum. Þeir geta verið mjög harkalegir stundum ef þeir fíla ekki það sem þeir sjá. Þannig að hátíðarhaldarinn og þeir í kring voru rosa jákvæðir og ánægðir með viðbrögðin.“

Everest hefur almennt fengið góða dóma. Baltasar segir misjafnt hvað fólki sýnist um myndina.

„Þar sem einhverjum finnst ekki nógu mikil characterisation finnst öðrum alveg frábært að það sé ekki verið að búa til fake charactera heldur að vera trúir sögunni,“ segir Baltasar. „Svo kemur þetta bara í ljós á næstu dögum. Við eigum eftir að fara til Ameríku og ég á eftir að frumsýna hana þar og í Frakklandi og hún á eftir að fara út um allan heim og það er rosaleg eftirvænting eftir henni og maður er bara spenntur.“

Baltasar segir að þau hjónin hafi verið búin undir athyglina og hamaganginn á rauða dreglinum í dag.

„En þetta er náttúrulega lang lang mesta sem við höfum séð. Þetta er alveg í toppnum þar. Ég hef náttúrulega verið á rauða teppinu í Bandaríkjunum. Þegar er verið að frumsýna þar þá er meiri iðnaðarbragur á því,“ segir Baltasar. Það sé hins vegar raunverulega rauða dregils stemning í Fenyjum og raunar líka á kvikmyndahátíðunum í Cannes og í Berlín. „Þá er þetta alla leið eins og maður sér í gömlu bíómyndunum, Fellini og því.“

Sjá hér: Lófaklapp í lok myndar | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR