Hilmar Oddsson rektor KVÍ: Frá vori til sumars

KVÍ-útskrift-vor-2016Útskriftarhátíð Kvikmyndaskóla Íslands hefst í Bíó Paradís í dag og stendur fram á laugardag. Til sýnis eru verk nemenda sem unnin hafa verið á önninni og er öllum heimill ókeypis aðgangur. Í útskriftarhefti skólans ritar Hilmar Oddsson rektor stutt ávarp sem hann hefur gefið Klapptré leyfi til að birta.

Dagskrá útskriftarsýninga má sjá hér.

Hilmar Oddsson rektor KVÍ.
Hilmar Oddsson rektor KVÍ.

Það er komið vor, íslenskt vor. Veit einhver hvað það þýðir? Er það ekki soldið svona kaldur og svalandi hvorki – né – tími? Við Íslendingar þekkjum veturinn, hann er okkar tími og við þekkjum sumarið, íslenska sumarið bjarta og fagra, sem minnir helst á þann tíma sem aðrar þjóðir kalla vor. Íslenskt vor er hins vegar yfirleitt tími vonbrigða, tími þegar reynir á langlundargeð og þolinmæði. Getur verið að Júróvisjón sé eins konar samnefnari íslenska vorsins, það vantar hvorki væntingarnar fyrir fram, né vonbrigðin eftir á?

Við höfum undanfarin tuttugu ár talað um vor í íslenskri kvikmyndagerð. Er það liðið? Er kannski komið sumar?

Höfundar íslenskra verðlaunamynda síðustu tveggja ára hika ekki við að tala um sumar. Og fjölmiðlar fylgja þeim. Og kannski er það einmitt raunin, eitt er alla vega víst, vorið er þegar orðið eitt hið lengsta í manna minnum, það hlýtur því einfaldlega að vera komið sumar – íslenskt kvikmyndasumar. Það verður svo auðvitað alls konar, eins og þetta árlega, sól fyrir norðan og rigning fyrir sunnan, – eða var það öfugt? Skin og skúrir.

Við höfum staðið okkur ákaflega vel á flestum sviðum kvikmyndagerðar að undanförnu. Við höfum búið til íslensk kvikmyndaverk sem hafa náð að nema lönd og hjörtu um víðan völl. Við höfum unnið til eftirsóttra verðlauna og erum sannarlega orðin þekkt stærð meðal erlendra kvikmyndaáhugamanna. En það gerðist ekki á einni nóttu, það kom ekki bara allt í einu sumar. Að baki er rúmlega þrjátíu ára tilrauna- og áhættustarfsemi, því við stukkum engan veginn alsköpuð úr höfði Seifs, vegferð íslenskrar kvikmyndagerðar er vörðuð mistökum, fjárskorti, reynsluleysi, en engu að síður, og það er mjög mikilvægt, einstaka sigrum. Á undan Grími, Degi, Rúnari og Balta fóru Friðrik Þór Friðriksson, Ágúst Guðmundsson og hinn litríki Hrafn Gunnlaugsson. Þeir færðu fjöll og vörðuðu veginn, ásamt ýmsu metnaðarfullu meðreiðarfólki.

Og það var ekki bara á tjaldinu sem þurfti að heyja baráttuna, hún fór einnig fram í pólitíkinni, bæði hinni stóru og smáu. Þetta fólk, sem oft átti í innbyrðis átökum og deilum, var í þessu upp á líf og dauða, það eignaðist heiminn og missti síðan hraðar en auga fékk á fest. Hin nýja kynslóð íslenskra kvikmyndagerðarmanna er skynsamari, hún er raunsærri, hún hefur lært af mistökum þeirra sem á undan gengu. Og umhverfið er vinsamlegra, faglegra. Íslensk kvikmyndagerð er í dag viðurkennd listgrein, viðurkenndur iðnaður, viðurkennd atvinnugrein. SÍK er orðinn hluti af SA (Samtökum atvinnulífsins) og FK er að ganga í Rafiðnaðarsambandið.

Við í KVÍ þykjumst einnig sjá fyrir endann á löngu og rysjóttu vori. Ég þori ekki að ganga svo langt að fullyrða að það sé komið sumar í Kvikmyndaskóla Íslands, en víða má líta efnilega sprota. Þriggja ára þjónustusamningur við stjórnvöld var undirritaður á Þorláksmessu sl. ár, HÍ féllst á að taka upp formlegar viðræður við okkur um samstarf og við munum að öllum líkindum fara af stað í ágúst með fyrsta erlenda bekkinn í nýrri alþjóðlegri handrita- og leikstjórnardeild.

Það er margt spennandi framundan, ekki einungis í kvikmyndagerðinni. Við ætlum að kjósa okkur nýjan forseta, við ætlum að vinna sigra á EM, ef ekki á vellinum þá í hjörtum Evrópubúa, síðan ætlum við að kjósa okkur nýtt og betra þing, þing sem byggir á traustum siðferðisgildum og skilur tímanna tákn og mikilvægi skapandi greina. Og þá verður gaman að vera Íslendingur. Ég ætla að vera bjartsýnn og segi því fullum fetum: Gleðilegt sumar.

Hilmar Oddsson, rektor KVÍ

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR