Þegar stjórnvöld sigruðu menninguna

Hvernig þriðjungs niðurskurður Kvikmyndasjóðs er áframhaldandi vöxtur íslenskrar kvikmyndagerðar og sérstakar ívilnanir til erlendra stórverkefna er glæsilegur sigur íslenskrar menningar.

Í kvikmyndabransanum er fólki heitt í hamsi enda átti enginn von á að Kvikmyndasjóður yrði skorinn niður við trog í kjölfar nýrrar Kvikmyndastefnu sem kveður á um eflingu sjóðsins til tíu ára. Sömuleiðis kannast enginn við að hækkunin sem boðuð var haustið 2020 hafi verið „tímabundið fjárfestingarátak“ eins og menningar- og viðskiptaráðherra heldur nú fram. Þetta er í besta falli eftiráskýring og ekki traustvekjandi.

Hækkunin 2021 var þannig kynnt haustið 2020: „Breytingar í fjárheimildum milli ára endurspegla innleiðingu nýrrar kvikmyndastefnu sem unnið hefur verið að á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins undanfarin misseri.“ (Kvikmyndastefnan var lögð fram stuttu síðar).

Ekki orð um „tímabundið fjárfestingarátak.“

Ári síðar eru framlög til Kvikmyndasjóðs á pari við fyrra ár og aftur útskýrð með vísun til Kvikmyndastefnunnar. Aftur er ekkert minnst á „tímabundið fjárfestingarátak.“

Það sem raunverulega er að gerast er að önnur forgangsröðun hefur verið ákveðin. Slík ákvörðun er vissulega kjörinna fulltrúa að taka, en hún er ekki í samræmi við það sem fram kemur í Kvikmyndastefnunni og þær áherslur sem ráðherra menningarmála hefur kynnt frá útkomu hennar.

Sigur íslenskrar menningar?

Boðaður risa niðurskurður kemur aðeins fáeinum dögum eftir að ráðherrann skrifar frá Hollywood um verkefnið True Detective og aukinn fjárfestingaráhuga alþjóðlegra kvikmyndafyrirtækja á Íslandi í kjölfar hækkunar endurgreiðslunnar sem „gríðarlegan sigur fyrir íslenska menningu“. Margir hváðu, enda ekki um að ræða verkefni á íslensku forræði, engir Íslendingar á skapandi póstum og Ísland ekki sögusvið.

Ragnar Bragason formaður Samtaka kvikmyndaleikstjóra orðaði það svo:

„Og nota bene, fyrir þá sem halda að erlend þjónustuverkefni jafngildi íslenskri kvikmyndagerð: Með fullri virðingu, þetta ágæta verkefni […] er ekki kynning á íslenskri menningu eða getur talist slík á neinn hátt. Þarna er Ísland nýtt sem staðgengill fyrir Alaska og allt verður gert til að láta líta þannig út. Auk þess sem engir íslendingar eru í skapandi lykilstöðum.“

Í kvikmyndagreininni hefur hækkun endurgreiðslu upp í 35% með skilyrðum almennt verið vel tekið, þó efasemdarraddir heyrist einnig um útfærsluna. Þó hækkunin sé fyrst og fremst miðuð við erlend stórverkefni (einhver íslensk verkefni munu væntanlega njóta hennar), er skilningur á því að þetta veitir fólki í bransanum vinnu, leiðir vonandi til fjölgunar starfa og styður við rekstur sumra þjónustufyrirtækja í greininni, auk annarra afleiddra áhrifa í samfélaginu. Aukin verkþekking fylgir þessu einnig. Þetta er af hinu góða.

Almennt nýtur endurgreiðslukerfið mikils stuðnings innan bransans enda var því komið á fyrir baráttu kvikmyndagerðarmanna og hefur komið íslenskri kvikmyndagerð vel í erfiðu fjármögnunarumhverfi.

Þjónusta við erlenda kvikmyndaframleiðendur er hinsvegar ekki mikilvægasta mál íslenskrar kvikmyndagerðar, heldur að efla þá list- og menningarsköpun sem við sjálf stöndum fyrir. Með þessu er ekki á nokkurn hátt verið að gera lítið úr þjónustuhluta greinarinnar og því góða starfi sem þar er unnið. Það er hinsvegar mikilvægt að forðast það að þjónusta við erlenda framleiðendur verði ríkjandi þáttur greinarinnar og íslensk kvikmyndagerð hliðargrein. Með sérstökum aðgerðum sem miðuð eru að erlendum stórverkefnum er ákveðin hætta á slíkri þróun líkt og borið hefur á víða um heim. Þetta þýðir að bæði bransinn og stjórnvöld þurfa að vera vakandi yfir aðalatriðinu, sem er efling íslenskrar kvikmyndagerðar. Að skera Kvikmyndasjóð niður um þriðjung er því skref í kolranga átt.

Uppbygging okkar eigin kvikmyndagerðar er forgangsatriði, helsti tilgangurinn með þessu öllu saman. Að sjálfsögðu fylgir því mikil og margskonar samþætting og samstarf við erlendra aðila.

Og þá komum við að Kvikmyndastefnunni.

Um hvað snýst Kvikmyndastefnan?

Kvikmyndastefnan, sem ráðherra menningarmála, Lilja Alfreðsdóttir, lagði fram haustið 2020 er gott plagg og vel unnið. Hún var sett saman af hópi fólks úr kvikmyndagreininni, stjórnsýslunni, þinginu og akademíunni og tók á mörgum brýnum málum. Stefnan var sett fram sem áætlun um uppbyggingu greinarinnar til tíu ára eftir langt tímabil þar sem stefnumótun hafði skort samfara miklum og oft snöggum sveiflum í lykilfjármögnun greinarinnar, framlögum ríkisins til Kvikmyndasjóðs.

Kvikmyndagreinin lofaði ráðherra menningarmála og þáverandi formaður SÍK sagði stefnuna marka nýtt upphaf fyrir greinina. Ráðherrann fékk sérstakt pláss á Eddunni 2020 til að kynna stefnuna (sjá klippuna að neðan) við góðar undirtektir.

Stefnan inniheldur fjögur meginmarkmið og innan hvers þeirra eru tilteknar aðgerðir útlistaðar, alls tíu. Efling Kvikmyndasjóðs er aðgerð 1 ásamt stofnun sérstaks fjárfestingarsjóðs fyrir sjónvarpsverkefni. Aðrar aðgerðir eru meðal annars háskólamenntun í kvikmyndagerð, bætt miðlun kvikmyndaarfsins, sjálfbærni, fjölskylduvænna starfsumhverfi og starfslaun höfunda kvikmyndaverka. Fjallað er um áframhaldandi þróun endurgreiðslukerfisins í markmiði 3 undir aðgerð 6. Það er því vissulega eitt þeirra atriða sem skoða þarf, en birtist ekki sem það allra brýnasta, líkt og efling Kvikmyndasjóðs.

Hér er klippa þar sem gerð er grein fyrir helstu áherslum stefnunnar. Takið eftir því hvar helstu áherslur liggja og hvernig ráðherra kynnir hana sem metnaðarfulla en raunsæja.

Starfsumhverfi kvikmyndagreinarinnar er mikill ólgusjór

Kvikmyndagreinin hefur lengi búið við miklar sveiflur og óöryggi hvað varðar fjármögnunarumhverfið. Kunnuglegt mynstur er að vonir glæðast með auknum framlögum í sjóðinn en það stendur yfirleitt stutt. Þá tekur lengra skerðingartímabil við uns loks kemur aftur hækkað framlag og jafnvel plan til nokkurra ára. Fólk rýkur af stað, gerir sínar áætlanir og undirbýr verkefni. Svo kemur aftur stór niðurskurður stuttu síðar. Þannig gengur þetta koll af kolli og nú á að endurtaka leikinn einu sinni enn.

Kvikmyndagreinin sætti herfilegum niðurskurði í kjölfar hruns (2009 og 2010), mun meiri en aðrar menningargreinar. Nokkrum árum fyrr, 2006, hafði verið gert samkomulag við bransann um nær tvöföldun framlaga 2007-10. Það rann út í sandinn 2009. Framlög voru síðan lág næstu árin, en haustið 2012 lagði þáverandi ríkisstjórn fram áætlun um mikla aukningu framlaga til nokkurra ára. Sjóðurinn hækkaði því verulega 2013, en dýrðin stóð ekki lengi. Ári síðar lagði ný ríkisstjórn áætlunina niður og sjóðurinn sætti gríðarlegum niðurskurði, um 42%. Framlög hækkuðu síðan smám saman og þróunin var á réttri leið.

Súluritið hér að neðan sýnir þetta ágætlega, rauða línan sýnir hvernig framlögin hefðu átt að vera 2010 miðað við samkomulagið 2006. Tíu árum síðar voru framlög enn undir því markmiði að raunvirði en þokuðust þangað. Þau fóru síðan yfir 2010 viðmiðið 2021, ellefu árum síðar. Nú hafa þau verið skorin niður í svipaða upphæð og 2016. Rétt er að benda á að á þessu tímabili fjölgar verkum mikið sem og störfum í kvikmyndagerð.Fastir liðir eins og venjulega

Grafið sýnir vel þær sveiflur sem fólkið í greininni hefur lengi mátt búa við, með tilheyrandi óöryggi og erfiðleikum í áætlanagerð og grunnfjármögnun (margskonar önnur fjármögnun kemur einnig til, en þetta er undirstaða annarrar fjármögnunar). Þetta hefur auðvitað mikil áhrif á þau sem starfa í greininni og um leið þeirra nánustu. Allan þennan tíma og lengur hefur bransinn lagt á það áherslu að fyrirsjáanleiki sé lykilatriði í uppbyggingu greinarinnar. Í fyrradag hamraði stjórn SÍK enn og aftur á þessu í yfirlýsingu þar sem niðurskurðurinn er harmaður:

„Fyrirsjáanleiki í stuðningsumhverfi kvikmyndaiðnaðar skiptir sköpum. Ákvarðanir um fjárfestingu í verkefnum eru teknar á grundvelli opinberra vilyrða og áætlana. Um er að ræða verulegar fjárfestingar í hverju verkefni en ferli kvikmyndaverkefna frá hugmynd til sýningar telur oft á tíðum í fjölda ára. Það skiptir því verulegu máli að samræmi sé í opinberum yfirlýsingum og stefnum og svo aðgerðum, til að mynda fjárlögum.“

Það sem vantaði þegar Kvikmyndastefnan var lögð fram var áætlun um fjármögnun aðgerðanna til tiltekins tíma í senn líkt og gert hafði verið með samkomulagi við greinina á nokkurra ára fresti allt frá 1998. Vissulega varð oft misbrestur á efndum en með því að standa við slíkt samkomulag verður ákveðinn fyrirsjáanleiki sem er nauðsynlegur til uppbyggingar og áætlanagerðar bæði fólks og fyrirtækja í greininni. Fyrir því verður auðvitað að vera pólitískur vilji. Hann kom skýrt fram með framlagningu Kvikmyndastefnu til ársins 2030. En meðan samkomulag um fjármögnun stefnunnar liggur ekki fyrir er hún aðeins fögur fyrirheit.

Allt á fullu?

Reynt er að réttlæta niðurskurðinn í pistli á vef Stjórnarráðsins sem ber hið skondna öfugmælaheiti „Áframhaldandi vöxtur íslenskrar kvikmyndagerðar„. Í niðurlaginu lofar ráðherra menningarmála öllu fögru:

„Þrátt fyrir aðhald og frestun hluta fjárfestingarátaks til ársins 2024 er unnið ötullega að framkvæmd kvikmyndastefnunnar sbr. væntanlegar breytingar á lögum um Kvikmyndasjóð. Áfram er stefnt að því að efla Kvikmyndasjóð í samræmi við áherslur í kvikmyndastefnu til 2030 og setja á fót nýjan sjóð fyrir sjónvarpsefni.“

Í ljósi þeirrar stefnu sem birtist í núverandi fjárlagafrumvarpi, auk eftiráskýringa um „tímabundið fjárfestingarátak“, er pínu erfitt að taka þetta alvarlega nema snúið verði af þeirri braut að skera framlög til Kvikmyndasjóðs niður.

Skrýtin staða

Í fjárlögum hverju sinni birtist forgangsröðun. Komin er upp afar einkennileg staða. Með niðurskurði á framlögum til Kvikmyndasjóðs og hækkun endurgreiðslu með sérstökum skilyrðum hafa stjórnvöld tekið þá stefnu að veita stórum erlendum kvikmyndaverkefnum sérstakar ívilnanir en um leið skera íslenska kvikmyndagerð niður og kasta til hliðar áframhaldandi framkvæmd hinnar nýju Kvikmyndastefnu.

Það er bæði óskiljanleg og óásættanleg niðurstaða.

Teikning Gunnars Karlssonar hér að neðan súmmerar vel upp þá stöðu sem ráðherra menningarmála er nú í. Þess má geta að Gunnar er meðhöfundur kvikmyndanna Þór: Hetjur Valhallar og Lói – þú flýgur aldrei einn sem báðar hafa verið sýndar milljónum manna um veröld víða.

Teikning eftir Gunnar Karlsson.

 

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR