Bíómyndum og þáttaröðum eftir konur fjölgar

Von er á að minnsta kosti fjórum bíómyndum á næsta ári í leikstjórn og eftir handriti kvenna. Einnig hafa tvær kvikmyndir sem stýrt verður af konum fengið vilyrði um framleiðslustyrk og von er á að minnsta kosti tveimur þáttaröðum þar sem konur eru við stjórn. Þetta er nokkur breyting frá því sem verið hefur.

Sé mynd Sólveigar Anspach Sundáhrifin undanskilin (frönsk/íslensk framleiðsla) eru sex ár síðan kona leikstýrði síðast íslenskri bíómynd (Valdís Óskarsdóttir/Kóngavegur). Þá stýrði Silja Hauksdóttir annarri syrpu þáttaraðarinnar Ástríður 2013.

En nú er öldin önnur. Þessa dagana eru að minnsta níu kvenkyns leikstjórar að störfum við átta bíómyndir og þáttaraðir. Eru þá ótalin önnur verkefni á borð við stuttmyndir og heimildamyndir.

Kristín Jóhannesdóttir vinnur nú að eftirvinnslu kvikmyndarinnar Alma. Frumsýning er áætluð á næsta ári. Síðasta bíómynd Kristínar, Svo á jörðu sem á himni, kom út 1992.

Ása Helga Hjörleifsdóttir er nú að eftirvinna sína fyrstu bíómynd, Svaninn. Frumsýning er áætluð á næsta ári.

Tökur eru hafnar á fyrstu bíómynd Ísoldar Uggadóttur, Andið eðlilega. Von er á myndinni á næsta ári.

Þá mun kvikmyndin Sumarbörn eftir Guðrúnu Ragnarsdóttur vera á lokastigi vinnslu, en tökur á henni fóru fram 2013. Heimildir Klapptrés herma að myndin sé væntanleg öðru hvoru megin við áramót.

Sjónvarpsþáttaröðin Borgarstjórinn fer í loftið á Stöð 2 þann 16. október. Tveir af þremur leikstjórum þáttaraðarinnar eru konur, Gagga Jónsdóttir og María Reyndal.

Tökur standa nú yfir á tveggja þátta sjónvarpsverkinu Líf eftir dauðann. Vera Sölvadóttir leikstýrir og skrifar handrit. Verkið verður sýnt um næstu páska.

Guðný Halldórsdóttir hefur fengið vilyrði fyrir framleiðslustyrk til að gera bíómyndina Ævinlega velkomin eftir eigin handriti. Tökur munu fara fram á næsta ári.

Ásthildur Kjartandóttir hefur einnig fengið vilyrði um framleiðslustyrk til að gera bíómyndina Tryggðapant eftir eigin handriti sem byggt er á samnefndri skáldsögu Auðar Jónsdóttur. Tökur verða á næsta ári.

Samkvæmt gögnum Kvikmyndamiðstöðvar fékk hærra hlutfall kvenna styrki til verkefna sinna á árunum 2013 og 2014 en karla. Þó skal tekið fram að hér var um að ræða handrits- og framleiðslustyrki fyrir allar tegundir mynda, þ.e. leiknar kvikmyndir í fullri lengd, leikið sjónvarpsefni, heimildamyndir og stuttmyndir.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR